Deilt um orkuna – málþing

Miðvikudaginn 18. nóvember var blásið til málþings í skólanum en það voru nemendur í eldri deild (7.-9. bekk) sem stóðu fyrir því. Málþingið er hluti af verkefninu Deilt um orkuna af vefnum Náttúrufræði á nýrri öld (NANO) en eftir að hafa kynnt sér orkuver af ólíku tagi settu nemendur sig í spor persóna sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta; forstjóra orkufyrirtækis, náttúruverndarsinna og bæjarfulltrúa. Þessar persónur héldu síðan erindi á málþinginu og komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðrir nemendur og starfsmenn skólans beindu að lokum spurningum til þeirra sem héldu erindi á málþinginu og urðu umræður mjög fjörugar. Skemmtilegt verkefni sem reynir svo sannarlega á hæfni nemenda til þess að setja sig í spor annarra og geta fært rök fyrir máli sínu ásamt fleiru.

Continue Reading

Dagur íslenskrar tungu // örsmiðja

Í dag er Dagur íslenskrar tungu, 16. nóv. 2020, að því tilefni gerðu nemendur í Grunnskóla Drangsness þrjú tónlistar/ljóða-myndbönd, endilega skoðið þau 🙂

Flutningur á frumsömdum rapp texta og myndband. Nemendur: Kristjana Kría, Sara Lind, Elísabet Lea, Júlía og Þorsteinn. Texti (eftir nemendur eldri deildar) :

Já, ég er sko býfluga og sef á Malarhorni

hva ætlaru að gera ef ég sting þig með litlu horni,

búin að fljúga í allan dag er orðinn þreytt,

enda er ég lika orðinn frekar beitt. 

Gul, svört og röndótt og

frekar feit

sting þig í lærið

æjæj greyið þarftu mömmu?

Þarftu mömmu?

————– //// ————————————————————————

Ljóðaupplestur og myndband – ljóð: Norður Strandir eftir Ingimar Karl Elíasson.

Nemandi: Guðbjörg Ósk.

Norður Strandir liggja leiðir

langar götur út með sjó.

Húnaflói hugann seiðir

heimabyggðar kyrrð og ró.

Sígur alda að svörtum björgum

sömu fjöllin standa vörð.

Eins og fyrir öldum mörgum,

Ennishöfði, Drangaskörð.

Sé ég ótal undraheima

er ég kem í dalinn minn.

Fornar sagnir sögur geyma

um Svan er gekk í fjallið inn.

Gleði vekja gömul kynni,

grænu flosi skrýdd er jörð.

Aldrei hverfur mér úr minni

minningin um Steingrímsfjörð.

————– //// ————————————————————————

Söngur og stafatré.

Nemendur í yngri deild: Katrín Halla, Marianna Fiserova, Friðgeir Logi og Tomás Fisera.

Siglingavísur – íslenskt þjóðlag við texta Einars Benediktssonar

Austankaldinn á oss blés,

upp skal faldinn draga.

Þó velti aldan vargi hlés,

við skulum halda á Siglunes.

Haustvísa. –  Þjóðlag frá Belgíu.  Texti: Herdís Egilsdóttir

Hvert er horfið laufið

sem var grænt í gær?

Þótt ég um það spyrji

verð ég engu nær.

Blöðin grænu hafa visnað,

orðin gul og rauð.

Ef ég horfi miklu lengur

verður hríslan auð.

Hvínandi vindur – Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Hvínandi hvínandi vindur

hvaðan ber þig að?

hvert ertu‘ að fara

viltu segja mér það?

Continue Reading

Fyrsti skóladagurinn – Takk fyrir daginn!

