PALS námskeið á Reykhólum
Mánudaginn 8. október tóku umsjónarkennarar skólans þær Aðalbjörg (Alla) og Heiðrún þátt í PALS námskeiði í Reykhólaskóla. PALS er lestraraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35-45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Námskeiðið var haldið á vegum SÍSL (Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir) sem átti frumkvæði að innleiðingu PALS í íslensku samfélagi. Eftir haustfrí munu kennarar hefja PALS kennslu á yngsta stigi og miðstigi.
Úrslit í Menningarminjakeppni grunnskólanna voru tilkynnt fimmtudaginn 5. júlí og hreppti Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, nemandi í 6. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi, fyrsta sætið. Vinningsverkefni Magndísar er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð á meðan hún var starfrækt á sautjándu öld.

Nú styttist í árshátíð Grunnskólans á Drangsnesi en við munum frumsýna leikverk föstudaginn 7. apríl í samkomuhúsinu Baldri kl. 19:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Við bjóðum alla íbúa Kaldrananeshrepps; foreldra, ömmur, afa, frænkur, frændur og aðra vini skólans hjartanlega velkomna á opið hús föstudaginn 4. nóvember hér í skólanum frá kl. 11:00-12:10
Í dag föstudag var kjörstaður opinn hér í Grunnskólanum á Drangsnesi en þá gengu nemendur skólans til krakkakosninga. Krakkakosningar er samstarfsverkefni KrakkaRúv og umboðsmanns barna og er verkefnið í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Börnum er veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á. Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi, við munum fylgjast spennt með.
Nemendur skólans hafa verið yfir sig ánægðir með gesti vikunnar en á skólalóðinni hafa nú dvalið um átta rjúpur alla vikuna. Sigurbjörg Halldóra nemandi í 7. bekk smellti meðfylgjandi mynd af þegar rjúpurnar voru að skoða nýja leiksvæðið okkar. Brátt hefst ný önn hér í GáD en næstu tvær vikur verður nóg um að vera; föstudaginn 28. október heimsækja þær Freyja Haraldsdóttir og Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir okkur en þær ætla að fræða nemendur, kennara og aðra áhugasama um fötlunarfordóma og mannréttindi. Viku síðar eða föstudaginn 4. nóvember verður opið hús en þá gefst foreldrum, ömmum, öfum og öðrum vinum skólans færi á að sjá að hverju við höfum verið að vinna þessa haustönnina.