Strandakrakkar hreppa þriðju verðlaun í First Lego League keppninni 

Laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn tóku nemendur Grunnskóla Drangsness þátt í First Lego League keppninni í þriðja sinn. 

First Lego League eða FLL er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna á aldrinum 10-16 ára í 110 löndum víða um heim. Upphaf keppninnar má rekja til ársins 1998 þegar Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group tóku höndum saman og  stofnuðu FIRST LEGO keppnina. Markmið keppninnar frá upphafi hefur verið að kveikja áhuga ungmenna á vísindum og tækni. 

First Lego League Challenge hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005 en það var haustið 2022 sem lið frá Vestfjörðum og Ströndum tók í fyrsta sinn þátt, en það árið kepptu fjórir nemendur frá Grunnskóla Drangsness í keppninni. Ári síðar bauðst nemendum Grunnskóla Hólmavíkur að slást í hópinn og það árið tóku átta nemendur frá báðum skólum þátt. Sami háttur var hafður á í ár en sex nemendur frá Grunnskóla Drangsness og einn frá Grunnskóla Hólmavíkur skipuðu liðið í ár. Þau Marta Guðrún Jóhannesdóttir kennari við Grunnskóla Drangsness og Bjarni Þórisson hafa verið leiðbeinendur frá upphafi með dyggri aðstoð Ástu Þórisdóttur skólastjóra Grunnskóla Drangsness. Foreldrar og sveitungar hafa sýnt keppninni mikinn áhuga og studdu t.a.m. stofnanir og fyrirtæki duglega við liðið í ár ásamt því sem sífellt fleiri mæta á keppnisdaginn til þess að taka þátt í viðburðinum. 

Árlega er skipt um þema í keppninni, í ár var þemað lífríki sjávar og bar keppnin undirtitilinn Neðansjávar. Nemendur leystu ýmiss verkefni en í FLL er unnið þverfaglega og taka börnin þátt í verkefnum sem skapa færni í vísindum, verkfræði, nýsköpun og tækni. Eitt verkefnanna er að forrita og hanna Legoþjarka (vélmenni) sem leysir þrautir í vélmennakapphlaupi. Það var einmitt í vélmennakapphlaupinu sem nemendur í liði skólanna hrepptu þriðja sætið, yngst allra liða sem tóku þátt að þessu sinni. Það voru því stoltir og ánægðir Strandakrakkar sem sneru heim úr höfuðborginni að keppni lokinni. 

Fyrir þau sem vilja kynna sér keppnina má sækja upplýsingar á heimasíðu hennar https://firstlego.is/keppnin/   

 

 

 

Continue Reading

Heill heimur af börnum

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.“ Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi þeirra og umhverfi, hvort sem það er fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað, og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.

Við í Grunnskóla Drangsness ákváðum að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni til þess að gefa öðrum tækifæri til þess að kynnast þorpinu okkar betur. Nemendur á elsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað er einstakt fyrir staðinn sem við búum á?“ Nemendur á yngsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað fær okkur til að skína sem einstaklingar“ og „Ef ég væri forseti“. 

Ekki er hægt að sýna frá Drangsnesi nema koma með stutta innsýn inn í starf skólans. Skólinn er einn sá fámennasti á landinu en á þessu skólaári stunda 10 nemendur nám við skólann. Í Grunnskóla Drangsness er lögð rík áhersla á að hampa fjölbreytileikanum og skapa svigrúm til að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín með því að takast á við fjölbreytt verkefni út frá ólíkum sjónarhornum. Í Grunnskóla Drangsness hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðju tímabilum. Það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðju tímabil en á skólaárinu eru alltaf nokkrar fastar smiðjur s.s. eins og árshátíðarsmiðja sem mikil tilhlökkun er fyrir ár hvert en þá setur skólinn upp leikrit sem allir nemendur skólans koma að. 

Í vetur vorum við með tilraun með að þróa stuttar smiðjur, svokallaðar þjóðasmiðjur. Þar fræðast nemendur um eitthvað ákveðið land, tungumál og menningu þess. Smiðjan endar með matarveislu með mat, drykk, tónlist og fleira frá því landi en löndin sem verða fyrir valinu eru valin af mikilli kostgæfni. Á síðasta skólaári „heimsóttum“ við Spán, Marokkó og Tékkland. 

Það sem gerir skólann okkar líka einstakan er skólagróðurhúsið okkar en um 50 fm gróðurhús tilheyrir skólanum og er síaukin áhersla lögð á ræktun matjurta og útikennslu við skólann.

Þá er árleg matjurtasmiðja að vori þar sem við nýtum gróðurhúsið okkar mikið. Nú er sú nýbreytni að gróðurhúsið er komið með hita úr nýju borholunni og mun það skapa ný tækifæri í ræktunarstarfi skólans.

Continue Reading

Árshátíð frestað

Plakat: Teikning efitr Athenu Nótt Hermannsdóttur 4. bekk og málverk í bakgrunni eftir Ása Þór Finnsson 2. bekk. Samsetning Ásta Þórisdóttir.

Árshátíð Grunnskóla Drangsness og miðdeildar Grunnskólans á Hólmavík frestast þar til eftir páska vegna veðurs. Áætlað er að árshátíðin verði fimmtudag og föstudag 11. og 12. apríl í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Árshátíðarleikritið okkar í ár heitir Ævintýraferð að miðju jarðar og er sérstaklega skrifað fyrir leikhópinn upp úr sögu Jules Verne um Leyndardóma Snæfellsjökuls. 21 nemandi frá 1. – 8. bekk hafa verið í nokkrar vikur að vinna að þessu verkefni. Þetta er ekki eingöngu leiklist heldur einnig heilmikil myndlist, hönnun hljóðmynd og söngur sem nemendur hafa verið að vinna að. Handrit og leikstjórn er í höndum Kolbrúnar Ernu Pétursdóttur.

Continue Reading

Má bjóða þér starf við ræstingar í Grunnskóla Drangsness?

Grunnskóli Drangsness leitar að starfskrafti til þess að taka við ræstingum við skólann frá og með 1. desember 2023, um 22% hlutastarf er að ræða.

Í Grunnskóla Drangsness starfa að jafnaði um 10 nemendur og 3-4 starfsmenn, skólinn er á tveimur hæðum og eingöngu er unnið með vistvæn efni við þrifin. Nálgast má upplýsingar um skólastarfið í gegnum heimasíðu skólans skoli.drangsnes.is

Menntunar- og hæfnikröfur:
Sveigjanleiki, samviskusemi og jákvæðni. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Verkvest.

Með umsóknum skal fylgja ferilskrá og meðmæli. Umsækjandi þarf að veita leyfi til upplýsingaöflunar úr sakaskrá.
Umsókn skal skila á netfangið skoli@drangsnes.is

Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2023
Allar nánari upplýsingar um ofangreint starf veitir Ásta Þórisdóttir skólastjóri í síma 4513436 / 6635319 og í gegnum netfangið skoli@drangsnes.is

Continue Reading