Grunnskóli Drangsness auglýsir eftirfarandi störf fyrir skólaárið 2025-2026.
Gert er ráð fyrir 10 nemendum í 3. – 10. bekk næsta skólaár.
Matráður
Um er að ræða 48% starf. Unnið er mánudaga til fimmtudags, frá kl. 8:30 – 12:50. Um er að ræða skipulag, innkaup, matreiðsla, framreiðsla og frágangur skólamáltíða 4 daga vikunnar.
Starfsmaður í skólasel
Um er að ræða 28% starf sem unnið er á tímabilinu 13:30 – 16:00 á mánudögum til fimmtudags og er mislengi eftir dögum. Leitað er að skapandi starfskrafti sem skipuleggur frístundastarf fyrir yngri deild eftir skóla í skólaseli. Um er að ræða 3 – 4 nemendur.
Hægt er að vinna þessi tvö störf saman, þar sem annað tekur við af hinu. Viðkomandi þurfa að geta hafið störf 18. ágúst nk.
Nánari upplýsingar gefur Ásta Þórisdóttir skólastjóri í s. 6635319.
Í umsókn skal koma fram nám, fyrri störf og meðmælendur. Gerð er krafa um hreint sakavottorð.
Umsóknarfrestur er til og með 15. ágúst og umsóknir sendist á skoli@drangsnes.
Árshátíð Grunnskóla Drangsness og miðstigs Grunnskóla Hólmavíkur verður haldin dagana 10. og 11. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Sýnt verður nýtt frumsamið verk Goðdalir sem unnið er upp úr goðafræði og hugmyndum frá nemendum í leikgerð og leikstjórn Kolbrúnar Ernu Pétursdóttur. Þetta er í annað sinn sem við erum með samstarfsverkefni með Grunnskólanum á Hólmavík, en í fyrra sýndum við leikritið Ævintýraferð að miðju jarðar.
Fyrri sýning fimmtudaginn 10. apríl kl. 17:00. Miðaverð er 3000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára (veitingar innifaldar). UPPSELT
Seinni sýning föstudaginn 11. apríl kl. 17:00. Miðaverð 2000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára.
Hægt er að kaupa miða við inngangin en það væri gott ef fólk meldaði sig á viðburðinn ef það hyggst koma. Verið öll velkomin.
Miðapantanir eru á skoli@drangsnes.is eða í síma 6635319.
Mynd: Goðdalir, teikning eftir Athenu Nótt Hermannsdóttur, 5. bekk.
Þetta verkefni hefur langan aðdraganda og er samþætt við ýmsar námsgreinar í skólastarfinu hjá okkur. Eftir vel heppnaða árshátíð í fyrra var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag í ár. Þá var sótt um styrk í Barnamenningarsjóð og fengum við myndarlegan styrk í þetta verkefni sem gerði það mögulegt að ráða Kolbrúnu Ernu leikstjóra en hún var með okkur í fyrra líka og hefur langa reynslu af því að kenna börnum leiklist. Á haustdögum var byrjað að læra um goðafræði í þema á samstarfsdögum á Hólmavík. Þá fengum við Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur listamann og rithöfund til að vera með ritsmiðju með okkur. Út úr þessari smiðju komu ýmsar hugmyndir frá nemendum sem voru nýttar í leikgerðina. Þá vorum við í samstarfsverkefni með Árnastofnun í verkefni sem heitir „Hvað er með ásum“ og voru unnin ýmis myndlistarverk tengd því verkefni og fengum við nýja safnkennarann þar hana Mörtu f.v. kennara hjá okkur, í heimsókn þar sem hún kynnti okkur nýja handritasýningu Árnastofnunar „Heimur í orðum“. Þá fengum við einnig styrk frá Púka barnamenningarhátíð Vestfjarða fyrir slagverkssmiðju sem við nýttum til að fá Hrafnkel Örn – Kela, til okkar í tvo daga að kenna okkur á hljóðfæri sem við svo nýtum okkur í leikritinu.
