Nemandi 8. bekkjar hlýtur viðurkenningu í handritasamkeppni Árnastofnunar

Í tilefni af því að 21. apríl 2021 voru liðin 50 ár frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku stóð grunnskólanemendum til boða að taka þátt í handritasamkeppni Árnastofnunar. Nemendur höfðu frjálsar hendur og af þeim hátt í hundrað handritum sem bárust í keppnina voru efnistökin afar fjölbreytt. Nemendur í eldri deild GD tóku þátt í samkeppninni en í kjölfar heimsóknar fræðara Árnastofnunnar þeirra Snorra og Jakobs hófu nemendur að kynna sér heim handritanna, efniðvið og aðferðir. Efni af vefnum Handritin til barnanna kom sér afar vel í þessu ferli en nemendur skoðuðu einnig Íslensku Teiknibókina í útgáfu Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings ásamt fleiru. Að lokum völdu nemendur sér texta sem tengist Drangsnesi og Grímsey og efnivið en fyrir valinu varð annars vegar lambaskinn og næfurkolla. 
Þær Guðbjörg Ósk og Kristjana Kría Lovísa unnu saman að því að skrifa upp brot af þjóðsögunni af tilurð Kerlingarinnar og Grímseyjar á skinn og máluðu mynd af bæði Kerlingunni og eyjunni. Sara Lind valdi brot úr ljóði Björns Guðmundssonar frá Bæ, Grímsey á Steingrímsfirði, sem birtist m.a. í safninu Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi. Ljóðið skrifaði Sara Lind upp á næfurkollu ásamt því að mála mynd af eyjunni okkar, Grímsey. 
Síðasta vetrardag var tilkynnt hvaða handrit fengu sérstaka viðurkenningu og var eitt þeirra handrit Söru Lindar Magnúsdóttur.  
Eins og segir á heimasíðu Árnstofnunar var handritasamkeppnin haldin í samstarfi við Sögur – verðlaunahátíð barnanna en í júní verður eitt handrit verðlaunað sem Ungdómshandritið 2021 á Sögum verðlaunahátíð barnanna.
Dómnefnd var skipuð þeim Gísla Sigurðssyni, Arndísi Þórarinsdóttur og Goddi.
Við óskum Söru Lind innilega til hamingju með viðurkenninguna. 

Continue Reading

Gleðilega hátíð

Smellið hér til að hlusta á Jólaskemmtunina.

Jólaskemmtun Grunnskóla Drangsness var haldin með breyttu sniði í ár vegna heimsfaraldursins Covid-19. Í stað þess að fylla húsið af góðum gestum tóku aðeins nemendur og kennarar þátt en Kristín Einarsdóttir okkar kona á Ströndum var svo elskuleg að koma með upptökutækið sitt svo allir gætu fengið að heyra yngstu börnin syngja við undirleik þeirra eldri, spjalla um jólin, hitta bjúgnakræki í gegnum Zoom og dansa í kringum jólatréð. Lögin sem sungin voru: Jólin eru okkar, Vánoce, Vánoce přicházejí (tékkneskt jólalag) og Jingle Bells.


Með jólakveðju frá nemendum og starfsmönnum Grunnskóla Drangsness

Continue Reading

Um fornleifasmiðjuna / haust 2020

Við byrjuðum og enduðum fornleifasmiðjuna í Sandvík þar sem fornleifafræðingar hafa unnið við uppgröft í ár. Lísabet Guðmundsdóttir tók vel á móti okkur í upphafi og í lok smiðjunnar fræddi Bergsveinn okkur um ýmislegt sem við kemur lífinu á víkingaöld og tildrög þess að farið var að grafa í Sandvík, en hann átti einmitt hlut að því.


