Samfélagsgreinar

Undir samfélagsfræðigreinar heyra m.a. saga, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðarfræði, lífsleikni, heimspeki ásamt siðfræði. Samfélagsgreinar fjalla um samfélög og menningu á upplýsandi og gagnrýninn hátt og fræða nemendur um gildi eins og jafnrétti, lýðræði, umhyggju, virðingu og þýðingu þessara gilda fyrir farsælt líf. Samfélagsgreinum er ætlað að flétta saman þekkingu, færni og tilfinningum sem byggjast á upplifun og sköpun nemandans. Við Grunnskóla Drangsness hefur verið lögð rík áhersla á að samþætta samfélagsgreinar við aðrar námsgreinar og má segja að samfélagsgreinar beri uppi þær smiðjur sem boðið er upp á á hverju skólaári. Nemendum er gefið færi á að kynnast eigin samfélagi og um leið öðrum í gegnum sitt eigið í heimabyggðarsmiðju, á hverju hausti er haldið í námsferð og hafa nemendur skólans nú ferðast um nær alla landshluta og þannig fengið að kynnast að eigin raun sögu, samfélagi og landafræði Íslands. Í gegnum samskipti og samstarf við aðra skóla hafa nemendur einnig kynnst reynsluheimi jafnaldra sinna vítt og breitt um landið og fengið að spegla sig í honum. Skólaárið 2017-2018 stóð m.a. yfir samstarfsverkefni Grunnskóla Drangsness, Grunnskóla Grímseyjar og Grunnskóla Borgarfjarðar eystri.