Erlend tungumál
Í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2013 eru hæfniviðmið fyrir erlend tungumál sett upp í þremur stigum, 1. stig, 2. stig og 3. stig. Við lok grunnskóla eiga nemendur að hafa tileinkað sér hæfni sem samsvarar 3. stigi. Hæfniviðmiðin skiptast í sjö þætti; hlustun, lesskilningur, samskipti, frásögn, ritun, menningarlæsi og námshæfni. Kennsla í ensku hefst í yngstu deild og hefð hefur skapast fyrir því að hefja nám í dönsku í 5./6. bekk þar sem samkennsla árganga fer fram á miðstigi. Í kennslu erlendra tungumála hefur einnig verið lögð áhersla á samþættingu námsgreina s.s. eins og erlendra tungumála við íslensku og náttúrufræði. Í unglingadeild er lögð sérstök áhersla á að tryggja góðan hugtakaskilning í náttúrugreinum og orðaforða í ensku og dönsku samhliða. Í yngstu og miðdeild er einnig lögð áhersla á málsögu og að kveikja bæði áhuga og skilning nemenda á ólíkum tungumálum, málaættum o.s.frv. Nemendur sem hafa íslensku ekki að móðurmáli fá jafnan tækifæri til að kynna sitt móðurmál og viðhalda færni í því.