Jólaskemmtun Grunnskóla Drangsness var haldin með breyttu sniði í ár vegna heimsfaraldursins Covid-19. Í stað þess að fylla húsið af góðum gestum tóku aðeins nemendur og kennarar þátt en Kristín Einarsdóttir okkar kona á Ströndum var svo elskuleg að koma með upptökutækið sitt svo allir gætu fengið að heyra yngstu börnin syngja við undirleik þeirra eldri, spjalla um jólin, hitta bjúgnakræki í gegnum Zoom og dansa í kringum jólatréð. Lögin sem sungin voru: Jólin eru okkar, Vánoce, Vánoce přicházejí (tékkneskt jólalag) og Jingle Bells.
Með jólakveðju frá nemendum og starfsmönnum Grunnskóla Drangsness
Í dag er Dagur íslenskrar tungu, 16. nóv. 2020, að því tilefni gerðu nemendur í Grunnskóla Drangsness þrjú tónlistar/ljóða-myndbönd, endilega skoðið þau 🙂
Flutningur á frumsömdum rapp texta og myndband. Nemendur: Kristjana Kría, Sara Lind, Elísabet Lea, Júlía og Þorsteinn. Texti (eftir nemendur eldri deildar) :
Já, ég er sko býfluga og sef á Malarhorni
hva
ætlaru að gera ef ég sting þig með litlu horni,
búin
að fljúga í allan dag er orðinn þreytt,
enda
er ég lika orðinn frekar beitt.
Gul, svört
og röndótt og
frekar
feit
sting
þig í lærið
æjæj
greyið þarftu mömmu?
Þarftu mömmu?
————– //// ————————————————————————
Ljóðaupplestur og myndband – ljóð: Norður Strandir eftir Ingimar Karl Elíasson.
Nemandi: Guðbjörg Ósk.
Norður Strandir liggja leiðir
langar götur út með
sjó.
Húnaflói hugann seiðir
heimabyggðar kyrrð og ró.
Sígur alda að svörtum björgum
sömu fjöllin standa vörð.
Eins og fyrir öldum mörgum,
Ennishöfði, Drangaskörð.
Sé ég ótal undraheima
er ég kem í dalinn minn.
Fornar sagnir sögur geyma
um Svan er gekk í fjallið inn.
Gleði vekja gömul kynni,
grænu flosi skrýdd er jörð.
Aldrei hverfur mér úr minni
minningin um Steingrímsfjörð.
————– //// ————————————————————————
Söngur og stafatré.
Nemendur í yngri deild: Katrín Halla, Marianna Fiserova, Friðgeir Logi og Tomás Fisera.
Siglingavísur – íslenskt þjóðlag við texta Einars Benediktssonar
Austankaldinn á oss blés,
upp skal faldinn draga.
Þó velti aldan vargi hlés,
við skulum halda á Siglunes.
Haustvísa. – Þjóðlag frá Belgíu. Texti: Herdís Egilsdóttir
Hvert er horfið laufið
sem var grænt í gær?
Þótt ég um það spyrji
verð ég engu nær.
Blöðin grænu hafa
visnað,
orðin gul og rauð.
Ef ég horfi miklu
lengur
verður hríslan auð.
Hvínandi vindur – Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Við byrjuðum og enduðum fornleifasmiðjuna í Sandvík þar sem
fornleifafræðingar hafa unnið við uppgröft í ár. Lísabet Guðmundsdóttir tók vel
á móti okkur í upphafi og í lok smiðjunnar fræddi Bergsveinn okkur um ýmislegt
sem við kemur lífinu á víkingaöld og tildrög þess að farið var að grafa í Sandvík,
en hann átti einmitt hlut að því.
Í smiðjunni var unnið þvert á íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og myndmennt. Nemendur kynntust gifsi sem efni, prufuðu að steypa í gifs og grafa upp úr því hlut, nánast eins og fornleifafræðingar. Þau fræddust um áhrif ýmissa efna (uppfinningu efna t.d. plast) á söguna og listasöguna okkar og bjuggu til tímalínu í stofu yngri deildar til að sjá þetta betur fyrir sér. Jarðlög voru einnig skoðuð sérstaklega og rætt hvernig þau leika lykilhlutverk í aldursgreiningu fornminja. “Elsti hluturinn heima hjá þér” var skemmtilegt verkefni þar sem nemendur komu með einn hlut í skólann og skoðuðu hann sérstaklega og töluðu um hann fyrir hópinn. Yngri deild bjó til landnáms fæðuhring og til þess skoðuðu þau myndir af beinum sem fundust í Sandvík. Í framhaldi veltu þau fyrir sér hvernig matardiskar framtíðarinnar munu líta út. Það vildi svo skemmtilega til að tveir ungir menn komu frá Árnastofnun með verkefnið: Handritin til barnana, í upphafi smiðjunnar og komu með ýmislegt til að sýna okkur. Þeir sögðu listilega vel frá og töluðu um það hvernig handritin urðu til og hvaða merkingu þau hafa fyrir okkur.
Jarðlög úr gifsi / tilraun
Fagradalsleirinn skoðaður
nýtt -gamalt -eldra -elst
Elsti hluturinn heima hjá þér
Tímalínan okkar
Rostungstönn sem fannst þegar grafið var fyrir grunni skólans
í Sandvík
Handritin til barnanna – Árnastofnun kom í heimsókn
Í dag héldum við markað, seldum te og grænkál, allir tóku þátt í undirbúningi og sölu. Við stefnum á fleiri markaði á þessu ári 🙂 Jólamarkaður í Hveravík bar á góma í dag, við hlökkum til.
Hefð samkvæmt fórum við saman í ferðalag í upphafi skólaársins. Við fórum í reiðtúr, fengum okkur ís, fræddumst um landnám norrænna manna á Grænlandi og í Ameríku á Vínlandssetrinu, fórum í sund, fengum leir hjá Höllu í Fagradal og gistum eina nótt á Þurranesi. Mikið var gaman hjá okkur! – í vetur verður spennandi að vinna áfram og pæla í ýmsu sem við sáum í ferðalaginu.
Í dag fræddi hún Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur okkur um starfið sitt, og tóftirnar í Sandvík sem þau eru að grafa upp um þessar mundir. Við skoðuðum þúsund ára nagla og bein sem þau hafa verið að finna og allir fengu að prufa að nota litla múrskeið til að grafa með. Eldri deild teiknaði umhverfið og yngri tíndu ber og léku sér í fjörunni. Hér að neðan eru nokkrar myndir og svo hlekkur á video neðst 🙂 Góða helgi.