Íslenska á miðstigi

Grunnskóli Drangsness 2019-2020

Miðdeild: 5.-7. bekkur

Námsgrein: Íslenska

Kennarar: Elín Agla Briem 

Tímafjöldi á viku: 4-6 kennslustundir þar af 2-3 inni í smiðjutímum

Skólaárið skiptist í haust-, mið- og vorönn 

Í fámennum skóla eins og Grunnskólanum á Drangsnesi fer kennsla að mestu leyti fram í samkennslu árganga. Hver nemandi vinnur verkefni í samræmi við aldur og getu eftir áætlun sem kennari afhendir í upphafi nýrrar annar og eða vikulega í gegnum Námfús eða GoogleClassroom. Verkefnum er einnig útdeilt í gegnum námsforritið SeeSaw þar sem nemendur skila inn verkefnum og kennari metur þau jafnóðum.

 Að auki vinna nemendur að sameiginlegum verkefnum og styðja hver annan í námi eftir því sem við á. Litið er svo á að nám í íslensku fari fram í öllum námsgreinum og tekur allt skipulag námsins mið af grunnþáttunum sex (jafnrétti, læsi, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð). Ólíkar áherslur eru eftir önnum, á haustönn fást nemendur m.a. við lestur eldri texta (íslendingasagna eða annarra miðaldabókmennta) og lesa ljóð frá ólíkum tímum ásamt því að semja eigin texta.  Ávallt er unnið með lestur, ritun, tjáningu, hlustun, áhorf, málfræði og stafsetningu en áhersla á málfræðikennslu þó meiri á haust- og vorönn (málfræðilotur). Kennarar vinna eftir þeirri hugmyndafræði að bókmenntir geti haft jákvæð áhrif í siðferðilegri menntun, þær eru m.a. vel til þess fallnar að opna augu nemenda fyrir siðferðilegum álitamálum og til þess að skoða persónur í ljósi bæði dygða og lasta. Bókmenntatextar fela í sér þann möguleika að kenna skilning á lífi þeirra sem eru öðruvísi eða „að læra að lifa með öðrum af virðingu fyrir því sem er framandi.“ Þessi orð Mörtu Nussbaum eru lögð til grundvallar í allri bókmenntakennslu við skólann. 

Nemendur í 7. bekk undirbúa sig sérstaklega undir þátttöku í Stóru upplestrarkeppninni t.d. með því að koma fram á opnum húsum skólans, Norrænu bókasafnsvikunni og lesa upp valin verk fyrir samnemendur sína.  Lögð er rækt við málið með ritun skapandi texta, frétta- og útvarpsþátta svo eitthvað sé nefnt. Nemendur þjálfast í réttritun með ýmsum hætti; í gegnum ritun, stafsetningaræfingar, gagnvirkar æfingar á Skólavefnum og eða Stoðkennaranum og fara yfir helstu reglur í stafsetningarlotum. 

Gert er ráð fyrir því að nemendur þjálfi lestur reglulega heima og taka bæði hraðlestrarpróf og lesskilningspróf skv. lestrarstefnu skólans. 

Kennarar og nemendur vinna sameiginlega að því markmiði að auka ábyrgð nemenda í eigin námi og að gera námið í íslensku áhugavekjandi og ánægjulegt. 

Námsefni í 5. bekk: Íslendingasaga í léttlestrarútgáfu (Njála, Laxdæla eða Egla) eða annað sem hentar getu og áhuga nemanda hverju sinni, ýmsar kennslubækur sem byggja á aðferðum heildstæðrar móðurmálskennslu eru notaðar s.s. eins og Skinnubækurnar og Orðspor ásamt námsefni í málfræði (Málrækt o.fl.). 

Námsefni í 6. bekk: Íslendingasaga í léttlestrarútgáfu (Njála, Laxdæla eða Egla), ýmsar kennslubækur sem byggja á aðferðum heildstæðrar móðurmálskennslu eru notaðar s.s. eins og Skinnubækurnar og Orðspor ásamt námsefni í málfræði (Málrækt, mál í mótun o.fl.). 

Námsefni í 7. bekk: Íslendingasaga (t.d. Gunnlaugs saga ormstungu eða önnur stutt saga), Lesskilningur þjálfaður í gegnum Stoðkennarann og Lesklikk, ýmsar kennslubækur sem byggja á aðferðum heildstæðrar móðurmálskennslu eru notaðar s.s. eins og Mályrkja,   Fallorð, Skriffinnur, Málfinnur, Mályrkja I og II, Ljóðalestur Ljóðspeglar og ljóðskýringar, Kveikjur, Sérðu það sem ég sé?, ​Valbækur, kjörbækur, ljósrit o.fl.


Ath. unnið er út frá tilteknum hæfniviðmiðum á hverri önn, sjá nánar í kennsluáætlunum hvers bekkjar.  

 

Hæfniviðmið við lok 7. bekkjar

Leiðir, kennari

Leiðir, nemandi

Námsmat

Talað mál hlustun og áhorf

Nemandi getur sagt frá, tjáð eigin skoðanir og haldið athygli áheyrenda ásamt því að hlusta á aðra. 

