Íslenska á unglingastigi

 

Grunnskóli Drangsness 2019-2020

Unglingadeild: 8.-10. bekkur 

Námsgrein: Íslenska

Kennarar: Elín Agla Briem og Marta Guðrún Jóhannesdóttir 

Tímafjöldi á viku: 4-6 kennslustundir þar af 2-3 inni í smiðjutímum

Skólaárið skiptist í haust-, mið- og vorönn 

Í fámennum skóla eins og Grunnskólanum á Drangsnesi fer kennsla að mestu leyti fram í samkennslu árganga. Hver nemandi vinnur verkefni í samræmi við aldur og getu eftir áætlun sem kennari afhendir í upphafi nýrrar annar. Að auki vinna nemendur að sameiginlegum verkefnum og styðja hver annan í námi eftir því sem við á. Litið er svo á að nám í íslensku fari fram í öllum námsgreinum og tekur allt skipulag námsins mið af grunnþáttunum sex (jafnrétti, læsi, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð). Ólíkar áherslur eru eftir önnum, á haustönn fást nemendur m.a. við lestur eldri texta (íslendingasagna eða annarra miðaldabókmennta) og lesa ljóð frá ólíkum tímum ásamt því að semja eigin texta.  Ávallt er unnið með lestur, ritun, tjáningu, hlustun, áhorf, málfræði og stafsetningu en áhersla á málfræðikennslu þó meiri á haust- og vorönn (málfræðilotur). 

Lögð er rík áhersla á að kynna höfunda og bókmenntir sem tengjast Ströndum og að nemendur hafi við lok sinnar grunnskólagöngu góða mynd af íslenskri bókmenntasögu og búi þar að auki yfir þekkingu á erlendum bókmenntum. Höfuðáherslan er þó á að nemendur læri að njóta þess að lesa bókmenntir af ólíkum toga. Í unglingadeild þjálfast nemendur enn frekar í ritun; nemendur skapa  eigin verk (skapandi skrif), læra að beita ólíku málsniði og textategundum s.s. í gegnum ritun frétta, tímaritsgreina (gefa út eigið tímarit), útvarpsþátta, tækifærisræða, bókmennta- og heimildaritgerða. Mjög mikil áhersla er á að nemendur öðlist færni, sjálfstæði og sjálfstraust við samningu ritgerða og tileinki sér rétt vinnubrögð við notkun á heimildum og skráningu þeirra. Í unglingadeild horfa nemendur a.m.k. einu sinni á kvikmynd gerða eftir íslenskri skáldsögu og velta fyrir sér ólíkum frásagnarformum auk þess að fá innsýn inn í heim kvikmyndanna og íslenska kvikmyndasögu. Kennarar og nemendur vinna sameiginlega að því markmiði að auka ábyrgð nemenda í eigin námi og að gera námið í íslensku áhugavekjandi og ánægjulegt. 

Námsefni í 8. bekk: Íslendingasaga (t.d. Laxdæla í útgáfu Gunnars Karlssonar, Kjalnesingasaga…), a.m.k. ein nýleg ungmennabók eftir íslenskan höfund sem kennari velur (t.d. Hjartsláttur eða annað nýlegt verk sem höfðar til þessa aldurshóps) og önnur af kjörbókalista. Áhersla á kveðskap eða annars konar bókmenntatexta eftir rithöfunda og skáld sem tengja má við Strandir eða efni sem tengist svæðinu s.s. eins og Jakobínu Sigurðardóttur, Stefán frá Hvítadal, Bergsvein Birgisson, Gerði Kristnýju og Elísabetu Jökulsdóttur. Kveikjur, Finnur 1 og aðrar kennslubækur sem veita góða undirstöðu í málnotkun og málfræði eru notaðar ásamt æfingum á vef Stoðkennarans/Skólavefsins. Lesskilningur er m.a. þjálfaður í gegnum Skólavefinn (Lesklikk) og Stoðkennarann. Gert er ráð fyrir því að nemendur þjálfi lestur reglulega heima og taka bæði hraðlestrarpróf og lesskilningspróf skv. lestrarstefnu skólans. GRP 14h er lagt fyrir í 8. bekk en það er staðlað skimunarpróf á umskráningarfærni, stafsetningu, hljóðlestrarhraða og lesskilningi nemenda.
 

