Nýsköpunarsmiðja

Nú er fyrri hluti nýsköpunarsmiðju afstaðinn. Verkefnið er að búa til áningarstað í Kvennfélagslundinum sem er hjá kirkjugarðinum á Drangsnesi í um 20 mínútna göngufæri f´rá skólanum. Hugmyndavinna, vettvangsferð og tilraunir með efni úr lundinum er það sem nemendur hafa verið að bralla undanfarnar vikur í smiðjutímum. Við stefnum á að halda áfram vinnunni þegar snjóa leysir.

Continue Reading

Takk fyrir veturinn!

Síðustu vikur hafa verið líflegar og annasamar, ferð í skólalundinn okkar í Bjarnarfirði, fjöruferð, kajakferð, vinna í skólagróðurhúsinu okkar, ratleikur og svo kórsöngur á skólaslitunum síðasta föstudag – Takk fyrir veturinn og sjáumst 23. ágúst á skólasetningu. 🙂

Continue Reading

Vettvangsferð í fiskvinnsluna Drang og grásleppa krufin

Í náttúrufræði í dag fórum við í heimsókn í Drang, Óskar tók vel á móti okkur og við fræddumst um grásleppuna sem er veidd á þessum tíma árlega. Aldrei hefur veiðst meira en núna og næstum komnar 1000 tunnur af hrognum í kælinn stóra. Við fengum límmiða með nöfnum okkar til minningar um ferðina en einnig fengum við þrjár grásleppur og krufðum þær þegar í skólann var komið. Tálkn, uggar og hreistur var m.a. skoðað í víðsjá þar sem aldur fiskanna var greindur. – Takk fyrir okkur Drangur!

Continue Reading

Rýnt í hvali

Í gær, fimmtudaginn 29. apríl vorum við svo heppin að fá heimsókn frá hvalaleiðsögumanninum henni Judith Scott. Hún sagði okkur ýmislegt fróðlegt um hvali, sýndi okkur hvalabein og tennur. Nemendur fengu meira að segja að nefna fjóra af þeim 145 hnúfubökum sem halda sig mikið hér í Steingrímsfirðinum. Hún talaði um að sporður hvals sé eins og fingrafar okkar, enginn þeirra eins – við þekkjum hvalina á sporðunum. Judith hefur tekið myndir af hvölum um allan heim. Þá reynir hún að mynda sporða þeirra og greina, til að gá hvort hún þekki dýrið. Hún skrásetur þannig upplýsingar og fylgir ferðum hvalanna eftir.

Continue Reading

Leirvasar og bókamerki

Nemendur hafa undanfarnar vikur unnið að leirvösum og bókamerkjum í myndmennt og nýsköpun. Þau notuðu bæði steinleir og jarðleir í vasana auk þess sem pulsuaðferð var notuð við gerð sumra vasanna og plötuaðferð við aðra. Bókamerkin eru unnin þannig að vatnslitapappír er dýft ofan í vatn þar sem litur hefur verið settur í eftir kúnstarinar reglum (eða tilviljunum) þannig myndast einstaklega fallegt marmara munstur. Næsta föstudag 23. apríl verða þessir hlutir til sölu í Búðinni hér á Drangsnesi – ágóði mun renna til kaupa á skólapeysum.

Continue Reading

Hádegismatur á Malarkaffi

Í gær miðvikudag varð sú nýjung í skólastarfinu að nemendur og starfsfólk fær hádegismat á Malarkaffi. Þar matreiðir Óskar yndislega rétti og bauð okkur upp á plokkfisk með rúgbrauði sem börnin voru sérlega hrifin af. Boðið verður upp á hádegismat alla daga nema föstudaga út skólaárið.

Við erum hæstánægð með þessa nýjung og allir saddir og sælir þegar þeir koma í skólann eftir hádegismat.

Continue Reading

FÍUSÓL frestað

Vegna breyttra sóttvarnaráðstafana og reglna þurfum við því miður að fresta árshátíðarsýningunni FÍASÓL sem átti að fara fram í kvöld, 25. mars.

Við vonum svo sannarlega að við getum haldið sýninguna með pompi og prakt eftir páskafrí eða síðar í vor.
Nemendur hafa verið duglegir að æfa söng og leik síðustu þrjár vikur undir leikstjórn Aðalbjargar Óskarsdóttur og Karenar Aspar Haraldsdóttur. Foreldrar spreyttu sig einnig í leikrænum tilburðum 🙂

Með ósk um gleðilega páska.

Continue Reading

Árshátíðarsmiðja

Nú er árshátíðarsmiðja í fullum gangi hjá okkur hér í Grunnskóla Drangsness. Leikrit um hana Fíusól varð fyrir valinu að þessu sinni og sýningin mun fara fram í Baldri (samkomuhúsinu) fimmtudaginn 25. mars klukkan 19.00. Vegna takmarkana verða gestir ekki fleiri en 50 (börn fædd 2005 og síðar undanskilin) að þessu sinni og verður tveggja metra reglan (annars grímur) í hávegum höfð. Við erum mjög spennt!

Continue Reading

Til hamingju!

Við erum stolt af nemendum okkar í 7. bekk því þær unnu báðar til
verðlauna í Stóru upplestrarkeppninni sem fram fór að Hótel Laugarhóli 4. mars. Þar mættust nemendur frá Drangsnesi, Hólmavík og Reykhólum og allir stóðu þeir sig með prýði – til hamingju! – Sigurverarar að þessu sinni voru:
1. sæti: Kristjana Kría nemandi í Grunnskóla Drangsness 2. sæti: Kristbjörg Lilja nemandi í Grunnskólanum á Hólmavík 3. sæti: Guðbjörg Ósk nemandi í Grunnskóla Drangsness

Hér má hlusta á umfjöllun um keppnina í Mannlega þættinum á RÚV


Continue Reading