Takk Ævar!

Þann 20. mars sl. voru dregnir út vinningshafar í síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns. Veittar voru viðurkenningar fyrir hlutfallslega mesta lestur á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina og bar skólinn okkar þar sigur úr býtum. Allir þeir skólar sem lásu hlutfallslega mest fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Hér í Grunnskóla Drangsness eru stoltir bókaormar sem þakka Ævari fyrir frábært átak en nemendur skólans hafa tekið þátt í átakinu undanfarin ár og hefur það virkilega glætt áhuga barnanna á lestri. Hér að neðan má sjá úrslitin eftir skólastigum og óskum við þessum skólum innilega til hamingju með árangurinn. 

Hlutfallslega mestur lestur eftir skólastigum:

Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness

 

Continue Reading

Sossa frumsýnd 12. apríl – SÝNINGU FRESTAÐ FRAM Í MAÍ

Undanfarnar vikur hafa nemendur unnið að því að skrifa leikverk upp úr bókaflokki Magneu frá Kleifum um Sossu. Magneu þekkja nemendur vel en farið var yfir verk hennar í lestrarstund skólaárið 2017-2018. Börnin urðu stórhrifin af persónunni Sossu og fjölskyldu hennar enda er þessi fjögurra bóka flokkur áhrifamikill og geysivel skrifaður. Magnea frá Kleifum ólst upp á Ströndum og margt í sögum Sossu minnir á svæðið sem við þekkjum vel. Ferill Magneu hófst árið 1962 með útkomu skáldsögunnar Karlsen stýrimaður, fjöldi bóka fylgdi í kjölfarið og var Magnea þekktust fyrir skrif sín fyrir börn og ungmenni. Magnea lést árið 2015 en á næsta ári hefði hún orðið níræð. 

Verkið verður frumsýnt föstudaginn 12. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi og hvetjum við Strandamenn og aðra áhugasama til þess að fjölmenna. 

Continue Reading

Leikverkið Dúkkulísur frumsýnt um helgina

Frá því fyrir áramót hafa nemendur á unglingastigi Grunnskóla Drangsness og Grunnskóla Hólmavíkur unnið með leikverkið Dúkkulísur eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem verður frumsýnt föstudaginn 22. febrúar í Félagsheimilinu á Hólmavík. Esther Ösp Valdimarsdóttur kennari við Grunnskóla Hólmavíkur stýrir leikhópnum og er verkefnið hluti  af leiklistarverkefninu Þjóðleik. Þjóðleik­húsið hleypti Þjóðleik af stokk­un­um fyr­ir um tíu árum og hefur fjöldi ungmenna alls staðar af landinu tekið þátt frá upphafi. Mark­miðið er að tengja Þjóðleik­húsið á „lif­andi hátt við ungt fólk á lands­byggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekk­ingu á list­form­inu“ eins og segir í nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins um verkefnið. Blásið verður til leiklistarhátíðar í mars og munu þá allir leikhóparnir koma saman á Hólmavík. Látið þessa spennandi sýningu ekki fram hjá ykkur fara!

Continue Reading

Smiðjustarf á nýju ári

Í skólanum hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðjutímabilum en hugmyndafræðin að baki smiðjunum er sótt til Norðlingaskóla í Reykjavík. Skólaárið 2008-2009 var unnið þróunarverkefni í Norðlingaskóla þar sem heildstætt skipulag utan um samþættingu list- og verkgreina við náttúrufræði og samfélagsfræði var þróað undir heiti smiðjunnar. Lesa má nánar um þetta þróunarverkefni hér. Margir skólar hafa tekið upp þetta fyrirkomulag og það hefur gefist mjög vel í litla skólanum okkar hér á Drangsnesi. Nýtt smiðjutímabil mun brátt hefjast og verður unnið að því að setja upp leikverk eða árshátíðarsýningu skólans, í þeirri smiðju  reynir svo sannarlega á hæfni nemenda á fjölmörgum sviðum. Skólaárinu lýkur á árlegri matjurtasmiðju sem hefur verið í þróun frá því vorið 2016, nemendur nýta sólskála í skólanum, skólagróðurhúsið og lítinn reit á skólalóðinni til þess að rækta matjurtir o.fl. Við erum spennt fyrir starfinu framundan og það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðjutímabil. 

