Author Archive

Gestakomubann

Eftir tilmæli frá heilsugæslu þá mun frá og með deginum í dag og þar til samkomubanni verður aflétt mun ríkja gestakomubann í skólanum. Staðan verður metin að nýju eftir páska.

Ekki verður tekið á móti nýjum gestanemendum eða utanaðkomandi gestum á tímabilinu en öllum velkomið að hafa samband í síma 451-3436 og í gegnum netfangið skoli@drangsnes.is

Continue Reading

Árshátíð frestað

Árshátíð Grunnskóla Drangsness sem halda átti þann 3. apríl hefur verið frestað vegna samkomubanns. Ný dagsetning verður auglýst þegar hún liggur fyrir.

Skólastarf mun taka einhverjum breytingum fyrir páska en í stað árshátíðarsmiðju munu nemendur fara í matjurtarsmiðju.

Continue Reading

Vorönnin hafin

Nú er vorönnin hafin og mörg spennandi verkefni framundan. Börnin í yngstu deild hafa verið að æfa sig í skrift og gengur ljómandi vel. Eins og flestir vita hefur ekki alltaf verið gott veður í vetur en nú ætti það að fara að breytast. Til þess að flýta fyrir vorinu og óska eftir betra veðri ákváðu nemendur í yngstu deild að blíðka góuna með því að búa til óróa úr trjágreinum og rauðri ull sem hanga nú í gluggum skólans. Við vonum að góan verði okkur góð og hlökkum til þess að njóta vorsins þegar það loksins lætur sjá sig. Nemendur skólans hefur í nógu að snúast við að æfa leikverkið sem frumflutt verður á árshátíð skólans föstudaginn 3. apríl nk. og miðdeildarstelpurnar eru að smíða leikmynd ásamt því að vinna í leikgerðinni.

Continue Reading

Öskudagur

Undanfarin ár hafa nemendur Grunnskóla Drangsness gengið í fyrirtæki á Drangsnesi og sungið fyrir starfsfólk og gesti. Í ár sungu nemendur lögin: Nú gaman, gaman er, Dýravísur og Meistari Jakob. Góður rómur var gerður að söng nemenda og var þeim allstaðar vel tekið. Malarkaffi bauð svo upp á hádegisverð áður en nemendur fóru heim að undirbúa sig fyrir öskudagsballið sem haldið var í skólanum. 

Nú er vetrarfrí í skólanum og mæta allir sprækir næstkomandi þriðjudag 🙂 

 

Continue Reading

Skapandi börn í yngstu deild

Nemendur í yngstu deild, 1. og 2. bekk, vinna nú að fjölbreyttum verkefnum m.a. í textíl. Þau eru með hugann við fuglana og vorið sem er á næsta leiti. Í verkefnavikunni var eitt af markmiðunum að búa til dreka og nú hangir einn stór og fallegur pappírsdreki í glugga kennslustofunnar. Börnin hafa sagt og skrifað drekasögur. Tvö þeirra eiga ættir að rekja til Trutnov í Tékklandi þar sem stór og mikill dreki bjó eitt sinn rétt utan við bæinn en hlaut grimm örlög þegar bæjarbúar svældu hann út úr helli sínum og drápu enda ekki margir sem vilja hafa eldspúandi dreka í grennd við sig. Drekinn sem börnin luku við í dag er svo góður að af honum stafar engin hætta svo hann fær að lifa góðu lífi hér í Grunnskóla Drangsness. 

Continue Reading

Verkefnavika og vorönn við að hefjast

Nú fer fram verkefnavika í lok miðannar og vinna nemendur að fjölbreyttum verkefnum ásamt því að taka kannanir og skila af sér ritgerðum og öðru sem námsmat annarinnar samanstendur af. Við hvetjum foreldra til þess að styðja börn sín við að vera sem best undirbúin þessa vikuna, nærast og hvílast því þá gengur allt svo miklu betur. Í lok næstu viku hefst svo vetrarfrí en að því loknu munu umsjónakennarar boða foreldra til viðtals. 

Continue Reading

Eld- smiðja

Skólaárinu er skipt upp í nokkur smiðjutímabil og er nú einni smiðjunni að ljúka en í henni var viðfangsefnið eldur skoðað út frá ólíkum sjónarhornum. Við rannsökuðum m.a. hvaða efni brenna, skrifuðum og sögðum sögur, veltum fyrir okkur uppruna eldsins og mikilvægi hans í menningu okkar. Miðdeildin rannsakaði sérstaklega skógareldana í Ástralíu en yngsta deildin fræddist um brunavarnir. 

Continue Reading

Þorrablót barnanna

Í dag föstudaginn 31. janúar héldu börnin í Grunnskóla Drangsness þorrablót og buðu hreppsbúum öllum í heimsókn. Boðið var upp á þorramat, yngri deildin söng nokkur þorralög og allir dönsuðu skottís og hókí pókí. Í lokin buðu nemendur og kennarar upp á grínatriði, myndbönd þar sem nemendur gerðu grín að kennurum og kennarar að nemendum. Við þökkum gestunum fyrir komuna og óskum öllum góðrar helgar!

Continue Reading

Rithöfundaheimsókn

Þriðjudaginn 21. janúar vorum við svo ljónheppin að fá Gunnar Helgason rithöfund og leikara í heimsókn. Verk Gunnars þekkja nemendur vel enda hafa bækur hans verið lesnar upp til agna af mörgum þeirra, það var því um nóg að ræða í heimsókn Gunnars. Við erum Gunnari afskaplega þakklát fyrir heimsóknina, spjallið, lesturinn og samveruna. Eftir spjall um bókmenntir og upplestur bauð Alla skólastjóri okkur öllum upp á ljúffenga kjötsúpu. Þessi heimsókn líður börnunum seint úr minni og við hlökkum öll til næstu bókar eftir þennan frábæra rithöfund. 

 

Continue Reading