Framsögn, tjáning og annað er viðkemur flutning á texta er þjálfað sérstaklega í árshátíðarsmiðju og eins oft og mögulegt er. Í öllum námsgreinum skapa kennarar vettvang til umræðna og skoðanaskipta, í náttúru- og samfélagsfræði er farið yfir ýmis álitamál t.d. er varða umhverfi okkar, nemendur kynna verkefni sín fyrir öðrum nemendum og samfélaginu öllu á svokölluðum opnum dögum skólans. Kennari tryggir að nemendur fái bæði færi á að tjá eigin skoðanir og viðeigandi þjálfun til þess að geta staði fyrir málinu sínu og komið fram á ólíkum vettvangi við ólík tilefni. 

Nemendur hlusta á og ræða um texta sem lesin er í daglegri lestrarstund, nemendur tjái skoðun sína á textanum og hlusti á skoðanir samnemenda sinna. Nemendur öðlast einnig færni í að lesa eigin sögur, segja frá t.d. viðburðum úr daglegu lífi, fréttum og því sem efst er á baugi hverju sinni. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Umsögn við annarlok. Þátttaka í ýmsum viðburðum s.s. eins og árshátíð, kynningum á opnum dögum skólans o.sfrv. Námsþættir metnir af starfsmönnum skólans enda er um að ræða mat á hæfni sem reynir á í öllum námsgreinum. 

Lestur og bókmenntir 

Nemandi getur lesið skýrt og af liðleika, valið sér lesefni við hæfi, lesið sér til ánægju og skilnings, beitt hugtökum s.s. persónu, söguþræði, umhverfi og boðskap, beitt hugtökum í bragfræði s.s. ljóðlínu, rími, ljóðstöfum og vísu. 

Kennari tryggir að nemendur hafi greiðan aðgang að lesefni við hæfi og sem fellur vel að áhugasviði hver og eins. Ýmis verkefni eru lögð til grundvallar þess að nemendur öðlist góða færni í lesskilningi. Við val á bókmenntatextum og námsefni leggur kennari það til grundvallar að nemandi öðlist færni í að gera greinarmun á ólíkum bókmenntaformum, kynnist leiktexta, ljóðum (hefðbundum og óhefðbundnum), fornbókmenntum o.s.frv. Það er ávallt lokamarkmið kennara  að ná að kveikja áhuga nemenda á bókmenntum og lestri. 

Í daglegri lestrarstund er fengist við bókmenntatexta af ólíku tagi; ljóð, skáldsögur og smásögur eftir innlenda og erlenda höfunda. Eftir því sem líður á námið er lögð áhersla á að nemandi geti greint með aðstoð helstu bókmenntahugtaka það sem lesið er og átti sig á mikilvægi bókmennta í því að opna leið að ólíkum menningarheimum og sjá heiminn með augum annarra. Nemendur fást við fjölbreytta bókmenntatexta og geti gert greinarmun á ólíkum bókmenntaformum. 

Símat, leiðsagnarmat, annarpróf- og kannanir. Raddlestrarpróf ásamt þátttöku í Lesferli. Orðarún í 5., 6. og 7.  bekk. skv. áætlun um innra mat. Umsögn við annarlok og vorannareinkunn. Logos lagt fyrir ef þörf þykir sbr. sjálfsmatsáætlun skólans. 



Ritun

Nemandi getur skrifað skýrt og læsilega -samið texta frá eigin brjósti -nýtt sér grunnþætti ritunar s.s. upphaf, meginmál og niðurlag -beitt einföldum stafsetningarreglum.

Kennari býður upp á fjölbreytt og áhugavekjandi verkefni, veitir nemendum sínum þjálfun í stafsetningu (sóknarskrift, gagnvirkar æfingar, skrifað eftir upplestri o.fl.) og kynnir m.a. helstu leiðréttingarforrit o.s.frv. Sérstaklega ýtt undir skapandi skrif og reglulegar skriftar- og ritunaræfingar á meðan nemendur eru að ná góðum tökum á formi, réttritun og læsilegri skrift. 

Nemandi geti fengist við margvísleg verkefni sem reyna á skýra og læsilega skrift, réttritun, skapandi skrif og sköpun ólíkra texta þar sem m.a. er lögð áhersla á grunnþætti ritunar. 

Símat, sjálfsmat, leiðsagnarmat, annarpróf- og kannanir. Foreldramat eftir því sem við á. 

Málfræði

Nemandi getur nýtt sér stafrófið -geri sér grein fyrir mismunandi hlutverki nafnorða, sagnorða og lýsingarorða.

Kennari nýtir fjölbreytt verkefni til þess að efla þekkingu og færni nemenda í málfræði. Námsumhverfi sem ýtir undir áhuga og skilning leikur lykilhlutverk á miðstigi.  Áfram er haldið með leiki og samræður um málið sem hafa það að markmiði að vekja áhuga og auka skilning nemenda á tungumálinu. Fjölbreytt námsefni nýtt og áhersla lögð á að finna hverjum og einum námsefni við hæfi. 

Nemandi getur unnið á skipulegan hátt með orðflokkana og sýnt skilning á þeim. Eftir því sem á líður hefur nemandi öðlast góða færni í að flokka orð í rétta orðflokka og leikið sér með tungumálið, skilið uppbyggingu málsins og hlutverk nafnorða, sagnorða og lýsingarorða. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Stuttar kannanir eftir því sem við á bæði munnlegar og skriflegar. Umsögn við annarlok og vorannareinkunn. Samræmt próf í upphafi 7. bekkjar.