Námsgreinar

Námsgreinahluti skólanámskrárinnar er byggður á Aðalnámskrá grunnskóla.  Hæfniviðmiðin eru fengin úr aðalnámskrá og eru viðfangsefnin sem skilgreind eru að finna í hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Lögð er rík áhersla á fjölbreyttar leiðir að því marki að ná hæfniviðmiðum m.a. með samþættingu námsgreina, samkennslu, einstaklingsmiðuðu námi og ólíkum kennsluaðferðum allt eftir því hvað hentar bæði viðfangsefninu og nemendahópnum. Kennarar leggja sig fram við að tileinka sér nýjar kennsluaðferðir og er árleg endurmenntun t.d. sameiginlegur endurmenntunardagur skólanna á svæðinu, námskeið og þátttaka í ráðstefnum snar þáttur í að tryggja bæði nýjar og fjölbreyttar aðferðir í kennslu allra námsgreina.  

Námsmat  fer fram jafnt og þétt á námstíma nemenda og eru allir þættir námsins metnir miðað við hæfniviðmið aðalnámskrár. Lögð er áhersla á fjölbreyttar matsaðferðir sem hæfa viðfangsefnum hverju sinni. Símat, sjálfsmat, jafningjamat og foreldramat eru meðal þeirra leiða sem farnar eru. Í lok hverrar annar eru verkefnavikur sem nýttar eru til þess að ljúka ákveðnu námstímabili og eða vinnuferli m.a. með fjölbreyttum lokaverkefnum, skilum á ferilmöppum, könnunum, prófum og eða annars konar námsmati. Kennarar nýta sér einnig leiðsagnarmat sem byggir á markvissri endurgjöf þar sem nemendum er leiðbeint um hvað þeir þurfa að gera betur til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Samráðsfundir eru í lok hverrar annar en þeir eru ætlaðir til þess að fara yfir gang námsins, líðan nemenda og hvað það er sem getur tryggt að sem bestur árangur verði í námi og skólastarfi. Auk slíkra funda hafa greinakennarar eftir verkefnavikur farið yfir stöðuna í hverri grein fyrir sig með sínum nemendum og kortlagt á hvað skal leggja áherslu í framhaldinu, að hvaða þáttum þarf að huga sérstaklega o.s.frv. 

Fylgjast má með námsframvindu nemenda í gegnum námsumsjónarkerfið Námfús og eða námsforritið SeeSaw, GoogleClassroom eða eftir öðrum leiðum sem kennari kynnir í upphafi skólaárs eða hverrar námslotu. Nemendur fá fjölbreytt tækifæri til að sýna fram á hæfni sína eins og aðalnámskrá kveður á um og er markmiðið ávallt að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín eins og segir í stefnu skólans.  

Við lok 10. bekkjar eru nemendur metnir miðað við þau matsviðmið sem birt eru í Aðalnámskrá þar sem A hæfni, B hæfni og C hæfni hefur verið skilgreind í hverjum námsþætti. Í yngstu deild hafa nemendur fengið ítarlega umsögn í lok hverrar annar en á miðstiginu hefur verið stuðst við umsögn, samtal í lok hverrar annar, einkunnum og tölustöfum (0-10). Í valgreinum fá nemendur auk umsagnar staðist (S) eða fallið (F). 

 Áherslur grunnþátta menntunar eru settar fram í  eftirfarandi markmiðum sem eiga við allar bekkjardeildir. 

 

Jafnrétti

Hafa ber fjölmarga þætti í huga þegar tryggja á jafnan rétt til náms; námshópar, námsmat, kennsluhættir og námsefni eru meðal þeirra. Tryggja skal að allir nemendur Grunnskóla Drangsness hafi sömu tækifæri til náms og taki þátt í öllu skólastarfi. Ákvarðanir sem varða allt skólastarf grundvallast á því að þjóna jafnréttishugsuninni, hvort sem um ræðir námsefni, kennsluhætti, námsmat eða annað er viðkemur námi og kennslu við skólann. Jafnréttisfræðsla fer m.a. fram í gegnum bókmenntalestur, lögð er áhersla á að kynna og vinna með margvíslegar fyrirmyndir og gera nemendum grein fyrir sögu jafnréttisbaráttunnar, breytilegri stöðu kynjanna, jaðarhópum o.s.frv. Staðalímyndir, kynbundið ofbeldi, félagsleg mótun, eðlishyggja o.s.frv. eru meðal þeirra grunnhugtaka sem unnið er með í öllum námsgreinum. Stór hluti þeirrar fræðslu sem fram fer í skólanum og hefur það að markmiði að efla skilning nemenda á jafnréttishugtakinu ásamt því að tryggja góða starfshætti meðal kennara sem byggja á þessum grunnþætti er í höndum gestafyrirlesara sem stjórnað hafa stuttum námskeiðum þar sem mannréttindakennsla er í forgrunni.  Fulltrúar tiltekinna hópa s.s. eins og hinsegin fólks, fatlaðra o.fl. hafa heimsótt skólann og haldið utan um námskeið og fyrirlestra í tengslum við árlegar vitundarvakningavikur. 

