Smiðjustarf á nýju ári

Í skólanum hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðjutímabilum en hugmyndafræðin að baki smiðjunum er sótt til Norðlingaskóla í Reykjavík. Skólaárið 2008-2009 var unnið þróunarverkefni í Norðlingaskóla þar sem heildstætt skipulag utan um samþættingu list- og verkgreina við náttúrufræði og samfélagsfræði var þróað undir heiti smiðjunnar. Lesa má nánar um þetta þróunarverkefni hér. Margir skólar hafa tekið upp þetta fyrirkomulag og það hefur gefist mjög vel í litla skólanum okkar hér á Drangsnesi. Nýtt smiðjutímabil mun brátt hefjast og verður unnið að því að setja upp leikverk eða árshátíðarsýningu skólans, í þeirri smiðju  reynir svo sannarlega á hæfni nemenda á fjölmörgum sviðum. Skólaárinu lýkur á árlegri matjurtasmiðju sem hefur verið í þróun frá því vorið 2016, nemendur nýta sólskála í skólanum, skólagróðurhúsið og lítinn reit á skólalóðinni til þess að rækta matjurtir o.fl. Við erum spennt fyrir starfinu framundan og það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðjutímabil.