Author Archive

Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í GD

Í dag föstudaginn 16. september héldum við Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan. Börnin í yngri deild buðu til veislu þar sem m.a. var boðið upp á hitt og þetta úr gróðurhúsinu og skólagarðinum; rabarbara, kartöflur að ógleymdum eplunum þremur sem eplatréð gaf af sér. Steiktar voru vöfflur og drukkið kakó en í lok veislunnar skiptum við eplunum á milli okkar og nutum hvers bita í skemmtilegri núvitundaræfingu. 

Yrkjusjóður údeildi nýlega 40 birkiplöntum til skólans og var þeim plantað í dag í skógræktarreitinn fyrir ofan skólann. Að lokinni gróðursetningu fengu nemendur að bragða á berjum en af þeim er enn nóg hér í Kaldrananeshreppi. 

Continue Reading

Skólasetning mánudaginn 22. ágúst

Kæru nemendur og forráðamenn, Grunnskóli Drangsness verður settur mánudaginn 22. ágúst kl. 10:00.

Ásta Þórisdóttir skólastjóri mun setja skólann og að því loknu verður snæddur morgunverður.

Nemendum og foreldrum verður að endingu boðið upp á skoðunarferð um skólann.

Skóli hefst þriðjudaginn 23. ágúst kl. 8:30. Fyrstu vikur nýs skólaárs verður unnið í náttúrusmiðju og því mikilvægt að vera ávallt vel búin þar sem smiðjan mun að mestu leyti fara fram utandyra.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Starfsfólk Grunnskóla Drangsness 

Continue Reading

Nemandi 8. bekkjar hlýtur viðurkenningu í handritasamkeppni Árnastofnunar

Í tilefni af því að 21. apríl 2021 voru liðin 50 ár frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku stóð grunnskólanemendum til boða að taka þátt í handritasamkeppni Árnastofnunar. Nemendur höfðu frjálsar hendur og af þeim hátt í hundrað handritum sem bárust í keppnina voru efnistökin afar fjölbreytt. Nemendur í eldri deild GD tóku þátt í samkeppninni en í kjölfar heimsóknar fræðara Árnastofnunnar þeirra Snorra og Jakobs hófu nemendur að kynna sér heim handritanna, efniðvið og aðferðir. Efni af vefnum Handritin til barnanna kom sér afar vel í þessu ferli en nemendur skoðuðu einnig Íslensku Teiknibókina í útgáfu Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings ásamt fleiru. Að lokum völdu nemendur sér texta sem tengist Drangsnesi og Grímsey og efnivið en fyrir valinu varð annars vegar lambaskinn og næfurkolla. 
Þær Guðbjörg Ósk og Kristjana Kría Lovísa unnu saman að því að skrifa upp brot af þjóðsögunni af tilurð Kerlingarinnar og Grímseyjar á skinn og máluðu mynd af bæði Kerlingunni og eyjunni. Sara Lind valdi brot úr ljóði Björns Guðmundssonar frá Bæ, Grímsey á Steingrímsfirði, sem birtist m.a. í safninu Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi. Ljóðið skrifaði Sara Lind upp á næfurkollu ásamt því að mála mynd af eyjunni okkar, Grímsey. 
Síðasta vetrardag var tilkynnt hvaða handrit fengu sérstaka viðurkenningu og var eitt þeirra handrit Söru Lindar Magnúsdóttur.  
Eins og segir á heimasíðu Árnstofnunar var handritasamkeppnin haldin í samstarfi við Sögur – verðlaunahátíð barnanna en í júní verður eitt handrit verðlaunað sem Ungdómshandritið 2021 á Sögum verðlaunahátíð barnanna.
Dómnefnd var skipuð þeim Gísla Sigurðssyni, Arndísi Þórarinsdóttur og Goddi.
Við óskum Söru Lind innilega til hamingju með viðurkenninguna. 