Læsi

Læsi felur í sér lestur, talað mál, ritun og hlustun en eins og sjá má í umfjöllun um aðra grunnþætti menntunar og hér að neðan er eitt af sérkennum alls náms í Grunnskóla Drangsness rík áhersla á náttúrulæsi, myndrænt læsi, talnalæsi og menningarlæsi. Þegar litið er yfir skipulag náms í t.a.m. náttúru- og samfélagsgreinum má glögglega sjá að sjónlistir eru nýttar til þess að ýta undir skilning og þekkingu nemenda á viðfangsefnum námsins. Þannig hefur það m.a. reynst vel að tengja saman kennslu í náttúrugreinum og sjónlistum þar sem hugmyndaheimur náttúrugreina er m.a. kannaður með aðstoð listasögunnar og slíkt hið sama má segja um bókmenntakennslu við skólannn þar sem verk úr smiðju ólíkra listamanna frá ýmsum tímum eru nýtt til þess að kveikja áhuga og skilning nemenda á þeim bókmenntatextum sem unnið er með hverju sinni. Í lestrarstefnu skólans sem unnin var skólaárið 2015-2016 í kjölfar undirritunar Þjóðarsáttmála um læsi má greina stefnu skólans í grunnþættinum læsi eins og það er skilgreint út frá lestri, lesskilningi o.s.frv. Meðal þess sem unnið er að daglega í Grunnskóla Drangsness er sameiginleg lestrarstund þar sem tiltekin verk og höfundar eru lesin, rædd, túlkuð og skoðuð út frá ýmsum hliðum og eftir ólíkum leiðum. Allt náms- og skólaumhverfið tekur mið af því að efla læsi nemenda í sem víðustum skilningi, þannig er sem dæmi myndrænt efni, tölulegar upplýsingar o.s.frv. víða að finna á veggjum skólans. Auglýsingar, kvikmyndir, stafrænir miðlar – sér í lagi samfélagsmiðlar – og annað efni sem er stór hluti af veruleika og daglegu lífi nemenda er rætt og unnið með það á markvissan hátt þvert á námsgreinar. Náttúrulæsi og læsi á nærumhverfi skipar mikilvægan sess í námi og kennslu við skólann en snar þáttur í eflingu náttúrulæsis er vinna í gróðurhúsi skólans og skólalundi í Bjarnarfirði. Lesið er í landslag, veður o.fl. sem styrkir vitund, skilning og virðingu nemenda fyrir náttúrunni og áhrifum hennar á daglegt líf þeirra. 

Lýðræði, lýðræði, lýðræði!

Lýðræðisþjálfun er iðkuð í öllu skólastarfinu. Lögð er áherslu á að efla þekkingu nemenda á lýðræðislegum vinnubrögðum og að þeir þjálfast í þeim. Mikil áhersla er lögð á kurteisi í samskiptum og virðingu fyrir ólíkum skoðunum innan hópsins. Lagt er upp með að nemendur hafi greiða leið að kennurum og starfsfólki skólans til að koma með ábendingar eða gagnrýni og að hlustað sé á þá af heilum hug. Snar þáttur í virkri þátttöku nemenda við umbætur og breytingar á starfi skólans er skólafundur sem haldinn er tvisvar sinnum á hverju skólaári þar sem nemendur koma með tillögur að breytingum og setja fram óskir sínar varðandi skólastarfið. Skólafundur er mikilvægur umræðuvettvangur um allt starf sem fer fram innan skólans og hefur skilað jákvæðum breytingum á skólastarfinu.  

Sjálfbærni

Í skipulagi skólastarfs Grunnskóla Drangsness er litið svo á að snertiflöt sé að finna á milli sjálfbærni og allra þátta daglegs lífs. Þannig snerti sjálfbærni ekki aðeins umhverfismál heldur einnig m.a. félagslegt réttlæti, heilsu, velferð, menningarmál og efnahagslíf. Nemendur fá færi á að rannsaka, ræða og vinna margvísleg verkefni þar sem sú hugmynd að náttúran setji okkur takmörk og að okkur beri ekki aðeins að virða þau takmörk heldur vinna að því þvert á allar námsgreinar að sinna því brýna samfélagslega verkefni að breyta bæði hugsun okkar og hegðun með það að markmiði að hlúa að náttúrunni og um leið okkur sjálfum. Meðal verkefna sem nemendur vinna sem opna eiga þeim leið að aukinni þekkingu á hugtakinu sjálfbærni og ekki hvað síst að tryggja að sú þekking hafi áhrif á breytni þeirra t.d. umgengni og samband við náttúruna eru árlegar matjurtasmiðjur, könnun á því hvaðan maturinn kemur og neysluvenjum okkar, dvöl í sveitaskóla og margvíslegt efni m.a. af vefnum Norden i skolen sem nýttur er með markvissum hætti í kennslu erlendra tungumála, samfélagsfræði og náttúrufræði.  Þekking á sögu Kaldrananeshrepps og þróunar byggðar í sveitarfélaginu (átthagafræði) hefur einnig verið snar þáttur í því að auka skilning nemenda á breyttum lífsháttum sem hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir umhverfi okkar, mannlíf og búsetuskilyrði. Árlega eru unnin verkefni sem miða að því að hvetja nemendur til þess að skapa framtíðarsýn fyrir sitt nærumhverfi og setja það í samhengi við líf og umhverfi í öðrum löndum og menningarheimum. 