Í smiðjunni var unnið þvert á íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og myndmennt. Nemendur kynntust gifsi sem efni, prufuðu að steypa í gifs og grafa upp úr því hlut, nánast eins og fornleifafræðingar. Þau fræddust um áhrif ýmissa efna (uppfinningu efna t.d. plast) á söguna og listasöguna okkar og bjuggu til tímalínu í stofu yngri deildar til að sjá þetta betur fyrir sér. Jarðlög voru einnig skoðuð sérstaklega og rætt hvernig þau leika lykilhlutverk í aldursgreiningu fornminja. “Elsti hluturinn heima hjá þér” var skemmtilegt verkefni þar sem nemendur komu með einn hlut í skólann og skoðuðu hann sérstaklega og töluðu um hann fyrir hópinn. Yngri deild bjó til landnáms fæðuhring og til þess skoðuðu þau myndir af beinum sem fundust í Sandvík. Í framhaldi veltu þau fyrir sér hvernig matardiskar framtíðarinnar munu líta út. Það vildi svo skemmtilega til að tveir ungir menn komu frá Árnastofnun með verkefnið: Handritin til barnana, í upphafi smiðjunnar og komu með ýmislegt til að sýna okkur. Þeir sögðu listilega vel frá og töluðu um það hvernig handritin urðu til og hvaða merkingu þau hafa fyrir okkur.

Continue Reading

Grænkáls- og te-markaður / takk fyrir daginn.

Í dag héldum við markað, seldum te og grænkál, allir tóku þátt í undirbúningi og sölu. Við stefnum á fleiri markaði á þessu ári 🙂 Jólamarkaður í Hveravík bar á góma í dag, við hlökkum til.

Continue Reading

Skólaferðalag

Hefð samkvæmt fórum við saman í ferðalag í upphafi skólaársins. Við fórum í reiðtúr, fengum okkur ís, fræddumst um landnám norrænna manna á Grænlandi og í Ameríku á Vínlandssetrinu, fórum í sund, fengum leir hjá Höllu í Fagradal og gistum eina nótt á Þurranesi. Mikið var gaman hjá okkur! – í vetur verður spennandi að vinna áfram og pæla í ýmsu sem við sáum í ferðalaginu.

Erpsstaðir
Erpsstaðir
Klofningur
Ytri – Fagridalur
Ytri – Fagridalur

Continue Reading

Starfsmaður óskast!

Grunnskóli Drangsness auglýsir eftir starfsmanni í 45% starf í Skólaseli og frá og með 15. ágúst 2020 til 1. júní 2021. Um tímabundið starf er að ræða.

Í Skólaseli er boðið upp á skóladagvist fyrir yngstu nemendur skólans
(1.-3. bekkur) frá því að skóla lýkur og til kl. 16:00 alla virka daga nema föstudaga. Starfsmaður Skólasels mótar dagskrá selsins í nánu samstarfi við skólastjóra, umsjónarkennara yngstu deildar, börn og foreldra.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og eða reynsla sem nýtist í starfi með börnum skilyrði
  • Framúrskarandi færni í samskiptum, frumkvæði í fjölbreyttri frístund innandyra sem utan og faglegur metnaður.
  • Góðir skipulagshæfileikar, ábyrgð og stundvísi.

    Laun eru samkvæmt samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við
    viðkomandi stéttarfélag.

    Allar nánari upplýsingar um ofangreind störf veitir Aðalbjörg
    Óskarsdóttir skólastjóri í síma 451-3436 eða í gegnum netfangið
    skoli@drangsnes.is

    Með umsóknum skal fylgja ferilskrá, meðmæli, vottorð um hreina
    sakaskrá og stutt greinargerð um ástæðu umsóknar.

    Umsóknarfrestur er til og með 26.júní 2020

Continue Reading

Skólaslit

Grunnskóla Drangsness var slitið í dag að viðstöddum góðum gestum. Nemendur sungu, fluttu ljóð og spiluðu. Grillaðar voru pulsur og hamborgarar sem viðstaddir gæddu sér á auk þess sem spilaður var brennibolti. En grunnskólinn tók þátt í hreyfiviku UMFÍ þar sem áhersla var lögð á brennibolta.

Starfsfólk þakkar nemendum, foreldrum, íbúum og öðrum velunnurum fyrir veturinn og hlakkar til næsta hausts.

Nemendur yngri deildar syngja fuglasöngva en þau hafa lært mjög mikið um íslenska fugla síðustu vikur.

Continue Reading