Náttúrugreinar
Náttúrugreinar eru m.a. kenndar í smiðjum og eru matjurtasmiðjur og grásleppusmiðjur sem dæmi fastur liður í skólastarfinu ásamt öðrum smiðjum sem kenndar hafa verið á undanförnum árum; eld-smiðja, fuglasmiðja, plánetusmiðja o.s.frv. Lögð er rík áhersla á grunnþætti menntunar í kennslu náttúrugreina þó sér í lagi sjálfbærni, lýðræði og læsi sem setja mark sitt á alla kennslu í náttúrugreinum við skólann. Staðsetning skólans er með besta móti hvað viðkemur útikennslu í náttúrugreinum og er eitt af sérkennum hans að á skólalóðinni er um 60 fm gróðurhús sem byggt var fyrir rúmum tuttugu árum síðan ásamt sólskála í sjálfri skólabyggingunni þar sem forræktun matjurta fer fram. Auk þess hefur skólinn til umráða skólalund í landi Klúku í Bjarnarfirði þar sem nemendur nema árlega eða að hausti og vori undir stjórn kennara og Arnlínar Óladóttur plöntuvistfræðings og skógræktarráðgjafa Skógræktar ríkisins. Frá hausti 2018 hefur skólinn verið samstarfsaðili Sveitaskólans í Trékyllisvík sem þróunarverkefni í Árneshreppi vegna fækkunar barna í sveitarfélaginu. Grunnskólinn á Drangsnesi hefur tekið þátt í því þróunarstarfi frá upphafi. Verkefnið er stutt af Byggðastofnun og sveitarfélaginu í Árneshreppi.
Nemendur úr grunnskólanum á Drangsnesi hafa farið í ferðir norður í Árneshrepp, gist í gamla skólahúsinu og tekið þátt í hefðbundnum og árstíðabundnum störfum í sveitinni. Megin áherslan er lögð á að eiga í góðri samvinnu við íbúa og að börnin fái að taka þátt í þeim störfum sem þarf að sinna hverju sinni. Haustið 2018 var tekið þátt í heimsmölun og vorið 2019 var sauðburður í fyrirrúmi. Markmið skólans er að kynnast öðrum stað og sveitalífinu í gegnum hversdagsleg störf, matargerð og útivist. Næsta ferð í sveitaskólann er áætluð í maí 2020 þar sem tekið verður þátt í sauðburði.
Í náttúrugreinum eru tveir flokkar hæfniviðmiða sem tengjast og fléttast saman.
Hæfniviðmið um verklag eru:
Geta til aðgerða
Nýsköpun og hagnýtingu þekkingar
Gildi og hlutverk vísinda og tækni
Vinnubrögð og færni í náttúrugreinum
Efling ábyrgðar á umhverfinu
Hæfniviðmið um valin viðfangsefni eru:
Að búa á jörðinni
Lífsskilyrði manna
Náttúra Íslands
Heilbrigði umhverfisins
Samspil vísinda, tækni og þróunar í samfélaginu.