Sköpun

Við elskum alla sköpun og hún er lögð til grundvallar í öllum námsgreinum í öllum deildum skólans óháð viðfangsefnum. Kennarar skuldbinda sig til þess að gefa nemendum ávallt færi á að efla þekkingu sína og miðla henni með skapandi hætti. Unnið er með fjölbreyttan efnivið sem reynir á hæfileika nemenda til þess að uppgötva nýjar leiðir, ýta undir forvitni, áhuga og leikgleði. Nemendur fá sem oftast að vinna að sköpun úr efnivið úr nærumhverfinu og átti sig á sérkennum svæðisins og geti leitað fanga í náttúrunni þegar leysa á verkefni í ólíkum greinum. Stór hluti náms í íslensku fer fram í gegnum skapandi skrif sem nýtt eru til þess að efla færni nemenda í lestri, lesskilningi, ritun o.s.frv. Fólk sem vinnur í skapandi greinum (rithöfundar, hönnuðir, myndlistarmenn o.fl.) er reglulega boðið í heimsókn og sinna m.a. kennslu í gestakennarasmiðjum. Slíkar heimsóknir leika lykilhlutverk í því að bjóða upp á fjölbreytt nám við skólann þar sem sköpun og leikur eru í forgrunni. 

Heilbrigði og velferð

Meginmarkmið menntunar um heilbrigði og velferð er að stuðla að heilsueflingu og velfarnaði nemenda, einkum andlegri, líkamlegri, tilfinningalegri og félagslegri vellíðan þeirra.  Grunnskólinn á Drangsnesi leggur áherslu á að hlúa markvisst að þroska og heilbrigði nemenda á sem víðtækastan hátt. Lögð er áhersla á að nemendur komi með hollt og gott nesti og að þau fái þau skilaboð að það að borða hollan mat hafi áhrif á árangur í skóla og frístundum. Hvatt er til útiveru og hreyfingar auk þess sem lagt er upp með að nemendur fái alls kyns fræðslu og stuðning sem stuðlar að því að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði, sérstaklega andlegu, tilfinningalegu og félagslegu. Sem dæmi má nefna að í október eru haldnar vitundavakningarvikur þar sem koma fyrirlesarar frá ´78, Tabú o.fl. Einnig hefur verið haldinn fyrirlestur um jákvæð samskipti og á skólaárinu 2019-2020 munu fulltrúar frá Kvan koma í heimsókn og halda bæði erindi og stutt námskeið um hvernig við getum hlúð að okkur sjálfum og bætt andlega líðan. Hjúkrunarfræðingur frá Heilbrigðiststofnun Vesturlands kemur í heimsókn tvisvar á hverju skólaári og heimsækir nemendur í öllum deildum með fyrirfram ákveðna fræðslu sem miðuð er sérstaklega að hverjum aldurshópi.  

Uppbygging skólanámskrár og sérkenni Grunnskóla Drangsness

Vinna við núgildandi skólanámskrá hófst formlega skólaárið 2015-2016 og er markmiðið að henni verði að fullu lokið eigi síðar en í  upphafi skólaársins 2020-2021. Skólanámskráin er í sífelldri þróun en megin tilgangur hennar er að gefa skýra mynd af uppbyggingu námsins og áherslum í skólastarfinu ásamt því að draga fram sérkenni skólans og í hverju sérstaða hans felst. Í fámennum skóla eins og grunnskólanum á Drangsnesi fer kennsla að mestu leyti fram í samkennslu árganga. Hér á eftir eru námsgreinarnar flokkaðar eftir greinasviðum og upplýsingar um vikulegan tímafjölda, námsefni, kennsluaðferðir, verkefni, námsmat og hæfniviðmið gefin upp fyrir hverja bekkjardeild en þær eru samtals þrjár; yngsta deild, miðdeild og unglingadeild. 

Nemendur í yngstu deild (1.-4. bekk) stefna að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla við lok 4.bekkjar.

Nemendur í miðdeild (5.-7. bekk) stefna að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla við lok 7.bekkjar.

Nemendur í unglingadeild (8.-10. bekk) stefna að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla við lok 10.bekkjar.