Baráttudagur gegn einelti og Dagur íslenskrar tungu

Fimmtudaginn 8. nóvember var árlegur baráttudagur gegn einelti og unnum við margvísleg verkefni af því tilefni. Í næstu viku eða föstudaginn 16. nóvember höldum við Dag íslenskrar tungu hátíðlegan með því að halda á dægurlagarúnt. Við munum flytja brot úr gömlum og nýjum dægurlögum hér og þar um þorpið eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu.

Brátt nálgast annarskil og í nógu er að snúast, starfsmenn skólans munu undirbúa það sem framundan er á undirbúningsdegi mánudaginn 12. nóvember.

Continue Reading

PALS námskeið á Reykhólum

Mánudaginn 8. október tóku umsjónarkennarar skólans þær Aðalbjörg (Alla) og Heiðrún þátt í PALS námskeiði í Reykhólaskóla. PALS er lestraraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35-45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Námskeiðið var haldið á vegum SÍSL (Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir) sem átti frumkvæði að innleiðingu PALS í íslensku samfélagi. Eftir haustfrí munu kennarar hefja PALS kennslu á yngsta stigi og miðstigi.

Continue Reading

Skólastarf komið á fullt skrið

Við höfum áorkað miklu þessar fjórar vikur sem nú eru liðnar af skólaárinu. Farið var í skólaferðalag ásamt vinum okkar í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri, Akureyri og Hrísey heimsótt en þar tóku nemendur og starfsmenn Hríseyjarskóla afskaplega vel á móti okkur. Við þökkum samveruna og frábærar mótttökur.

Í liðinni viku héldu nemendur í 4.-9. bekk af stað í Árneshreppinn en  í Finnbogastaðaskóla stóð yfir námskeiðið Heimasmölun undir stjórn Bjarnheiðar Júlíu Fossdal og Elínar Öglu Briem, við komum heim reynslunni ríkari eftir þetta stórkostlega námskeið. Föstudaginn 14. september tók Arnlín Óladóttir á móti okkur í Bjarnarfirði en á hverju hausti og hverju vori vinnum við verkefni í tengslum við skólalundinn okkar í Bjarnarfirði. Við erum svo heppin að njóta leiðsagnar Arnlínar og í þetta sinn skoðuðum við m.a. rætur lúpínunnar ásamt fleiru. Framundan eru spennandi heimsóknir en á morgun þriðjudag heimsækir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur skólann og býður upp á dagskrá fyrir annars vegar unglingastigið og hins vegar miðstigið – nemendur Grunnskóla Hólmavíkur koma til okkar af þessu tilefni. List fyrir alla býður svo upp á söngleikinn Björt í Sumarhúsi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sjá nánar hér https://listfyriralla.is/event/bjort-i-sumarhusi-2/

Það er sem sagt líf og fjör í skólanum alla daga.

Continue Reading

Magndís hreppti fyrsta sætið

Verkefni íslensks grunnskólanema eitt af tíu bestu í European Heritage Makers Week

Úrslit í Menningarminjakeppni grunnskólanna voru tilkynnt fimmtudaginn 5. júlí og hreppti Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, nemandi í 6. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi, fyrsta sætið. Vinningsverkefni Magndísar er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð á meðan hún var starfrækt á sautjándu öld.

Tengill á fréttina hér

Continue Reading

Sinéad McCarron gestakennari vikunnar

Vikuna 6.-10. nóvember leiðir Sinéad McCarron hönnuður fyrstu gestakennarasmiðju skólaársins. Sinéad hefur í rannsóknum sínum og námi við LHÍ lagt áherslu á nýjar og spennandi aðferðir í kennslu og samvinnutækni í sköpun. Föstudaginn 10. nóvember kl. 11:30-12:10 verður kynning á afrakstri smiðjunnar. Við bíðum þess með eftirvæntingu að kynnast betur Sinéad og aðferðum hennar í listkennslu.

