Íslenska á yngsta stigi

 

Grunnskóli Drangsness 2019-2020

Yngsta deild (1.-4. bekkur)

Námsgrein: Íslenska

Kennarar:  Aðalbjörg Óskarsdóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir 

Tímafjöldi á viku: 7-8 kennslustundir þar af 2-3 inni í smiðjutímum

Skólaárið skiptist í haust-, mið- og vorönn 

Kennsla í 1.-4. bekk hverfist að mestu um lestur og læsi í víðum skilningi. Í yngstu deild eru fjölbreyttar aðferðir notaðir í lestrarnámi og – þjálfun sem allar miða að því að leggja grunn að góðri lestrarfærni hvers og eins. 

Dæmi um lestraraðferðir:
Paralestur – nemendur lesa hvor fyrir annan
Tímataka – nemendur lesa hvor fyrir annan og taka tíma til að auka lestrarhraða
Skiptilestur – nemendur lesa hvor fyrir annan og æfa samantekt
Kórlestur – nemendur lesa saman í kór
Gagnvirkur lestur – nemendur nota fimm þrep við lestur til að auka lesskilning :
1.Skoða
2.Lesa
3.Samantekt
4.Spurningar
5.Forspá
Leitarlestur-nemendur leita orða og orðasambanda með tiltekna merkingu
Yndislestur-nemendur lesa bók við hæfi sér til ánægju og yndisauka í 15 -20 mínútur á dag

Lestraraðferðir sem nýttar eru við lestarkennslu í  yngstu deild

LTG aðferðin

Unnið er út frá talmáli og sköpunarhæfileikum nemenda sem semja sögur með hjálp kennara. Þessi aðferð er notuð til þess að kenna ákveðna bókstafi eða orðmyndir. Kveikjan að sögu getur verið t.d. einn bókstafur, mynd eða upplifun nemendahópsins á einhverju sérstöku. Unnið er með söguna á marga vegu og gefst nemendum tækifæri til þess að uppgötva tengsl hins talaða máls og hins ritaða.

Hljóðasmiðja Lubba 

Áfram  byggt ofan á það sem nemendur hafa unnið með á leikskólastiginu. Sérstaklega unnið með hljóðasmiðju 4. 

Hljóðaaðferðin

Kenndir eru bókstafirnir í íslenska stafrófinu, hljóð þeirra og tákn. Bókstafirnir eru kenndir í þeirri röð sem þeir koma fyrir í lestrarkennslubókinni Lestrarlandið  og eða Lesum saman. Þegar nemendur hafa heyrt hljóð og séð tákn byrja þeir að móta og skrifa bókstafinn þannig að samhæfing hugar og handar æfist. Fyrst eru kenndir nokkrir bókstafir og síðan er næsta skref að tengja saman hljóðin og mynda með þeim mælt mál sem felur í sér orð og síðan setningar.

Í upphafi lesa nemendur stutt orð en fara smám saman að lesa lengri orð og setningar. 

Fjölskynja kennsluaðferðir

Fjölskynja nálgun byggir á því að nemendur vinna með viðfangsefni út frá sem flestum skynáreitum. Nemendur sjá og skoða form bókstafanna og læra um leið hvernig þeir eru skrifaðir (gegnum sjónina). Þeir hlusta á heiti og hljóð stafanna (gegnum heyrn), búa til stafinn með því að „skrifa“ stafina á borðið sitt eða út í loftið með fingrunum (gegnum hreyfingu) og leira stafinn en fá þá um leið að þreifa á formi hans (gegnum snertingu).

Samlestur

Kennari velur texta, sögu eða jafnvel ljóð og unnið er t.d. með ákveðna bókstafi, hugtök,

orð eða orðmyndir. Verkefni eru unnin út frá textanum, bæði myndrænt og skriflega.

Lesskilningur er þjálfaður og ný orð skoðuð sérstaklega til þess að auka orðaforðann. Í vikulegum söng- og sögustundum gefst einnig kostur á að dýpka hugtakaskilning og efla orðaforða nemenda.

Spil og leikir

Á yngstu stigum eru spil og leikir mikilvægar kennsluaðferðir til þess að þjálfa bókstafi,

hljóð þeirra og tákn, orð og orðmyndir

Einnig eru ýmis kennsluforrit nýtt til lestrarkennslu og þjálfunar s.s. eins og Orðagull sem nýtt eru markvisst í kennslunni. 

PALS

Peer assistand learning strategies (PALS) eða Pör að læra saman á

íslensku er skv. rannsóknum árangursrík kennsluaðferð til að þjálfa lesfimi og

lesskilningsaðferðir í blönduðum bekkjardeildum (McMaster,Fuchs og Fuchs, 2006; Maheady og Harper, 2003). Þessi aðferð er notuð markvisst í yngri deild. 

