Nú er fyrri hluti nýsköpunarsmiðju afstaðinn. Verkefnið er að búa til áningarstað í Kvennfélagslundinum sem er hjá kirkjugarðinum á Drangsnesi í um 20 mínútna göngufæri f´rá skólanum. Hugmyndavinna, vettvangsferð og tilraunir með efni úr lundinum er það sem nemendur hafa verið að bralla undanfarnar vikur í smiðjutímum. Við stefnum á að halda áfram vinnunni þegar snjóa leysir.
Síðasti skóladagurinn var í dag, við mætum aftur glöð í bragði eftir jólafrí 4. janúar. Hér má hlusta á hlaðvarpsþátt sem Guðbjörg Ósk nemandi í 8. bekk vann undir handleiðslu Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur. Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla.
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, síðan árið 1996. Að því tilefni flytja nemendur Grunnskóla Drangsness erindi úr laginu ,,Jónas litli“. Ljóð eftir Þórarinn Eldjárn og lag eftir Jóhann Helgason. Börnin lærðu það og æfðu undir handleiðslu Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur, Sjá hér: https://youtu.be/4JwxavzaB5o
Einnig smíðuðu börnin sín eigin klippiljóð sem sjá má hér að neðan. Til hamingju með daginn!
Nú er heimsmarkmiðasmiðju lokið hjá okkur. Nemendur sem og kennarar hafa lært heilan helling. Við héldum þing opið almenningi í lok smiðjunnar þar sem nemendur stóðu sig með stakri prýði við kynningar á vel völdum markmiðum. Meira má lesa um það hér:
Nú erum við í miðri heimsmarkmiðasmiðju, þar sem við skoðum heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun. Þau eru 17 talsins og miða öll að því að heimurinn verði betri – ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030. Í smiðjunni höfum við rætt hvað við erum nú þegar að gera í skólanum og heima, sem tengist markmiðunum. Við horfðum á alla sautján þættina á krakkaRÚV sem fjalla um HM30 og ræddum þá eftir áhorfið og svo gerðum við risastórt HM30 hjól og settum upp á vegg í skólanum. Einnig hafa krakkarnir í yngri deild búið til HM30 17 segla til að setja á ísskápinn heima.
Við höfum lært um býflugur og humlur, fórum meðal annars í heimsókn til Pat í Bjarnarfirðinum og skoðuðum býflugnabúið hennar og hún fræddi okkur um lifnaðarhætti býflugna. Við hittum forsætisráðherra, Katrínu Jakobs, á zoom og ræddum HM30 við hana og hvað við getum gert sem samfélag og hvað hún er að gera sem forsætisráðherra til að ná markmiðunum. Annað sem við höfum skoðað eru matarvenjur fólks, hvað fólk víðs vegar um heiminn borðar og hve mikið magn, á viku. Nemendur tóku viðtal við ömmu, afa, langafa eða langömmu og spurðu út í neysluvenjurnar sem þau ólust upp við. Í lok smiðjunnar stefnum við á að halda HM30 þing hér í skólanum og bjóða foreldrum, sveitarstjórn, fræðslunefnd og almenningi að koma og ræða heimsmarkmiðin við okkur. Nemendur verða með kynningar á nokkrum vel völdum heimsmarkmiðum og við búumst við líflegum umræðum.
Í gær á leið okkar úr hádegismat sáum við einstaklega fallegt fiðrildi, stórt, svart, hvítt og appelsínugult. Mikill spenningur fyrir því og enn meiri þegar við fönguðum það og skoðuðum. Eftir skoðunina slepptum við því lausu og það var frelsinu fegið. Við höfum ekki séð svona fiðrildi áður á Íslandi, kannski kom það frá Tékklandi?
Í gær fórum við í Bjarnarfjörð, við hittum Patriciu og býflugurnar hennar og fórum með Arnlín að vaða í Bjarnarfjarðaránni. Við settum líka upp skilti hjá skólalundinum okkar.