Árshátíð – Goðdalir

Árshátíð Grunnskóla Drangsness og miðstigs Grunnskóla Hólmavíkur verður haldin dagana 10. og 11. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Sýnt verður nýtt frumsamið verk Goðdalir sem unnið er upp úr goðafræði og hugmyndum frá nemendum í leikgerð og leikstjórn Kolbrúnar Ernu Pétursdóttur.  Þetta er í annað sinn sem við erum með samstarfsverkefni með Grunnskólanum á Hólmavík, en í fyrra sýndum við leikritið Ævintýraferð að miðju jarðar. 

Fyrri sýning fimmtudaginn 10. apríl kl. 17:00. Miðaverð er 3000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára (veitingar innifaldar). UPPSELT

Seinni sýning föstudaginn 11. apríl kl. 17:00. Miðaverð 2000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára.

Hægt er að kaupa miða við inngangin en það væri gott ef fólk meldaði sig á viðburðinn ef það hyggst koma. Verið öll velkomin.

Miðapantanir eru á skoli@drangsnes.is eða í síma 6635319.

Viðburður á Facebook 10. apríl

Viðburður á Facebook 11. apríl

 

 

Mynd: Goðdalir, teikning eftir Athenu Nótt Hermannsdóttur, 5. bekk.

Þetta verkefni hefur langan aðdraganda og er samþætt við ýmsar námsgreinar í skólastarfinu hjá okkur. Eftir vel heppnaða árshátíð í fyrra var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag í ár. Þá var sótt um styrk í Barnamenningarsjóð og fengum við myndarlegan styrk í þetta verkefni sem gerði það mögulegt að ráða Kolbrúnu Ernu leikstjóra en hún var með okkur í fyrra líka og hefur langa reynslu af því að kenna börnum leiklist. Á haustdögum var byrjað að læra um goðafræði í þema á samstarfsdögum á Hólmavík. Þá fengum við Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur listamann og rithöfund til að vera með ritsmiðju með okkur. Út úr þessari smiðju komu ýmsar hugmyndir frá nemendum sem voru nýttar í leikgerðina. Þá vorum við í samstarfsverkefni með Árnastofnun í verkefni sem heitir „Hvað er með ásum“ og voru unnin ýmis myndlistarverk tengd því verkefni og fengum við nýja safnkennarann þar hana Mörtu f.v. kennara hjá okkur, í heimsókn þar sem hún kynnti okkur nýja handritasýningu Árnastofnunar „Heimur í orðum“. Þá fengum við einnig styrk frá Púka barnamenningarhátíð Vestfjarða fyrir slagverkssmiðju sem við nýttum til að fá Hrafnkel Örn – Kela, til okkar í tvo daga að kenna okkur á hljóðfæri sem við svo nýtum okkur í leikritinu. 

Þetta er langt og mikið lærdómsferli sem á sér stað í svona stóru verkefni og það væri engin leið að gera þetta ef við værum ekki með úrvals nemendur, starfsfólk, gestakennara, foreldra og aðra velunnara.

Ásta Þórisdóttir: verkefnisstjóri, leikmynd, ljós

Kolbrún Erna Pétursdóttir: leikstjóri og leikritahöfundur

Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir: aðstoðarleikstjóri, umsjón tónlistar og sviðsmaður

Mayra Del: umsjón yngri og búningasaumur

Jóhanna G Rósmundsdóttir: umsjón nemendur frá Hólmavík, leikskrá og búningasaumur

Sigrún Sverrisdóttir: umsjón nemendur frá Finnbogastaðaskóla, leikmynd, búningar of.l. 

Sólrún Trausta Auðunsdóttir: gerð og hönnun á hásætinu Hliðskjálf

Svanur Kristjánsson: bílstjóri, leikmynd, búningasaumur, rafmagn, smíði, reddingar. 

Stefanie Gehringen: búningahönnun og saumur á krummum og íkorna. 

Tekla Þorláksdóttir: matráður

Stephan Kalt: afleysingamatráður og ræsting

Athena Nótt Hermannsdóttir: teikning á auglýsingamynd