Fullveldishátíð og opið hús 29. nóvember

Í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands bjóðum við til fullveldishátíðar og opins húss í skólanum fimmtudaginn 29. nóvember nk. Nemendur skólans hafa unnið ýmiss konar verkefni í smiðjunni 1918-2018; skrifað leikþátt, samið fræðsluerindi, tekið viðtöl og fengist við þetta tímamótaár ásamt því að skoða atburði liðinnar aldar. Elsti nemandi skólans hefur unnið að þemaverkefni með unglingadeild Grunnskólans á Hólmavík og verða m.a. erindi sem snúa að viðburðum ársins 1918 flutt á hátíðinni. Boðið verður upp á veitingar og gefst gestum einnig kostur á að skoða önnur verkefni sem nemendur hafa unnið að á haustönninni.
Komum saman og fögnum aldarafmæli fullveldis Íslands!

Úrslit í Menningarminjakeppni grunnskólanna voru tilkynnt fimmtudaginn 5. júlí og hreppti Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, nemandi í 6. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi, fyrsta sætið. Vinningsverkefni Magndísar er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð á meðan hún var starfrækt á sautjándu öld.

Nú styttist í árshátíð Grunnskólans á Drangsnesi en við munum frumsýna leikverk föstudaginn 7. apríl í samkomuhúsinu Baldri kl. 19:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Við bjóðum alla íbúa Kaldrananeshrepps; foreldra, ömmur, afa, frænkur, frændur og aðra vini skólans hjartanlega velkomna á opið hús föstudaginn 4. nóvember hér í skólanum frá kl. 11:00-12:10
Í dag föstudag var kjörstaður opinn hér í Grunnskólanum á Drangsnesi en þá gengu nemendur skólans til krakkakosninga. Krakkakosningar er samstarfsverkefni KrakkaRúv og umboðsmanns barna og er verkefnið í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Börnum er veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á. Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi, við munum fylgjast spennt með.