Námsefni í 9. bekk: Íslendingasaga (t.d. Grettis saga eða Laxdæla), ljóð  og önnur verk eftir ýmsa að eigin vali og kennara a.m.k. ein nýleg ungmennabók eftir íslenskan höfund sem kennari velur og önnur af kjörbókalista.  Áhersla á kveðskap eða annars konar bókmenntatexta eftir rithöfunda og skáld sem tengja má við Strandir eða efni sem tengist svæðinu s.s. eins og Jakobínu Sigurðardóttur, Stefán frá Hvítadal, Bergsvein Birgisson, Gerði Kristnýju og Elísabetu Jökulsdóttur.)  Neistar texta- og verkefnabók í íslensku ásamt efni sem þjálfar nemendur í notkun bókmenntahugtaka og gefur gott yfirlit yfir helstu bókmenntategundir og bókmenntasögu t.d. Með fjaðrabliki. Handbók um ritun og frágang, Heimir og fleira efni sem þjálfa nemendur í gerð ritgerða og heimildavinnu. Tungutak 2 , Finnur 2 og annað námsefni sem veita góða undirstöðu í málnotkun og málfræði eru notaðar ásamt æfingum á vef Stoðkennarans/Skólavefsins. Lesskilningur er m.a. þjálfaður í gegnum Skólavefinn (Lesklikk) og Stoðkennarann. Gert er ráð fyrir því að nemendur þjálfi lestur reglulega heima og taka bæði hraðlestrarpróf og lesskilningspróf skv. lestrarstefnu skólans. 

Námsefni í 10. bekk: Íslendingasaga (t.d. Gísla saga Súrssonar), kjörbók af kjörbókalista auk nýs skáldsverks sem kennari velur í samráði við nemanda, ljóð og aðrir textar. Áhersla á kveðskap eða annars konar bókmenntatexta eftir rithöfunda og skáld sem tengja má við Strandir eða efni sem tengist svæðinu s.s. eins og Jakobínu Sigurðardóttur, Stefán frá Hvítadal, Bergsvein Birgisson, Gerði Kristnýju og Elísabetu Jökulsdóttur.)  Námsbækur sem efla þekkingu nemenda á bókmenntum, lestri, málnotkun og málfræði t.d. Logar, Mér er í mun eða annað námsefni sem gefur nemanda færi á að kynnast helstu straumum og stefnum í bókmenntasögu 20. og 21. aldar. Tungutak 3, Finnur 3 og aðrar kennslubækur sem veita góða undirstöðu í málnotkun og málfræði eru notaðar ásamt æfingum á vef Stoðkennarans/Skólavefsins. Lesskilningur er m.a. þjálfaður í gegnum Skólavefinn (Lesklikk) og Stoðkennarann. Gert er ráð fyrir því að nemendur þjálfi lestur reglulega heima og taka bæði hraðlestrarpróf og lesskilningspróf skv. lestrarstefnu skólans. 

Við lok 10. bekkjar skal nemandi hafa lokið ýmsum verkefnum þ.á.m. a.m.k. einni bókmenntaritgerð og einni heimildaritgerð.  


Ath. unnið er út frá tilteknum hæfniviðmiðum á hverri önn, sjá nánar í kennsluáætlunum hvers bekkjar. 

