Strandakrakkar hreppa þriðju verðlaun í First Lego League keppninni
Laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn tóku nemendur Grunnskóla Drangsness þátt í First Lego League keppninni í þriðja sinn.
First Lego League eða FLL er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna á aldrinum 10-16 ára í 110 löndum víða um heim. Upphaf keppninnar má rekja til ársins 1998 þegar Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group tóku höndum saman og stofnuðu FIRST LEGO keppnina. Markmið keppninnar frá upphafi hefur verið að kveikja áhuga ungmenna á vísindum og tækni.
First Lego League Challenge hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005 en það var haustið 2022 sem lið frá Vestfjörðum og Ströndum tók í fyrsta sinn þátt, en það árið kepptu fjórir nemendur frá Grunnskóla Drangsness í keppninni. Ári síðar bauðst nemendum Grunnskóla Hólmavíkur að slást í hópinn og það árið tóku átta nemendur frá báðum skólum þátt. Sami háttur var hafður á í ár en sex nemendur frá Grunnskóla Drangsness og einn frá Grunnskóla Hólmavíkur skipuðu liðið í ár. Þau Marta Guðrún Jóhannesdóttir kennari við Grunnskóla Drangsness og Bjarni Þórisson hafa verið leiðbeinendur frá upphafi með dyggri aðstoð Ástu Þórisdóttur skólastjóra Grunnskóla Drangsness. Foreldrar og sveitungar hafa sýnt keppninni mikinn áhuga og studdu t.a.m. stofnanir og fyrirtæki duglega við liðið í ár ásamt því sem sífellt fleiri mæta á keppnisdaginn til þess að taka þátt í viðburðinum.
Árlega er skipt um þema í keppninni, í ár var þemað lífríki sjávar og bar keppnin undirtitilinn Neðansjávar. Nemendur leystu ýmiss verkefni en í FLL er unnið þverfaglega og taka börnin þátt í verkefnum sem skapa færni í vísindum, verkfræði, nýsköpun og tækni. Eitt verkefnanna er að forrita og hanna Legoþjarka (vélmenni) sem leysir þrautir í vélmennakapphlaupi. Það var einmitt í vélmennakapphlaupinu sem nemendur í liði skólanna hrepptu þriðja sætið, yngst allra liða sem tóku þátt að þessu sinni. Það voru því stoltir og ánægðir Strandakrakkar sem sneru heim úr höfuðborginni að keppni lokinni.
Fyrir þau sem vilja kynna sér keppnina má sækja upplýsingar á heimasíðu hennar https://firstlego.is/keppnin/