Þetta er langt og mikið lærdómsferli sem á sér stað í svona stóru verkefni og það væri engin leið að gera þetta ef við værum ekki með úrvals nemendur, starfsfólk, gestakennara, foreldra og aðra velunnara.
Ásta Þórisdóttir: verkefnisstjóri, leikmynd, ljós
Kolbrún Erna Pétursdóttir: leikstjóri og leikritahöfundur
Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir: aðstoðarleikstjóri, umsjón tónlistar og sviðsmaður
Mayra Del: umsjón yngri og búningasaumur
Jóhanna G Rósmundsdóttir: umsjón nemendur frá Hólmavík, leikskrá og búningasaumur
Sigrún Sverrisdóttir: umsjón nemendur frá Finnbogastaðaskóla, leikmynd, búningar of.l.
Sólrún Trausta Auðunsdóttir: gerð og hönnun á hásætinu Hliðskjálf
Verið öll velkomin á Þorrablót barnanna sem haldið verður í skólanum miðvikudaginn 29. janúar kl. 11:30 – 12:30. Boðið verður upp á þorrasmakk og grínatriði nemenda. Nemendur sýna dans sem þeir hafa æft og kynna lítil vísindaverkefni sem þau hafa verið að vinna.
Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.“ Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi þeirra og umhverfi, hvort sem það er fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað, og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.
Við í Grunnskóla Drangsness ákváðum að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni til þess að gefa öðrum tækifæri til þess að kynnast þorpinu okkar betur. Nemendur á elsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað er einstakt fyrir staðinn sem við búum á?“ Nemendur á yngsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað fær okkur til að skína sem einstaklingar“ og „Ef ég væri forseti“.
Ekki er hægt að sýna frá Drangsnesi nema koma með stutta innsýn inn í starf skólans. Skólinn er einn sá fámennasti á landinu en á þessu skólaári stunda 10 nemendur nám við skólann. Í Grunnskóla Drangsness er lögð rík áhersla á að hampa fjölbreytileikanum og skapa svigrúm til að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín með því að takast á við fjölbreytt verkefni út frá ólíkum sjónarhornum. Í Grunnskóla Drangsness hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðju tímabilum. Það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðju tímabil en á skólaárinu eru alltaf nokkrar fastar smiðjur s.s. eins og árshátíðarsmiðja sem mikil tilhlökkun er fyrir ár hvert en þá setur skólinn upp leikrit sem allir nemendur skólans koma að.
Í vetur vorum við með tilraun með að þróa stuttar smiðjur, svokallaðar þjóðasmiðjur. Þar fræðast nemendur um eitthvað ákveðið land, tungumál og menningu þess. Smiðjan endar með matarveislu með mat, drykk, tónlist og fleira frá því landi en löndin sem verða fyrir valinu eru valin af mikilli kostgæfni. Á síðasta skólaári „heimsóttum“ við Spán, Marokkó og Tékkland.
Það sem gerir skólann okkar líka einstakan er skólagróðurhúsið okkar en um 50 fm gróðurhús tilheyrir skólanum og er síaukin áhersla lögð á ræktun matjurta og útikennslu við skólann.
Þá er árleg matjurtasmiðja að vori þar sem við nýtum gróðurhúsið okkar mikið. Nú er sú nýbreytni að gróðurhúsið er komið með hita úr nýju borholunni og mun það skapa ný tækifæri í ræktunarstarfi skólans.
Árshátíð Grunnskóla Drangsness og miðstigs Grunnskóla Hólmavíkur verður haldin dagana 11. og 12. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Sýnt verður nýtt frumsamið verk Ævintýraferð að miðju jarðar eftir ævintýri Jules Vernes í leikgerð og leikstjórn Kolbrúnar Ernu Pétursdóttur.
Fyrri sýning fimmtudaginn 11. apríl kl. 16:30. Miðaverð er 3000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára og yngri (veitingar innifaldar). UPPSELT
Seinni sýning föstudaginn 12. apríl kl. 16:00. Miðaverð 2000 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn yngri en 6 ára og yngri.
Hægt er að kaupa miða við inngangin en það væri gott ef fólk meldaði sig á viðburðinn ef það hyggst koma. Verið öll velkomin.