 

Hæfniviðmið, við lok 10. bekkjar

Leiðir, kennari

Leiðir, nemandi

Námsmat

Talað mál hlustun og áhorf

Nemandi getur flutt mál sitt skýrt og áheyrilega og hefur tileinkað sér viðeigandi talhraða og fas, gert sér grein fyrir eðli góðrar framsagnar og framburðar og nýtt leiðbeiningar um framsögn, svo sem um áherslu, tónfall, hrynjandi og fas og lagað það að viðtakanda og samskiptamiðli á fjölbreyttan hátt, m.a. með leikrænni tjáningu, •nýtt aðferðir sem hann hefur lært til að taka virkan þátt í samvinnu, samræðum og rökræðum, tjáð skoðanir sínar með ýmsum hætti, rökstutt þær og valið þeim miðil sem hentar,  hlustað, tekið eftir og nýtt sér upplýsingar í töluðu máli til fróðleiks og skemmtunar, einnig notið myndefnis, upplestrar, leikins efnis og tónlistar og gert grein fyrir skoðun sinni á viðkomandi efni, • nýtt sér fjölmiðla, svo sem útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og rafrænt efni, og tekið afstöðu til þess sem þar er birt, • átt góð samskipti þar sem gætt er að máli, hlustun, tillitssemi, virðingu og kurteisi. 

Framsögn, tjáning og annað er viðkemur flutning á texta er þjálfað sérstaklega í árshátíðarsmiðju og eins oft og mögulegt er. Í öllum námsgreinum skapa kennarar vettvang til umræðna og skoðanaskipta, í náttúru- og samfélagsfræði er farið yfir ýmis  álitamál t.d. er varða umhverfi okkar, nemendur kynna verkefni sín fyrir öðrum nemendum og samfélaginu öllu á svokölluðum opnum dögum skólans. Kennari tryggir að nemendur fái bæði færi á að tjá eigin skoðanir og viðeigandi þjálfun til þess að geta staðið fyrir málinu sínu og komið fram á ólíkum vettvangi við ólík tilefni. Kennari leiðbeinir og stýrir verkefninu Útvarp Strandir þar sem nemendur vinna að gerð útvarpsþátt um bókmenntir og annað efni eftir því sem við á. Þátttaka nemenda í  ýmsum verkefnum á landsvísu og eða í samvinnu við aðra skóla er liður í því að þjálfa nemendur í samvinnu, rökræðum og að koma fram utan skólans. 

Nemendur hlusta á og ræða um texta sem lesin er í daglegri lestrarstund, nemendur tjái skoðun sína á textanum og hlusti á skoðanir samnemenda sinna. Nemendur öðlast einnig færni í að lesa eigin sögur, segja frá fréttum og því sem efst er á baugi hverju sinni eftir að hafa rannsakað og kynnt sér tiltekin viðfangsefni. Nemandi notar ólíka  miðla til þess að taka afstöðu til álitamála og skilur mikilvægi þess að sýna bæði aðgát og virðingu þegar nýta á upplýsingar og við skoðanamyndun. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Umsögn við annarlok. Þátttaka í ýmsum viðburðum s.s. eins og árshátíð, kynningum á opnum dögum skólans , samvinnuvverkefnum utan skólans o.s.frv. Frammistaða nemanda er metin sérstaklega af starfsmönnum skólans enda er um að ræða mat á hæfni sem reynir á í öllum námsgreinum. 

Lestur og bókmenntir 

Nemandi getur lesið almenna texta af öryggi og með góðum skilningi, lagt mat á þá og túlkað, •skilið mikilvægi þess að geta lesið og eflt eigið læsi, og m.a. valið og beitt mismunandi aðferðum við lestur, • greint og skilið aðalatriði og aukaatriði í margs konar texta og glöggvað sig á tengslum efnisatriða, • gert sér grein fyrir eðli og einkennum margvíslegra textategunda og gert öðrum grein fyrir því, • lesið, túlkað, metið og fjallað um fjölbreyttar íslenskar og erlendar bókmenntir og gert sér grein fyrir gildi bókmennta, • beitt nokkrum grunnhugtökum í bókmenntafræði, svo sem minni, fléttu, sjónarhorni og sögusviði og kannast við myndmál, algengustu tákn og stílbrögð, • notað algeng hugtök í bragfræði í umfjöllun um bundið mál og óbundið, lesið og túlkað ljóð af ýmsum toga og frá ýmsum tímum, • leitað og aflað sér heimilda úr ýmsum gagnabrunnum og lagt mat á gildi og trúverðugleika ritaðs máls, svo sem fjölmiðla- og margmiðlunarefnis, og tekið gagnrýna afstöðu til þess,unnið úr tölulegum og myndrænum upplýsingum, túlkað þær, tengt saman efni sem sett er fram á ólíkan hátt og nýtt sér, •valið sér lesefni til gagns og ánægju og komið fram sem sjálfstæður lesandi sem gerir sér grein fyrir gildi þess að lesa.