Lestrarerfiðleikar

Einstaka nemendur eiga oft í erfiðleikum með að tileinka sér lestrarnámið. Þegar nemandi á erfitt með að tileinka sér lestur er mikilvægt að bregðast fljótt við og koma til móts við nemandann á hans forsendum. Í leikskóla er lagt fyrir Hljóm 2 próf til aðfinna þá einstaklinga sem gætu átt við lestrarerfiðleika að stríða seinna meir og er þar einnig leitast við að vinna með niðurstöður áður en eiginlegt lestranám hefst í

grunnskólanum. Á fyrstu árunum í grunnskólanum er fylgst mjög vel með framvindu

lestrarnámsins með ýmsum matstækjum. Nánari upplýsingar um matstæki og úrræði má nálgast í lestrarstefnu skólans sem finna má á heimsíðu hans. Í töflu 1 má sjá styrkleika og veikleika í lestrarfærni í fjórum undirhópum.

Gert er ráð fyrir því að nemendur þjálfi lestur reglulega heima og taka bæði hraðlestrarpróf / stafakönnun og lesskilningspróf skv. lestrarstefnu skólans. Kennarar og nemendur vinna sameiginlega að því markmiði að auka ábyrgð nemenda í eigin námi og að gera námið í íslensku áhugavekjandi og ánægjulegt. 

Dæmi um námsefni í 1. bekk: Lestrarbækur við hæfi hvers og eins, fjölbreytt verkefni frá námsefnisveitum (m.a. af 123 skóli og Skólavefnum), Lestrarlandið, ýmis þemaverkefni, sögugerð, skrift o.fl. 

Dæmi um námsefni í 2. bekk: Lestrarbækur við hæfi hvers og eins, fjölbreytt verkefni frá námsefnisveitum (m.a. af 123 skóli og Skólavefnum), Bras og þras á Bunulæk (lestrarbók og vinnubók), Davíð og fiskarnir (lestrarbók og vinnubók), Lesrún, Ritrún, ýmis þemaverkefni, sögugerð, skrift o.fl. 

Dæmi um námsefni í 3. bekk: Lestrarbækur við hæfi hvers og eins, fjölbreytt verkefni frá námsefnisveitum (m.a. af 123 skóli og Skólavefnum), Ritrún, Litlu landnemarnir les- og vinnubók, ýmis þemaverkefni, sögugerð, skrift o.fl. Dæmi um námsefni í 4. bekk: Lestrarbækur við hæfi hvers og eins, fjölbreytt verkefni frá námsefnisveitum (m.a. af 123 skóli og Skólavefnum), steinabækurnar (Óskasteinn, Sögusteinn, Völusteinn), ýmis þemaverkefni, ritun, skrift o.fl. 

 

Hæfniviðmið, við lok 4. bekkjar

Leiðir, kennari

Leiðir, nemandi

Námsmat

Talað mál hlustun og áhorf

Nemandi getur tjáð sig frammi fyrir hópi og staðið fyrir máli sínu, átt góð samskipti, hlustað og sýnt kurteisi.

Í upphafi náms fara umræður fram í heimakrók, kennari velur viðfangsefni eftir þemum (t.d. tunglið, þjóðhættir, fuglar…) sem nemendur kynnast í gegnum, söng, sögur, leiki og samræður sem allir taka virkan þátt í. Kennari tryggir góðar venjur við að koma af stað og stýra umræðum t.d. með vönduðum og opnum spurningum. Kennari sér til þess að nemendur hafi aðgang að fjölbreyttu og áhugavekjandi efni, les daglega sögur, ljóð og texta sem eru vel til þess fallnir að koma af stað umræðum og við hæfi hverjum aldurshópi fyrir sig. Ýmsar fyrirmyndir skoðaðar eftir því sem við á og leikrænni tjáningu beitt til þess að nemendur öðlist færni í að tjá sig og eiga góð samskipti. 

Í upphafi hvers skóladags þjálfast nemandi í að hlusta og taka átt í umræðum m.a. um daglegt líf. Nemandi hlustar af athygli á upplestur fjölbreyttra texta og getur bæði svarað spurningum beint upp úr efninu og rætt efni textans. Þjálfun fer fram í því að fara eftir fyrirmælum, tala skýrt og koma hugsunum sínum og hugmyndum í orð. Nemandi öðlast færni í að fara eftir þeim reglum sem gilda í samræðum, tjáir sig og færir rök fyrir skoðunum sínum – lætur rödd sína heyrast. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Umsögn við annarlok. 

Lestur og bókmenntir 

Nemandi getur tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyni að ná merkingu þess, lesið lesefni eftir áhuga og þörf s.s. sögur, ljóð og fræðandi efni sem hæfir lestrargetu, háð hugtökum eins og persónu, söguþræði, umhverfi og boðskap, lesið úr táknmyndum og myndrænu efni s.s. einföldum skýringarmyndum, kortum og myndritum. 

