Grásleppusmiðja

Grásleppuvertíðin á vorin setur mark sitt á líf og störf í Kaldrananeshreppi. Grásleppuverkun á sér langa og merkilega sögu á Drangsnesi og því er afar mikilvægt að nemendur skólans þekki vel til þessarar sögu og átti sig á hlutverki grásleppunnar í lífi hreppsbúa. Markmið smiðjunnar er að nemendur kynnist starfsemi og starfsháttum í kringum grásleppuvinnslu í Fiskvinnslunni Drangi en áherslur eru breyttar eftir árgöngum sem dæmi fá nemendur í unglingadeild að taka þátt í vinnslunni en yngri nemendur vinna ýmis önnur verkefni ásamt því að heimsækja fiskvinnsluna, ræða við íbúa unga og aldna um allt er viðkemur grásleppunni o.s.frv. Grásleppusmiðjan er ein af föstum smiðjum skólaársins en er breytileg frá ári til árs.