Kennari tryggir að nemendur hafi greiðan aðgang að lesefni við hæfi og því sem gefið getur sem breiðasta mynd af innlendum og erlendum bókmenntum ásamt því að draga fram ólíkar bókmenntategundir, frásagnarform o.s.frv. Ýmis verkefni eru lögð til grundvallar þess að nemendur öðlist góða færni í lesskilningi. Dagleg lestrarstund er lykilatriði í að gefa nemendum færi á að kynnast ólíkum verkum og íslenskum rithöfundum. Lestrarstundirnar nýtast einnig við að dýpka skilning nemenda á hugtökum í bókmenntafræði og veita þeim þjálfun í að ræða bókmenntir á breiðum grundvelli undir leiðsögn kennara. 

Við val á bókmenntatextum og námsefni leggur kennari það til grundvallar að nemandi öðlist færni í skilja samhengið í íslenskum bókmenntum og geti sett þær í samhengi við erlendar bókmenntir t.d. frá nágrannaþjóðunum. Boðið er upp á verkefni sem unnin eru í hópum og reyna á hæfni nemenda í að gera greinarmun á ólíkum textategundum og málsniði. Ýmsar skapandi leiðir nýttar til þess að vekja bæði áhuga og skilning nemenda á lestri og bókmenntum; spil og leikir, myndræn framsetning og eða tjáning o.s.frv. 

Í daglegri lestrarstund er fengist við bókmenntatexta af ólíku tagi; ljóð, skáldsögur og smásögur eftir innlenda og erlenda höfunda. Nemandi getur við námslok greint bókmenntatexta með aðstoð hugtaka úr bókmenntafræði, geti tjáð sig um verk í ræðu og riti, túlkað sett í bókmenntasögulegt samhengi. Nemandi átti sig á mikilvægi bókmennta í því að opna leið að ólíkum menningarheimum og sjá heiminn með augum annarra. Nemendur fást við fjölbreytta bókmenntatexta og geti gert greinarmun á ólíkum bókmenntaformum, textategundum og átti sig á því hvað höfðar til hans og hvers vegna. 

Símat, leiðsagnarmat, annarpróf- og kannanir. Raddlestrarpróf ásamt þátttöku í Lesferli. Orðarún í 8.  bekk. skv. áætlun um innra mat. Umsögn við annarlok og vorannareinkunn. GRP 414h lagt fyrir í 8. bekk sbr. sjálfsmatsáæltun skólans. Samræmt próf við lok 9. bekkjar 



Ritun

Nemandi getur skrifað skýrt og greinilega og beitt ritvinnslu af öryggi, notað orðabækur og önnur hjálpargögn, gengið frá texta, vísað til heimilda og skráð þær, beitt skipulegum vinnubrögðum við ritun, skipað efnisatriðum í röklegt samhengi og mótað málsgreinar og efnisgreinar, • tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim í rituðu máli, samið texta frá eigin brjósti og er óhræddur við að beita ríkulegu tungutaki í skapandi ritun, • beitt reglum um réttritun, hefur náð góðu valdi á stafsetningu og gerir sér grein fyrir að rétt stafsetning er virðing við mál, texta og lesanda, • valið og skrifað mismunandi textagerðir sem hæfa viðkomandi verki og beitt mismunandi orðaforða og málsniði við hæfi, • notað helstu aðgerðir við ritvinnslu, valið viðeigandi heimildir, vísað til þeirra og sett í heimildaskrá svo sem reglur kveða á um,   skrifað rafrænan texta og tengt texta, mynd og hljóð eftir því sem við á, gerir sér grein fyrir lesanda og miðar samningu við hann.

