Íslenska sem annað tungumál
Námsgreinin íslenska sem annað tungumál snýr ekki aðeins að tungumálakennslu því veita þarf nemendum og aðstandendum þeirra víðtæka þjónustu og sem bestan stuðning. Lykilþáttur í að sem best takist til er gott og traust samstarf á milli heimilis og skóla. Starfsmenn skólans leita stuðnings víða m.a. hjá þeim aðilum sem þjónusta tiltekin mál- og eða menningarhóp hér á landi, fyrst um sinn eru reglulegir fundir þar sem túlkur er viðstaddur (í gegnum netið) og foreldrar fá ítarlegar upplýsingar um hvernig námi við skólann er háttað. Umsjónarkennari er tengiliður skólans við forráðamenn viðkomandi nemanda og veitir skólastjóri hinum stuðning eftir bestu getu og tryggir að sú þjónusta sem nemandi þarf á að halda berist hratt og vel.
Litið er svo á að nám í íslensku sem öðru máli fari fram í öllum námsgreinum og stefnt að því að nemandi öðlist fljótt góðan hugtakaskilning. Nemendur sem hafa íslensku ekki að móðurmáli fylgja einstaklingsnámskrá í öllum greinum þar sem góður skilningur á máli og menningu fer saman við eflingu sjálfstrausts og félagsfærni viðkomandi nemanda. Þegar nemandi sem hefur íslensku ekki að móðurmáli hefur nám við skólann fer fram móttökuviðtal þar sem upplýsingum um nemandann er safnað saman og samstarfi á milli forráðamanna og starfsmanna skólans er komið á. Umsjónarkennari í samstarfi við aðra kennara og forráðamenn setur saman einstaklingsnámskrá sem er reglulega endurskoðuð. Stuðningi sérkennara og skólasálfræðings er leitað eftir þörfum og vel fylgst með líðan og gengi nemandans á meðan hann er að fóta sig í nýju mál- og menningarumhverfi. Í öllum námsgreinum er lögð rík áhersla á að efla sjálfstraust nemanda og tryggja að hann hafi greiðan aðgang að aðstoð og fái færi á að komast sem fyrst inn í nemendahópinn – m.a. er vinaverkefni virkjað þar sem nemandi í sömu bekkjardeild og viðkomandi sér um að taka á móti nýjum nemanda og aðstoða hann við að komast fljótt og vel inn í bekkjardeildina. Eins og segir í starfsáætlun skólans, almennum hluta, fá nemendur sem hafa íslensku ekki að móðurmáli færi á að kynna og viðhalda bæði kunnáttu í sínu máli og tengslum við menningu síns heimalands með ýmsum verkefnum s.s. eins og verkefni sem unnið er í samstarfi við forráðamenn þeirra. Á opnum dögum skólans og ýmsum hátíðum s.s. eins og jólaskemmtun eru sungin lög á máli þeirra nemenda sem hafa íslensku ekki að móðurmáli og fleira gert til þess að halda sögu og menningu þeirra á lofti enda byggir móttaka allra erlendra nemenda í Grunnskóla Drangsness á virðingu og einlægum áhuga á menningu annarra sem felur í sér kærkomið tækifæri til að tryggja fjölbreytni í skólasamfélaginu og auðga það.
Í aðalnámskrá grunnskóla kemur eftirfarandi fram (sjá mynd hér að neðan) en þar eru hæfniviðmið í íslensku sem öðru máli sett fram í þremur flokkum; lestur, bókmenntir og ritun.
Meðal þess námsefnis sem myndar hryggjarstykkið í kennslu íslensku sem annars máls við skólann er: Orðagull, verkefni af vefnum Fölbreyttar kennsluaðferðir, Gott mál, Orðaleikur, léttlestrarbækur og annað efni sem hæfir getu og áhugasviði nemanda. Íslenska nýja málið mitt 1 og 2 Kæra Dagbók 1, 2 og 3 Hitt og þetta (lestrar- og vinnubók) Íslenska fyrir alla 1 og 2 Íslenska vísar veginn Orðasjóður (flettispjöl og útprentanlegt efni af vef) Íslenskuspilið Sagnorðaspilið Fallorðaspilið Lestrarspilið. Önnur verkefni frá kennara. Hugtakalistar nýttir í öllum námsgreinum og m.a. Námsforritið Quizlet notað í eldri bekkjum til þess að þjálfa hugtakaskilning og orðaforða nemenda.
Námsmat byggir á símati, leiðsagnarmati, stöðumati, gátlistum o.s.frv.
Ath. unnið er út frá tilteknum hæfniviðmiðum á hverri önn, sjá nánar í einstaklingsnámskrám og eða kennsluáætlun viðkomandi bekkjar. Starfsmenn vinna að ítarlegri námskrá í íslensku sem öðru máli.