Leikverkið Dúkkulísur frumsýnt um helgina

Frá því fyrir áramót hafa nemendur á unglingastigi Grunnskóla Drangsness og Grunnskóla Hólmavíkur unnið með leikverkið Dúkkulísur eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem verður frumsýnt föstudaginn 22. febrúar í Félagsheimilinu á Hólmavík. Esther Ösp Valdimarsdóttur kennari við Grunnskóla Hólmavíkur stýrir leikhópnum og er verkefnið hluti  af leiklistarverkefninu Þjóðleik. Þjóðleik­húsið hleypti Þjóðleik af stokk­un­um fyr­ir um tíu árum og hefur fjöldi ungmenna alls staðar af landinu tekið þátt frá upphafi. Mark­miðið er að tengja Þjóðleik­húsið á „lif­andi hátt við ungt fólk á lands­byggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekk­ingu á list­form­inu“ eins og segir í nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins um verkefnið. Blásið verður til leiklistarhátíðar í mars og munu þá allir leikhóparnir koma saman á Hólmavík. Látið þessa spennandi sýningu ekki fram hjá ykkur fara!