Kennari býður upp á fjölbreytt og áhugavekjandi verkefni, veitir nemendum sínum þjálfun í stafsetningu (sóknarskrift, gagnvirkar æfingar, skrifað eftir upplestri o.fl.) og sér til þess að nemendur þekki og geti nýtt sér helstu leiðréttingarforrit o.s.frv. Ritgerðarvinna, bæði heimilda- og bókmenntaritgerðir unnar undir leiðsögn kennara. Kennari nýtir m.a. aðferðir ferliritunar og gefur nemendum reglulega endurgjöf til þess að tryggja góðan árangur við ritgerðarsmíð. Kennari tryggir námsumhverfi sem ýtir undir áhuga og skilning nemenda á mikilvægi ritunar – kennari veitir nemendum einnig aðgang að góðum fyrirmyndum og sýnir þeim rétt vinnubrögð með því að gefa fjölbreytt dæmi um ólíkar textagerðir og uppsetningu texta. 

Nemandi geti skilað af sér vel unnum texta s.s. eins og heimildaritgerð þar sem vísað er til heimilda og þær skráðar með réttum hætti. Nemandi sé óhræddur við að vinna með eigin texta, skapa texta og eða vinna upp úr texta frá öðrum. Nemandi geti leikið sér með texta og textaform og tjáð sig um eigin ritun. 

Símat, sjálfsmat, leiðsagnarmat, annarpróf- og kannanir. Vorannareinkunn og umsögn. 

Málfræði

Nemandi getur beitt helstu málfræðihugtökum í umræðu um notkun málsins og þróun þess, • valið orð í tali og ritun í samræmi við málsnið, gert sér grein fyrir mikilvægi þess að rækta orðaforðann og nýtt reglur um orðmyndun og einingar orða við ritun, •flett upp í handbókum, orðasöfnum og rafrænum orðabönkum og nýtt sér málfræðilegar upplýsingar sem þar er að finna, • áttað sig á beygingarlegum og merkingarlegum einkennum orðflokka og gert sér grein fyrir hlutverki þeirra í eigin texta og annarra, • notað fleyg orð, algeng orðtök, málshætti og föst orðasambönd til að auðga mál sitt og gerir sér grein fyrir þýðingu lestrar, ekki síst bókmennta, í þessu skyni, • gert sér grein fyrir mismunandi málnotkun og málsniði eftir efni og tilefni. Áttar sig á staðbundnum, starfstengdum og aldurstengdum tilbrigðum í orðaforða og málnotkun og þekkir til helstu framburðarmállýskna, • áttað sig á skyldleika íslensku við önnur mál og að tungumál, þar á meðal íslenska, breytast sífellt, áttað sig á og beitt sköpunarmætti tungumálsins og nýtt það m.a. við ritun, tal, við nýyrðasmíð, í orðaleikjum og skáldskap, • gert sér grein fyrir mikilvægi góðrar færni í máli, ábyrgð sinni við að bæta mál sitt og getur nýtt þekkingu sína á íslenskri málfræði við nám í erlendum tungumálum.

Kennari nýtir fjölbreytt verkefni til þess að tryggja haldbæra þekkingu og góða færni nemenda í málfræði. Námsumhverfi sem ýtir undir áhuga og skilning, umræður og skapandi verkefni með tungumálið sem eru til þess gerð að nemendur upplifi öryggi og átti sig á margræðni málsins, sögu þess og þróun.    Fjölbreytt námsefni nýtt og áhersla lögð á að finna hverjum og einum námsefni við hæfi. 

Nemandi geti unnið með og rætt það sem einkennir íslenskst mál og málfræði – skilji hversu rík íslenskan er af fjölbreyttum orðforða og snar þáttur í sjálfsmynd málhafa.  Nemandi skilji sérkenni málsins og mikilvægi þess að rækta það og tryggja viðgang þess. 

Sjálfsmat, jafningjamat og leiðsagnarmat. Stuttar kannanir og annarpróf. Umsögn við annarlok og vorannareinkunn. Samræmt próf við lok 9. bekkjar