Continue Reading

Hádegismatur á Malarkaffi

Í gær miðvikudag varð sú nýjung í skólastarfinu að nemendur og starfsfólk fær hádegismat á Malarkaffi. Þar matreiðir Óskar yndislega rétti og bauð okkur upp á plokkfisk með rúgbrauði sem börnin voru sérlega hrifin af. Boðið verður upp á hádegismat alla daga nema föstudaga út skólaárið.

Við erum hæstánægð með þessa nýjung og allir saddir og sælir þegar þeir koma í skólann eftir hádegismat.

Continue Reading

Deilt um orkuna – málþing

Miðvikudaginn 18. nóvember var blásið til málþings í skólanum en það voru nemendur í eldri deild (7.-9. bekk) sem stóðu fyrir því. Málþingið er hluti af verkefninu Deilt um orkuna af vefnum Náttúrufræði á nýrri öld (NANO) en eftir að hafa kynnt sér orkuver af ólíku tagi settu nemendur sig í spor persóna sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta; forstjóra orkufyrirtækis, náttúruverndarsinna og bæjarfulltrúa. Þessar persónur héldu síðan erindi á málþinginu og komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðrir nemendur og starfsmenn skólans beindu að lokum spurningum til þeirra sem héldu erindi á málþinginu og urðu umræður mjög fjörugar. Skemmtilegt verkefni sem reynir svo sannarlega á hæfni nemenda til þess að setja sig í spor annarra og geta fært rök fyrir máli sínu ásamt fleiru.

Continue Reading

Útikennsla

Við höfum verið einstaklega heppin með veður þessa vikuna en nú hafa börnin flesta daga lagt stund á nám sitt útivið. Þriðjudaginn 19. maí var haldið í skólalundinn okkar í Bjarnarfirði þar sem Arnlín skógræktarráðgjafi kenndi okkur ýmislegt gagnlegt og hélt áfram að stýra vinnu við mælingar og annað er viðkemur skógræktinni í skólalundinum. Patricia jógakennari fylgdi okkur í skólalundinn og bauð okkur þar næst í heimsókn að Háabakka þar sem við grilluðum og fórum í skemmtilega útileiki. Í dag var haldið í Sandvík þar sem börnin skoðuðu m.a. fuglalíf; hreiðurgerð tjaldsins og hrossagauksins ásamt fleiru. Í næstu viku verður Guðný Rúnarsdóttir listgreinakennari gestakennari en hún er jafnframt nýráðin skólastjóri skólans. Við hlökkum til að taka á móti henni og halda áfram að nema, upplifa og skapa úti.

https://photos.app.goo.gl/iGfABJuC2sKP7Z1RA

Continue Reading

Sauðburður, fuglar, vorið, verkefnavika og skólasund

Það er mikið um að vera allt í kringum okkur og ekki síst í skólanum.

Í næstu viku verður verkefnavika en þá þreyta nemendur próf og sinna öðrum verkefnum ásamt því að fara í skólasund eftir nokkuð langt hlé. Hjördís Klara íþróttakennari verður með okkur eins og áður og sér um sundprófin í öllum árgöngum. Nú er sauðburður hafinn og börnin fylgjast spennt með, við munum örugglega líta við í fjárhúsunum eins og alltaf á vorin. Börnin í yngstu deild eru næstum því útskrifuð úr íslenskum fuglum en í dag bjuggu þau til fuglagrímur og unnu að upplýsingaspjöldum um fuglana sem þau hafa valið sér. Vorið er skemmtilegur tími og tíminn líður á ógnarhraða þegar mikið er að gera.

Continue Reading

Dagur jarðar

Miðvikudaginn 22. apríl var Dagur jarðar og tóku nemendur skólans sig til og héldu í skrúðgöngu af því tilefni með fullar hjólbörur af tómatplöntum og sólblómafræjum. Plönturnar hafa nemendur ræktað upp af fræi og var þeim komið fyrir í búðinni þar sem íbúar gátu sótt sér plöntu.

Continue Reading