Árshátíðarsmiðja

Á hverju ári, síðan elstu menn muna, hefur verið árshátíð daginn fyrir páskafrí þar sem nemendur Grunnskóla Drangsness stíga á svið með leik, söng og jafnvel dansi. Síðustu 10 ár hefur ferlið farið í markvissari farveg og síðan 2012 hefur verið eiginleg árshátíðarsmiðja. Vinnan hefst í janúar þar sem nemendur og kennarar funda og ræða hvers konar leiksýning eigi að vera að vori. Ýmislegt þarf að hafa í huga t.d. hvort að semja eigi verk og  hverjir eru áhorfendur. Allir hafa rödd á þessum fundum óháð aldri og allar hugmyndir skráðar niður. Á næsta fundi er atkvæðagreiðsla um hugmyndirnar og að því loknu hefst vinnan við sýninguna.

Ef semja á leikrit þá hefst vinna við að búa til persónur, söguþráð og fleira til að hægt sé að hefja æfingar. Meðal verka sem hafa verið s.l ár eru: Þríleikur Þorbjörns, verk byggt á leikritum Torbjorns Egner, Emil í Kattholti, Söngur um Nínu, verk byggt á lögum úr söngvakeppnum og Sossa, þar sem nemendur skrifuðu leikgerð upp úr bókum Magneu frá Kleifum.

 

Nemendur leikskólans hafa verið virkir þátttakendur í sýningum skólans síðan 2017 en áður opnuðu þeir kvöldið með söng.

Æfingaferlið er mislangt en tvær síðustu vikurnar eru nemendur alla jafna í Samkomuhúsinu Baldri þar sem æfingar fara fram.

Generalprufa fer fram seinnipartinn daginn áður og er boðið upp á kvöldmat eftir hana.

Á frumsýningardag mæta nemendur og tekin er æfing, hópefli auk þess sem nemendur taka þátt í að undirbúa salinn en eftir sýningu er kaffihlaðborð þar sem foreldrar og velunnarar skólans leggja til veitingar.

Undanfarin ár hafa gestir sýningarinnar verið yfir 100 sem verður að teljast mjög gott í sveitarfélagi sem telur rétt rúmlega 100 manns.