Continue Reading

Jólakveðja

Kæru vinir og velunnarar, við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Í dag höldum við í jólafrí eftir vel heppnaða jólaskemmtun og margar góðar samverustundir í desember.

Með jólakveðju

starfsfólk og nemendur Grunnskóla Drangsness

 

Continue Reading

Fullveldishátíð og opið hús 29. nóvember

Í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands bjóðum við til fullveldishátíðar og opins húss í skólanum fimmtudaginn 29. nóvember nk. Nemendur skólans hafa unnið ýmiss konar verkefni í smiðjunni 1918-2018; skrifað leikþátt, samið fræðsluerindi, tekið viðtöl og fengist við þetta tímamótaár ásamt því að skoða atburði liðinnar aldar. Elsti nemandi skólans hefur unnið að þemaverkefni með unglingadeild Grunnskólans á Hólmavík og verða m.a. erindi sem snúa að viðburðum  ársins 1918 flutt á hátíðinni. Boðið verður upp á veitingar og gefst gestum einnig kostur á að skoða önnur verkefni sem nemendur hafa unnið að á haustönninni.

Komum saman og fögnum aldarafmæli fullveldis Íslands!

 

Continue Reading

Baráttudagur gegn einelti og Dagur íslenskrar tungu

Fimmtudaginn 8. nóvember var árlegur baráttudagur gegn einelti og unnum við margvísleg verkefni af því tilefni. Í næstu viku eða föstudaginn 16. nóvember höldum við Dag íslenskrar tungu hátíðlegan með því að halda á dægurlagarúnt. Við munum flytja brot úr gömlum og nýjum dægurlögum hér og þar um þorpið eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu.

Brátt nálgast annarskil og í nógu er að snúast, starfsmenn skólans munu undirbúa það sem framundan er á undirbúningsdegi mánudaginn 12. nóvember.

Continue Reading

PALS námskeið á Reykhólum

Mánudaginn 8. október tóku umsjónarkennarar skólans þær Aðalbjörg (Alla) og Heiðrún þátt í PALS námskeiði í Reykhólaskóla. PALS er lestraraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35-45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Námskeiðið var haldið á vegum SÍSL (Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir) sem átti frumkvæði að innleiðingu PALS í íslensku samfélagi. Eftir haustfrí munu kennarar hefja PALS kennslu á yngsta stigi og miðstigi.

Continue Reading

Skólastarf komið á fullt skrið

Við höfum áorkað miklu þessar fjórar vikur sem nú eru liðnar af skólaárinu. Farið var í skólaferðalag ásamt vinum okkar í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri, Akureyri og Hrísey heimsótt en þar tóku nemendur og starfsmenn Hríseyjarskóla afskaplega vel á móti okkur. Við þökkum samveruna og frábærar mótttökur.

Í liðinni viku héldu nemendur í 4.-9. bekk af stað í Árneshreppinn en  í Finnbogastaðaskóla stóð yfir námskeiðið Heimasmölun undir stjórn Bjarnheiðar Júlíu Fossdal og Elínar Öglu Briem, við komum heim reynslunni ríkari eftir þetta stórkostlega námskeið. Föstudaginn 14. september tók Arnlín Óladóttir á móti okkur í Bjarnarfirði en á hverju hausti og hverju vori vinnum við verkefni í tengslum við skólalundinn okkar í Bjarnarfirði. Við erum svo heppin að njóta leiðsagnar Arnlínar og í þetta sinn skoðuðum við m.a. rætur lúpínunnar ásamt fleiru. Framundan eru spennandi heimsóknir en á morgun þriðjudag heimsækir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur skólann og býður upp á dagskrá fyrir annars vegar unglingastigið og hins vegar miðstigið – nemendur Grunnskóla Hólmavíkur koma til okkar af þessu tilefni. List fyrir alla býður svo upp á söngleikinn Björt í Sumarhúsi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sjá nánar hér https://listfyriralla.is/event/bjort-i-sumarhusi-2/

Það er sem sagt líf og fjör í skólanum alla daga.

Continue Reading