Skólasetning 2023

Verið öll hjartanlega velkomin á skólaslit Grunnskóla Drangsness skólaárið 2022-2023 fimmtudaginn 1. júní kl. 13:30-15:00
Skólastjóri fer yfir skólaárið
Nemendur yngri deildar syngja nokkur lög
Samsöngur
Veitingar að lokinni dagskrá
Fimmtudaginn 15. desember höldum við okkar árlegu jólaskemmtun í Grunnskóla Drangsness. Börnin munu flytja skemmtiatriði, boðið verður upp á jólalegar veitingar og að lokum verður dansað í kringum jólatréð. Það er aldrei að vita nema nokkrir hressir jólaveinar heimsæki skólann og þá er hægt að treysta því að þeir hafi eitthvað í pokanum sínum handa börnunum.
Skemmtunin hefst stundvíslega kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30
Öll hjartanlega velkomin!
Nemendur Grunnskóla Drangsness sóttu jólatré í skógrækt kvenfélagsins Snótar nú í vikunni. Um árlega hefð er að ræða og verður jólatréð sett upp á jólaskemmtun skólans þann 15. desember nk. Nemendur hjálpast að við að velja tréð ásamt kennurum, saga tréð og koma því í skólann. Við notum einnig tækifærið til þess að gera okkur glaðan dag, leika okkur í skóginum, fræðast um tré og drekka kakó. Í ár voru það þau Guðbjörg Ósk nemandi í 9. bekk og Friðgeir Logi í 5. bekk sem söguðu niður tréð og fengu til þess aðstoð frá Heiðrúnu Helgu kennara. Öll börnin fengu að klippa greinar til þess að skreyta með og áttu ánægjulega stund í skóginum.
Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember.
Í tilefni Dags íslenskrar tungu fóru nemendur í heimsókn í Fiskvinnsluna Drang og í búðina og kynntu fyrir fólki nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, en dagurinn er einmitt haldinn á fæðingardegi hans.
Nemendur skólans völdu sér hvert eitt af nýyrðum Jónasar til að skoða og myndlýstu svo orðin líka og kynntu bæði orð og mynd fyrir fólki í morgun. Jónas Hallgrímsson er flestum kunnugur en hann er eitt af stórskáldum Íslendinga en hann orti ekki einungis ljóð heldur var hann ötull talsmaður íslenskunnar og bjó til fjöldann allan af nýjum orðum sem nú eru daglega í notkun.
Nemendur kynna nýyrði í Fiskvinnslunni Drangi. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Nemendur með Mörtu kennara, kynna nýyrði í búðinni á Drangsnesi. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Hryllilegt hrekkjavökupartý verður haldið í skólanum á morgun fimmtudag kl. 18:30-19:30
Öll velkomin!
Í dag föstudaginn 16. september héldum við Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan. Börnin í yngri deild buðu til veislu þar sem m.a. var boðið upp á hitt og þetta úr gróðurhúsinu og skólagarðinum; rabarbara, kartöflur að ógleymdum eplunum þremur sem eplatréð gaf af sér. Steiktar voru vöfflur og drukkið kakó en í lok veislunnar skiptum við eplunum á milli okkar og nutum hvers bita í skemmtilegri núvitundaræfingu.
Yrkjusjóður údeildi nýlega 40 birkiplöntum til skólans og var þeim plantað í dag í skógræktarreitinn fyrir ofan skólann. Að lokinni gróðursetningu fengu nemendur að bragða á berjum en af þeim er enn nóg hér í Kaldrananeshreppi.
Kæru nemendur og forráðamenn, Grunnskóli Drangsness verður settur mánudaginn 22. ágúst kl. 10:00.
Ásta Þórisdóttir skólastjóri mun setja skólann og að því loknu verður snæddur morgunverður.
Nemendum og foreldrum verður að endingu boðið upp á skoðunarferð um skólann.
Skóli hefst þriðjudaginn 23. ágúst kl. 8:30. Fyrstu vikur nýs skólaárs verður unnið í náttúrusmiðju og því mikilvægt að vera ávallt vel búin þar sem smiðjan mun að mestu leyti fara fram utandyra.
Við hlökkum til að sjá ykkur!
Starfsfólk Grunnskóla Drangsness