Í dag fræddi hún Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur okkur um starfið sitt, og tóftirnar í Sandvík sem þau eru að grafa upp um þessar mundir. Við skoðuðum þúsund ára nagla og bein sem þau hafa verið að finna og allir fengu að prufa að nota litla múrskeið til að grafa með. Eldri deild teiknaði umhverfið og yngri tíndu ber og léku sér í fjörunni. Hér að neðan eru nokkrar myndir og svo hlekkur á video neðst 🙂 Góða helgi.

https://photos.google.com/share/AF1QipMI9wUwnsCVTO2-QEXudMsPNZUfvik0QtPt5okWGKQuDvkg96U3ffIHzNaqgYY9OA?key=TkYwXzlRTVVUcnpWbHUxRmtoMFBYS3dCLUZVM013

Continue Reading

Útikennsla

Við höfum verið einstaklega heppin með veður þessa vikuna en nú hafa börnin flesta daga lagt stund á nám sitt útivið. Þriðjudaginn 19. maí var haldið í skólalundinn okkar í Bjarnarfirði þar sem Arnlín skógræktarráðgjafi kenndi okkur ýmislegt gagnlegt og hélt áfram að stýra vinnu við mælingar og annað er viðkemur skógræktinni í skólalundinum. Patricia jógakennari fylgdi okkur í skólalundinn og bauð okkur þar næst í heimsókn að Háabakka þar sem við grilluðum og fórum í skemmtilega útileiki. Í dag var haldið í Sandvík þar sem börnin skoðuðu m.a. fuglalíf; hreiðurgerð tjaldsins og hrossagauksins ásamt fleiru. Í næstu viku verður Guðný Rúnarsdóttir listgreinakennari gestakennari en hún er jafnframt nýráðin skólastjóri skólans. Við hlökkum til að taka á móti henni og halda áfram að nema, upplifa og skapa úti.

https://photos.app.goo.gl/iGfABJuC2sKP7Z1RA

Continue Reading

Sauðburður, fuglar, vorið, verkefnavika og skólasund

Það er mikið um að vera allt í kringum okkur og ekki síst í skólanum.

Í næstu viku verður verkefnavika en þá þreyta nemendur próf og sinna öðrum verkefnum ásamt því að fara í skólasund eftir nokkuð langt hlé. Hjördís Klara íþróttakennari verður með okkur eins og áður og sér um sundprófin í öllum árgöngum. Nú er sauðburður hafinn og börnin fylgjast spennt með, við munum örugglega líta við í fjárhúsunum eins og alltaf á vorin. Börnin í yngstu deild eru næstum því útskrifuð úr íslenskum fuglum en í dag bjuggu þau til fuglagrímur og unnu að upplýsingaspjöldum um fuglana sem þau hafa valið sér. Vorið er skemmtilegur tími og tíminn líður á ógnarhraða þegar mikið er að gera.

Continue Reading

Dagur jarðar

Miðvikudaginn 22. apríl var Dagur jarðar og tóku nemendur skólans sig til og héldu í skrúðgöngu af því tilefni með fullar hjólbörur af tómatplöntum og sólblómafræjum. Plönturnar hafa nemendur ræktað upp af fræi og var þeim komið fyrir í búðinni þar sem íbúar gátu sótt sér plöntu.

Continue Reading

Fuglaskoðunarferð í yngri deild

Yngri deildin mun fást við fugla næstu vikurnar og hófst námið á fuglaskoðunarferð í Sandvík. Við vorum einstaklega heppin með veður og skráðum hjá okkur tíu ólíkar tuglategundir sem við sáum í ferðinni. Þar á meðal voru álftir, rjúpur, grágæsir, spóar, lóur, hrossagaukar og skógarþrestir. Tvær fallegar heiðlóur tóku á móti okkur og kvöddu okkur með fallegum söng að lokinni skoðunarferðinni. Nú þegar vorið er loksins komið munum við nýta hvert tækifæri sem gefst til þess að færa kennsluna út undir beran himin – þar er best að læra!

Continue Reading

Árshátíð frestað

Árshátíð Grunnskóla Drangsness sem halda átti þann 3. apríl hefur verið frestað vegna samkomubanns. Ný dagsetning verður auglýst þegar hún liggur fyrir.

Skólastarf mun taka einhverjum breytingum fyrir páska en í stað árshátíðarsmiðju munu nemendur fara í matjurtarsmiðju.

Continue Reading