Heimsmarkmiða smiðja HM30

Nú erum við í miðri heimsmarkmiðasmiðju, þar sem við skoðum heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun. Þau eru 17 talsins og miða öll að því að heimurinn verði betri – ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030. Í smiðjunni höfum við rætt hvað við erum nú þegar að gera í skólanum og heima, sem tengist markmiðunum. Við horfðum á alla sautján þættina á krakkaRÚV sem fjalla um HM30 og ræddum þá eftir áhorfið og svo gerðum við risastórt HM30 hjól og settum upp á vegg í skólanum. Einnig hafa krakkarnir í yngri deild búið til HM30 17 segla til að setja á ísskápinn heima.

Við höfum lært um býflugur og humlur, fórum meðal annars í heimsókn til Pat í Bjarnarfirðinum og skoðuðum býflugnabúið hennar og hún fræddi okkur um lifnaðarhætti býflugna. Við hittum forsætisráðherra, Katrínu Jakobs, á zoom og ræddum HM30 við hana og hvað við getum gert sem samfélag og hvað hún er að gera sem forsætisráðherra til að ná markmiðunum. Annað sem við höfum skoðað eru matarvenjur fólks, hvað fólk víðs vegar um heiminn borðar og hve mikið magn, á viku. Nemendur tóku viðtal við ömmu, afa, langafa eða langömmu og spurðu út í neysluvenjurnar sem þau ólust upp við. Í lok smiðjunnar stefnum við á að halda HM30 þing hér í skólanum og bjóða foreldrum, sveitarstjórn, fræðslunefnd og almenningi að koma og ræða heimsmarkmiðin við okkur. Nemendur verða með kynningar á nokkrum vel völdum heimsmarkmiðum og við búumst við líflegum umræðum.

Continue Reading

Flögrandi fiðrildi

Í gær á leið okkar úr hádegismat sáum við einstaklega fallegt fiðrildi, stórt, svart, hvítt og appelsínugult. Mikill spenningur fyrir því og enn meiri þegar við fönguðum það og skoðuðum. Eftir skoðunina slepptum við því lausu og það var frelsinu fegið. Við höfum ekki séð svona fiðrildi áður á Íslandi, kannski kom það frá Tékklandi?

Continue Reading

Takk fyrir veturinn!

Síðustu vikur hafa verið líflegar og annasamar, ferð í skólalundinn okkar í Bjarnarfirði, fjöruferð, kajakferð, vinna í skólagróðurhúsinu okkar, ratleikur og svo kórsöngur á skólaslitunum síðasta föstudag – Takk fyrir veturinn og sjáumst 23. ágúst á skólasetningu. 🙂

Continue Reading

Vettvangsferð í fiskvinnsluna Drang og grásleppa krufin

Í náttúrufræði í dag fórum við í heimsókn í Drang, Óskar tók vel á móti okkur og við fræddumst um grásleppuna sem er veidd á þessum tíma árlega. Aldrei hefur veiðst meira en núna og næstum komnar 1000 tunnur af hrognum í kælinn stóra. Við fengum límmiða með nöfnum okkar til minningar um ferðina en einnig fengum við þrjár grásleppur og krufðum þær þegar í skólann var komið. Tálkn, uggar og hreistur var m.a. skoðað í víðsjá þar sem aldur fiskanna var greindur. – Takk fyrir okkur Drangur!

Continue Reading

Rýnt í hvali

Í gær, fimmtudaginn 29. apríl vorum við svo heppin að fá heimsókn frá hvalaleiðsögumanninum henni Judith Scott. Hún sagði okkur ýmislegt fróðlegt um hvali, sýndi okkur hvalabein og tennur. Nemendur fengu meira að segja að nefna fjóra af þeim 145 hnúfubökum sem halda sig mikið hér í Steingrímsfirðinum. Hún talaði um að sporður hvals sé eins og fingrafar okkar, enginn þeirra eins – við þekkjum hvalina á sporðunum. Judith hefur tekið myndir af hvölum um allan heim. Þá reynir hún að mynda sporða þeirra og greina, til að gá hvort hún þekki dýrið. Hún skrásetur þannig upplýsingar og fylgir ferðum hvalanna eftir.

Continue Reading

Nemandi 8. bekkjar hlýtur viðurkenningu í handritasamkeppni Árnastofnunar

Í tilefni af því að 21. apríl 2021 voru liðin 50 ár frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku stóð grunnskólanemendum til boða að taka þátt í handritasamkeppni Árnastofnunar. Nemendur höfðu frjálsar hendur og af þeim hátt í hundrað handritum sem bárust í keppnina voru efnistökin afar fjölbreytt. Nemendur í eldri deild GD tóku þátt í samkeppninni en í kjölfar heimsóknar fræðara Árnastofnunnar þeirra Snorra og Jakobs hófu nemendur að kynna sér heim handritanna, efniðvið og aðferðir. Efni af vefnum Handritin til barnanna kom sér afar vel í þessu ferli en nemendur skoðuðu einnig Íslensku Teiknibókina í útgáfu Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings ásamt fleiru. Að lokum völdu nemendur sér texta sem tengist Drangsnesi og Grímsey og efnivið en fyrir valinu varð annars vegar lambaskinn og næfurkolla. 
Þær Guðbjörg Ósk og Kristjana Kría Lovísa unnu saman að því að skrifa upp brot af þjóðsögunni af tilurð Kerlingarinnar og Grímseyjar á skinn og máluðu mynd af bæði Kerlingunni og eyjunni. Sara Lind valdi brot úr ljóði Björns Guðmundssonar frá Bæ, Grímsey á Steingrímsfirði, sem birtist m.a. í safninu Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi. Ljóðið skrifaði Sara Lind upp á næfurkollu ásamt því að mála mynd af eyjunni okkar, Grímsey. 
Síðasta vetrardag var tilkynnt hvaða handrit fengu sérstaka viðurkenningu og var eitt þeirra handrit Söru Lindar Magnúsdóttur.  
Eins og segir á heimasíðu Árnstofnunar var handritasamkeppnin haldin í samstarfi við Sögur – verðlaunahátíð barnanna en í júní verður eitt handrit verðlaunað sem Ungdómshandritið 2021 á Sögum verðlaunahátíð barnanna.
Dómnefnd var skipuð þeim Gísla Sigurðssyni, Arndísi Þórarinsdóttur og Goddi.
Við óskum Söru Lind innilega til hamingju með viðurkenninguna. 

Continue Reading