Nemandi 8. bekkjar hlýtur viðurkenningu í handritasamkeppni Árnastofnunar
Í tilefni af því að 21. apríl 2021 voru liðin 50 ár frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku stóð grunnskólanemendum til boða að taka þátt í handritasamkeppni Árnastofnunar. Nemendur höfðu frjálsar hendur og af þeim hátt í hundrað handritum sem bárust í keppnina voru efnistökin afar fjölbreytt. Nemendur í eldri deild GD tóku þátt í samkeppninni en í kjölfar heimsóknar fræðara Árnastofnunnar þeirra Snorra og Jakobs hófu nemendur að kynna sér heim handritanna, efniðvið og aðferðir. Efni af vefnum Handritin til barnanna kom sér afar vel í þessu ferli en nemendur skoðuðu einnig Íslensku Teiknibókina í útgáfu Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings ásamt fleiru. Að lokum völdu nemendur sér texta sem tengist Drangsnesi og Grímsey og efnivið en fyrir valinu varð annars vegar lambaskinn og næfurkolla.
Þær Guðbjörg Ósk og Kristjana Kría Lovísa unnu saman að því að skrifa upp brot af þjóðsögunni af tilurð Kerlingarinnar og Grímseyjar á skinn og máluðu mynd af bæði Kerlingunni og eyjunni. Sara Lind valdi brot úr ljóði Björns Guðmundssonar frá Bæ, Grímsey á Steingrímsfirði, sem birtist m.a. í safninu Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi. Ljóðið skrifaði Sara Lind upp á næfurkollu ásamt því að mála mynd af eyjunni okkar, Grímsey.
Síðasta vetrardag var tilkynnt hvaða handrit fengu sérstaka viðurkenningu og var eitt þeirra handrit Söru Lindar Magnúsdóttur.
Eins og segir á heimasíðu Árnstofnunar var handritasamkeppnin haldin í samstarfi við Sögur – verðlaunahátíð barnanna en í júní verður eitt handrit verðlaunað sem Ungdómshandritið 2021 á Sögum verðlaunahátíð barnanna.
Dómnefnd var skipuð þeim Gísla Sigurðssyni, Arndísi Þórarinsdóttur og Goddi.
Við óskum Söru Lind innilega til hamingju með viðurkenninguna.