Umhverfisstefna
Unnið er að umhverfisstefnu skólans en frá hausti 2015 er endurvinnanlegur úrgangur flokkaður og nemendur fræddir reglulega um mikilvægi endurvinnslu ásamt því sem haldið er út í hreinsunarferðir; fjörur hreinsaðar o.s.frv. Skólaárið 2018-2019 vann miðdeild að umhverfisstefnu og gerði úttekt á skólanum ásamt því að kynna verkefnið fyrir sveitarstjórn og íbúum Kaldrananeshrepps. Hér að neðan má sjá umhverfisstefnu miðdeildar.
Stefnt er að því að allt hreinsiefni s.s. eins og handsápur og það sem notað er til þrifa við skólann sé umhverfisvænt og helst lífrænt ef hægt er að koma því við. Matarafgangar fara í moltugerð við gróðurhús og eða eru nýttir til þess að fóðra skólahænurnar. Í skólanum er sólskáli þar sem ræktaðar eru matjurtir auk gróðurhúss á skólalóð sem einnig nýtist vel til matjurtaræktunar.
Eldri deild hefur tekið þátt í baráttunni gegn matarsóun og plasti ásamt jafnöldrum sínum á Norðurlöndum sbr. stóra loftlagsáskorunin á www.nordeniskolen.org/is