Sossa frumsýnd 12. apríl – SÝNINGU FRESTAÐ FRAM Í MAÍ
Undanfarnar vikur hafa nemendur unnið að því að skrifa leikverk upp úr bókaflokki Magneu frá Kleifum um Sossu. Magneu þekkja nemendur vel en farið var yfir verk hennar í lestrarstund skólaárið 2017-2018. Börnin urðu stórhrifin af persónunni Sossu og fjölskyldu hennar enda er þessi fjögurra bóka flokkur áhrifamikill og geysivel skrifaður. Magnea frá Kleifum ólst upp á Ströndum og margt í sögum Sossu minnir á svæðið sem við þekkjum vel. Ferill Magneu hófst árið 1962 með útkomu skáldsögunnar Karlsen stýrimaður, fjöldi bóka fylgdi í kjölfarið og var Magnea þekktust fyrir skrif sín fyrir börn og ungmenni. Magnea lést árið 2015 en á næsta ári hefði hún orðið níræð.
Verkið verður frumsýnt föstudaginn 12. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi og hvetjum við Strandamenn og aðra áhugasama til þess að fjölmenna.