Leiðarljós

Leiðarljós Grunnskólans á Drangsnesi er að þar sé stundað skólastarf sem skapar öllum
nemendum tækifæri og rými til að efla sjálfstæði sitt, ábyrgð og sjálfsþekkingu. Í
Grunnskólanum á Drangsnesi eru allir nemendur einstakir og rík áhersla lögð á að hampa
fjölbreytileikanum og skapa svigrúm til að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín. Jákvæð
viðhorf, gleði, samkennd og vinátta eru hornsteinn í skólastarfinu enda öll viðfangsefni
auðveldari með jákvæðnina að vopni.
Í skólanum fá nemendur að takast á við fjölbreytt verkefni út frá ólíkum sjónarhornum þar sem
styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Í daglegu starfi er lögð áhersla á að skólinn sé
síbreytilegur, í stöðugri þróun og með aðlögunarhæfni til að koma til móts við ólíka
samsetningu nemendahópsins hverju sinni, mismunandi þarfir nemenda og áhugasvið þeirra.
Grunnskólinn á Drangsnesi er fámennur skóli og það mótar skólastarfið en það byggir á
samkennslu árganga sem hefur það m.a. í för með sér að aukið svigrúm er fyrir hvern og einn
að fara á sínum hraða í gegnum grunnskólann. Í fámennu sveitarfélagi eins og
Kaldrananeshreppi hefur grunnskólinn mikilvægu hlutverki að gegna og skipa viðburðir í og á
vegum skólans stóran sess í menningarlífi hreppsins m.a. með árlegri leiksýningu (árshátíð)
sem íbúar og aðrir sem dvelja í hreppnum sækja. Skólinn er samkomuhús og m.a. nýttur
undir félagsstarf íbúa Kaldrananeshrepps. Við störfum í nánum tengslum við samfélagið sem
styður svo sannarlega við skólastarfið og eflir það. Í skólastarfinu leggjum við okkur fram við
að taka mið af náttúrulegu og menningarlegu umhverfi í leik og starfi ásamt því að huga að
stöðu okkar og áhrifum í heiminum öllum. Það reynist fámennum skóla dýrmætt að eiga í
góðu samstarfi við aðra skóla og taka þátt í þeim fjölmörgu verkefnum sem í boði eru á ári
hverju og hjálpa okkur að víkka út sjóndeildarhringinn. Við skólann starfa fáir kennarar sem
vinna að mestu leyti í teymum og fá þar að auki til liðs við sig gestakennara sem auka enn á
fjölbreytileikann og tryggja lifandi og síbreytilega starfsemi í skólanum.