Continue Reading

Gull og grjót á Hólmavík

Föstudaginn 15. september mun skólinn fá heimsókn frá List fyrir alla sem að þessu sinni býður upp á verkefnið Gull og grjót. Þær Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt og María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir hönnuður hafa umsjón með verkefninu sem hefur það m.a. að markmiði að gefa grunnskólanemendum innsýn í heim arkitekta og hönnuða. Einnig mun gefast tækifæri til að kanna hvernig manngert umhverfi okkar hefur áhrif á okkur. Við erum ótrúlega spennt að taka þátt í þessu verkefni en við munum verja deginum með vinum okkar á Hólmavík þar sem verkefnið fer fram frá kl. 8:30-14:30

Continue Reading

Þríleikur Þorbjörns árshátíðarsýnings skólans

Það stendur mikið til í Grunnskólanum á Drangsnesi þessa dagana en æfingar hafa staðið yfir á nýju verki, Þríleik Þorbjörns sem unnið er upp úr þremur af þekktustu verkum norska leikskáldsins Thorbjörns Egners. Nemendur og starfsfólk skólans ásamt vinum sínum í leikskólanum hafa staðið í ströngu við að undirbúa sýninguna en nú líður að uppskerutíma því sýningin verður frumsýnd föstudaginn 7. apríl í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Sýningin hefst kl. 19:00 og að henni lokinni verður boðið upp á stórkostlegar veitingar sem foreldrar barna í leik- og grunnskólanum hafa undirbúið.

Páskaleyfi hefst mánudaginn 10. apríl og skóli hefst að nýju þriðjudaginn 18. apríl.

Við hlökkum til að sjá ykkur á föstudaginn og vonum að þið njótið samverunnar í páskaleyfinu!

Continue Reading

Styttist í frumsýningu

Nú styttist í árshátíð Grunnskólans á Drangsnesi en við munum frumsýna leikverk föstudaginn 7. apríl í samkomuhúsinu Baldri kl. 19:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Að þessu sinni var ákveðið að setja saman verk þar sem ýmsar þekktar senur úr Dýrunum í Hálsaskógi, Karíusi og Baktusi og Kardemommubænum eftir norska leikskáldið Thorbjörn Egner er blandað saman við frumsamið efni. Sjálfur Egner treður meira að segja upp í verkinu og þeir bræður Karíus og Baktus koma við hjá Hérastubbi bakara. Börn og starfsfólk leikskólans mun taka þátt í uppsetningunni ásamt nemendum GáD. Margt fleira er framundan hjá okkur s.s. eins og matjurta- og grásleppusmiðja, danskennsla á Hólmavík o.fl.

Við bendum ykkur á að fylgjast með á vinasíðunni okkar á Facebook þar sem fréttir úr starfinu birtast vikulega.

Continue Reading

Opið hús við annarskil

Við bjóðum alla íbúa Kaldrananeshrepps; foreldra, ömmur, afa, frænkur, frændur og aðra vini skólans hjartanlega velkomna á opið hús föstudaginn 4. nóvember hér í skólanum frá kl. 11:00-12:10

Dagskráin verður fjölbreytt en nemendur og starfsfólk munu sýna og segja frá verkefnum haustannar. Foreldrar barnanna munu sjá um veitingar en nemendur í heimilisfræði munu einnig bjóða upp á eitthvað spennandi að smakka úr gróðurhúsinu. Meðal þess sem verður á dagskrá opna hússins er upplestur, hreyfimynd um skólann í framtíðinni og leikin mynd sem byggir á sögulegum viðburði eða þegar skotið var á vitann í Grímsey í heimstyrjöldinni síðari.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Continue Reading

Krakkakosningar og heimsókn Tabú

Í dag föstudag var kjörstaður opinn hér í Grunnskólanum á Drangsnesi en þá gengu nemendur skólans til krakkakosninga. Krakkakosningar er samstarfsverkefni KrakkaRúv og umboðsmanns barna og er verkefnið í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Börnum er veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á. Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi, við munum fylgjast spennt með.

Dagurinn í dag var annars helgaður mannréttindabaráttu fatlaðra og fræðslu um fatlanir og fötlunarfordóma. Talskonur Tabú þær Freyja Haraldsdóttir þroskaþjálfi og Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir félagsfræðingur buðu upp á einstaklega vel skipulagða fræðslu sem eflaust hafði mikil og góð áhrif á nemendur og aðra sem tóku þátt í fræðslunni. Sjá má ljósmyndir frá viðburðinum á vinasíðu skólans á Facebook. Með okkur voru nemendur og kennarar Grunnskólans á Hólmavík og var frábært að fá góða gesti. Á heimasíðu Tabú má kynna sér nánar starfsemi hópins www.tabu.is

Continue Reading