Heill heimur af börnum

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.“ Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi þeirra og umhverfi, hvort sem það er fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað, og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.

Við í Grunnskóla Drangsness ákváðum að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni til þess að gefa öðrum tækifæri til þess að kynnast þorpinu okkar betur. Nemendur á elsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað er einstakt fyrir staðinn sem við búum á?“ Nemendur á yngsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað fær okkur til að skína sem einstaklingar“ og „Ef ég væri forseti“. 

Ekki er hægt að sýna frá Drangsnesi nema koma með stutta innsýn inn í starf skólans. Skólinn er einn sá fámennasti á landinu en á þessu skólaári stunda 10 nemendur nám við skólann. Í Grunnskóla Drangsness er lögð rík áhersla á að hampa fjölbreytileikanum og skapa svigrúm til að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín með því að takast á við fjölbreytt verkefni út frá ólíkum sjónarhornum. Í Grunnskóla Drangsness hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðju tímabilum. Það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðju tímabil en á skólaárinu eru alltaf nokkrar fastar smiðjur s.s. eins og árshátíðarsmiðja sem mikil tilhlökkun er fyrir ár hvert en þá setur skólinn upp leikrit sem allir nemendur skólans koma að. 

Í vetur vorum við með tilraun með að þróa stuttar smiðjur, svokallaðar þjóðasmiðjur. Þar fræðast nemendur um eitthvað ákveðið land, tungumál og menningu þess. Smiðjan endar með matarveislu með mat, drykk, tónlist og fleira frá því landi en löndin sem verða fyrir valinu eru valin af mikilli kostgæfni. Á síðasta skólaári „heimsóttum“ við Spán, Marokkó og Tékkland. 

Það sem gerir skólann okkar líka einstakan er skólagróðurhúsið okkar en um 50 fm gróðurhús tilheyrir skólanum og er síaukin áhersla lögð á ræktun matjurta og útikennslu við skólann.

Þá er árleg matjurtasmiðja að vori þar sem við nýtum gróðurhúsið okkar mikið. Nú er sú nýbreytni að gróðurhúsið er komið með hita úr nýju borholunni og mun það skapa ný tækifæri í ræktunarstarfi skólans.

Continue Reading

Má bjóða þér starf við ræstingar í Grunnskóla Drangsness?

Grunnskóli Drangsness leitar að starfskrafti til þess að taka við ræstingum við skólann frá og með 1. desember 2023, um 22% hlutastarf er að ræða.

Í Grunnskóla Drangsness starfa að jafnaði um 10 nemendur og 3-4 starfsmenn, skólinn er á tveimur hæðum og eingöngu er unnið með vistvæn efni við þrifin. Nálgast má upplýsingar um skólastarfið í gegnum heimasíðu skólans skoli.drangsnes.is

Menntunar- og hæfnikröfur:
Sveigjanleiki, samviskusemi og jákvæðni. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Verkvest.

Með umsóknum skal fylgja ferilskrá og meðmæli. Umsækjandi þarf að veita leyfi til upplýsingaöflunar úr sakaskrá.
Umsókn skal skila á netfangið skoli@drangsnes.is

Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2023
Allar nánari upplýsingar um ofangreint starf veitir Ásta Þórisdóttir skólastjóri í síma 4513436 / 6635319 og í gegnum netfangið skoli@drangsnes.is

Continue Reading

Húrra jólaskemmtun!

Fimmtudaginn 15. desember höldum við okkar árlegu jólaskemmtun í Grunnskóla Drangsness. Börnin munu flytja skemmtiatriði, boðið verður upp á jólalegar veitingar og að lokum verður dansað í kringum jólatréð. Það er aldrei að vita nema nokkrir hressir jólaveinar heimsæki skólann og þá er hægt að treysta því að þeir hafi eitthvað í pokanum sínum handa börnunum. 

Skemmtunin hefst stundvíslega kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30

Öll hjartanlega velkomin! 

 

Hó hó hó, jólasveinar í heimsókn í Grunnskóla Drangsness

Continue Reading

Jólatré Grunnskóla Drangsness jólin 2022 sótt

Nemendur sækja sér jóltré í Snótarlundinum. Mynd: Marta G. Jóhannesdóttir

Nemendur Grunnskóla Drangsness sóttu jólatré í skógrækt kvenfélagsins Snótar nú í vikunni. Um árlega hefð er að ræða og verður jólatréð sett upp á jólaskemmtun skólans þann 15. desember nk. Nemendur hjálpast að við að velja tréð ásamt kennurum, saga tréð og koma því í skólann. Við notum einnig tækifærið til þess að gera okkur glaðan dag, leika okkur í skóginum, fræðast um tré og drekka kakó. Í ár voru það þau Guðbjörg Ósk nemandi í 9. bekk og Friðgeir Logi í 5. bekk sem söguðu niður tréð og fengu til þess aðstoð frá Heiðrúnu Helgu kennara. Öll börnin fengu að klippa greinar til þess að skreyta með og áttu ánægjulega stund í skóginum.

 

Nemendur saga jólatré í Snótarlundinum. Mynd: Marta G. Jóhannesdóttir

Continue Reading

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember. 

Í tilefni Dags íslenskrar tungu fóru nemendur í heimsókn í Fiskvinnsluna Drang og í búðina og kynntu fyrir fólki nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, en dagurinn er einmitt haldinn á fæðingardegi hans.

Nemendur skólans völdu sér hvert eitt af nýyrðum Jónasar til að skoða og myndlýstu svo orðin líka og kynntu bæði orð og mynd fyrir fólki í morgun. Jónas Hallgrímsson er flestum kunnugur en hann er eitt af stórskáldum Íslendinga en hann orti ekki einungis ljóð heldur var hann ötull talsmaður íslenskunnar og bjó til fjöldann allan af nýjum orðum sem nú eru daglega í notkun.

Nemendur kynna nýyrði í Fiskvinnslunni Drangi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Nemendur með Mörtu kennara, kynna nýyrði í búðinni á Drangsnesi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Continue Reading