Kennari skapar námsumhverfi sem hvetur til lesturs og sér til þess að hver og einn nemandi hafi greiðan aðgang að lesefni við hæfi hvað varðar áhuga og getu. Ýmis verkefni eru unnin í upphafi náms s.s. eins og gerð bekkjarbókasafns sem þjálfar margvíslega hæfni nemenda. Mikil áhersla er lögð á lestur fjölbreyttra og áhugavekjandi texta – gamalla og nýrra. Í gegnum lestur og umræðu þjálfar kennari nemendur í að ná tökum á hugtökum sem auka skilning þeirra á uppbyggingu bókmenntatexta. Ritun texta út frá myndum, reynslu og daglegu lífi skipar mikilvægan sess í lestrar- og bókmenntakennslu. 

Nemandi fær sem oftast færi  á að vinna með myndrænar upplýsingar (kort, myndrit…) og fjölbreytta texta. Með ýmsum verkefnum öðlist nemandi færni í að nota  hugtök á borð við orð og málsgrein (t.d. Málsgrein hefst á…). Nemandi býr til bekkjarbókasafn í samvinnu við aðra nemendur og kennara og áttar sig þannig á að textar hafa margvíslegan tilgang og öðlast betri skilning á hvers konar textar höfði best til hans og henti lestrargetu.  Eftir því sem líður á námið á nemandi að geta betur greint uppbyggingu texta, söguþráð, persónulýsingar, umhverfi og boðskap.  

Læsi 1.1, læsi 1.2 og læsi 1.3 skv. áætlun um innra mat, skrift (skrifleg umsögn). Raddlestrarpróf / Stafakönnun ásamt þátttöku í Lesferli. Orðarún í 3. og 4. bekk. skv. áætlun um innra mat.

Ritun

Nemandi getur dregið rétt til stafs, þekkt grunnþætti í byggingu texta s.s. upphaf, meginmál og niðurlag, samið texta frá eigin brjósti s.s. sögu, frásögn eða skilaboð, notað einfaldar stafsetningarreglur, skrifað texta á tölvu og notað einföldustu aðgerðir í ritvinnslu. 

Söguþráður og grunnþættir í byggingu texta eru fyrst um sinn þjálfaðir með aðstoð mynda, nemendur raða myndum upp í „rétta“ röð, skapa sínar eigin myndasögur eða nota myndir sem kveikju að sögu. Kennari sér til þess að stafsetning sé í sífellu þjálfuð og eflir sjálfstraust nemenda í að skrifa eigin sögur og skrifa skýrt og fallega (eftir settum reglum). Eftir því sem líður á námið fá nemendur oftar færi á að nota tölvur í ritun sagna og kynnir kennari einföldustu aðgerðir í ritvinnslu. Nemendur þjálfa daglega ritun með ýmsum hætti og öðlast m.a. færni í að draga rétt til stafs, nota stóran og lítinn staf eftir því sem við á, vinnur með hljóð, stafi og stafasambönd í gegnum ólík verkefni. Nemandi öðlast færni í að skrifa sögur frá eigin brjósti sem fylgja öllum meginreglum íslenskrar stafsetningar, uppbyggingar texta o.s.frv. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Einnig taka foreldrar þátt í mati með því að skoða og meta tiltekin verkefni barna sinna. Umsögn við annarlok.

Málfræði

Nemandi getur þekkt og fundið helstu einingar málsins s.s. bókstafi, hljóð, orð, samsett orð og málsgreinar, raðað í stafrófsröð og gert sér grein fyrir notagildi þess við leit og skipulag, gert grein fyrir nafnorðum, lýsingarorðum og sagnorðum, greint mun á samnöfnum og sérnöfnum, leikið sér með ýmiss einkenni tungumálsins s.s. margræðni orða og fundið kyn og tölu, búið til málsgreinar og greint þær í eigin texta, leikið sér með orð með því að ríma og fara í orðaleiki.

Kennari nýtir margvíslega leiki og fjölbreytt verkefni til þess að efla þekkingu og færni nemenda í málfræði. Gott aðgengi að leikjum og spilum er lykilatriði og snar þáttur í málfræðikennslu á yngsta stigi er leikur og samræður um málið sem hafa það að markmiði að vekja áhuga og auka skilning nemenda á tungumálinu. Fjölbreytt námsefni nýtt og áhersla lögð á að finna hverjum og einum námsefni við hæfi. 

Nemandi getur unnið á skipulegan hátt með samsett orð, stafrófsröð, stærstu orðflokkana og sýnt skilning á þeim. Eftir því sem á líður hefur nemandi öðlast góða færni í að raða í stafrófsröð (eftir öðrum og þriðja staf), leikið sér með tungumálið, áttað sig á kyni og tölu orða, skilur uppbyggingu málsins og hlutverk stærstu orðflokkana (sagnir, nafnorð, lýsingarorð). 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Stuttar kannanir eftir því sem við á bæði munnlegar og skriflegar. Umsögn við annarlok.