Deilt um orkuna – málþing
Miðvikudaginn 18. nóvember var blásið til málþings í skólanum en það voru nemendur í eldri deild (7.-9. bekk) sem stóðu fyrir því. Málþingið er hluti af verkefninu Deilt um orkuna af vefnum Náttúrufræði á nýrri öld (NANO) en eftir að hafa kynnt sér orkuver af ólíku tagi settu nemendur sig í spor persóna sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta; forstjóra orkufyrirtækis, náttúruverndarsinna og bæjarfulltrúa. Þessar persónur héldu síðan erindi á málþinginu og komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðrir nemendur og starfsmenn skólans beindu að lokum spurningum til þeirra sem héldu erindi á málþinginu og urðu umræður mjög fjörugar. Skemmtilegt verkefni sem reynir svo sannarlega á hæfni nemenda til þess að setja sig í spor annarra og geta fært rök fyrir máli sínu ásamt fleiru.