Heimanámsstefna

Í Grunnskóla Drangsness er markmið nemenda og kennara að stærsti hluti námsins fari fram á skólatíma. Þetta á alfarið við á yngsta stigi en smám saman eykst umfang heimanáms eftir því sem líður á skólagönguna. Rík áhersla er lögð á að hver nemandi lesi heima daglega og kvitta forráðamenn fyrir lesturinn. Lestrarbækur eru valdar í skólanum eða af nemendum sjálfum eftir hentugleika og lestrargetu hvers og eins. Í svonefndum bóknámstímum eða vinnustundum gefst nemendum m.a. færi á að ljúka við heimanám með aðstoð kennara. Nemendur vinna tiltekin verkefni heima auk þeirra sem þeim tekst ekki að ljúka við á skólatíma. Í eldri deild er lögð áhersla á góðan undirbúning heima við og gerðar kröfur um að t.d. lestri námsbóka og fleiri verkefnum sé sinnt heima skv. áætlun frá kennara. Ástæður fyrir heimanámi eru nokkrar en sú helsta er að nýta sem best fagaðila í skólanum til að vinna með nemendum í verkefnum sem ekki er hægt að sinna heima, s.s. umræðum, ígrundun, gagnrýnni hugsun, skapandi ferli og samskiptum.
Frá skólaárinu 2023-2024 er aukin áhersla lögð á heimanám í öllum deildum en markmið heimanáms er:
  • Að nemendur dýpki skilning, rifji upp, ígrundi og þjálfi það sem þeir hafa lært í skólanum.
  • Að þjálfa skipulagsfærni, auka sjálfstæði og ábyrgð nemanda á eigin námi.
    • Nemandi þarf sjálfur að skipuleggja hvenær hvað er unnið, hafa góða yfirsýn yfir námið, skilaverkefni og fylgjast vel með áætlunum.
    • Nemandi læri að setja sér markmið t.d. í gegnum gerð einstaklingsáætlunar þar sem hann ákveður í samráði við kennara að hverju skuli unnið, tímaramma verkefnis, hvaða hæfniviðmið unnið er með og í hverju ávinningurinn er fólginn.
  • Að þjálfa lestur en lestur er undirstaða alls náms og því er heimalestur afar mikilvægur.
  • Að gefa foreldrum/forráðamönnum tækifæri til að taka þátt í og fylgjast með námi barna sinna.
  • Að tengja námið í skólanum við raunveruleg verkefni á heimili nemanda.
Áætlaður tími sem fer í heimanám
  • Yngsta stig (1.-4. bekkur) Eingöngu heimalestur að lágmarki 15 mín á dag.
  • Miðstig (5.-7. bekkur) 80 mín á viku auk heimalesturs að lágmarki 15 mín á dag.
  • Elsta stig (8.-10. bekkur) 160 mín á viku auk heimalesturs að lágmarki 15 mín á dag.
Athugið að sá tími sem gefinn er upp hér að ofan er eingöngu til viðmiðunar, sumir nemendur ráða við minna og aðrir meira. Munið að taka pásur og skipta tímanum upp í styttri lotur ef þörf er á. Það er  einstaklingsbundið hversu vel nemendur ráða við heimanám. Hæfni hvers og eins til þess að halda einbeitingu er ólík eftir aldri auk þess sem aðrir þættir spila inn í. Þetta þurfa forráðamenn og kennarar að hafa í huga. Mikilvægt er að hjálpa barninu að skipuleggja heimavinnu sína. Gott er að miða við að heimavinna sé unnin á virkum dögum svo barnið eigi helgarfrí. Ef nemandi hefur ekki náð námsmarkmiðum sínum þá vikuna (eða síðustu vikur) þá hefur hann tækifæri á að vinna það upp heima. Þá er leitast við að gera raunhæfari markmið næst ef barnið hefur færst of mikið í fang. Þetta þarf að metast með nemandanum og bæði foreldri og kennara. Skólinn leitast við að hafa umfang námsins við hæfi þannig að það reyni á nemandann sem eykur færni sína jafnt og þétt en er honum ekki ofviða. Mestu máli skiptir að barninu líði vel. Eftirfylgni með heimanámi felst m.a. í gátlistum sem sendir eru reglulega út til forráðamanna.
Gott að hafa í huga
  • Mikilvægt er að skapa frið og ró.
  • Finnið góðan tíma sem hentar öllum og athugið að best er að barnið sé ekki of þreytt og eða illa upp lagt þegar heimanám fer fram.
  • Gefið ykkur tíma til þess að vera til staðar fyrir barnið og hvetjið það áfram.
  • Talið jákvætt um heimanámið, jákvætt hugarfar hjálpar og gerir allt auðveldara.
Hlutverk skólasamfélagsins
Þrír hópar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla; nemendur, starfsfólk skólans og foreldrar. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman og hafi það að leiðarljósi að menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla. Hver og einn hefur ákveðnu hlutverki að gegna og mikilvægt að öll sinni því af kostgæfni. Athugið að foreldri þarf ekki nauðsynlega að kunna námsefni vel til að aðstoða við heimanámið, það er hvatningin og áhuginn sem mestu máli skiptir. Ef barnið lendir í vandræðum og enginn á heimilinu áttar sig á hvað á að gera er mikilvægt að hafa samband við kennara og fá leiðsögn. Einnig er brýnt að kennari sjái til þess að heimavinna sé við hæfi nemenda (ekki of létt/of erfið), forráðamenn láti vita ef nemandi fær ekki efni við hæfi og eða heimavinna reynist þeim of erfið.
Hlutverk kennara
  • Setja fyrir og hafa eftirlit með að heimavinna sé unnin.
  • Fara yfir heimavinnu og gefa nemendum endurgjöf.
  • Sjá til þess að heimavinna sé við hæfi nemenda.
  • Leiðbeina foreldrum og vera til staðar svo heimanámið fari vel af stað og gangi vel.
Hlutverk foreldra
  • Hjálpa barni sínu við að ljúka við vinnu sína á réttum tíma.
  • Styðja við bakið á barni sínu og hvetja það áfram við námið.
  • Láta kennara vita ef barnið hefur ekki náð að ljúka við heimavinnu á réttum tíma.
  • Láta kennarann vita ef heimavinna er ekki við hæfi nemenda (til dæmis of létt/of erfið).
  • Fylgjast með framvindu náms á Mentor og þeim skilaboðum sem berast frá skóla.
Hlutverk nemenda
  • Ljúka við heimavinnu á tilsettum tíma.
  • Setja sér markmið og áætla tíma sem fer í hvert verkefni með aðstoð foreldra/kennara.
  • Leggja sig fram hvað varðar frágang og vinna verkefni vel.
  • Fylgjast með framvindu náms á Mentor – mikilvægt er að eldri nemendur þjálfist í notkun námsumsjónarkerfis (Mentor) og fylgist með eigin námi.
Heimanám vikunnar birtist inni á Mentor á föstudögum og þá senda umsjónarkennarar einnig vikupóst með ýmsum upplýsingum er varðar skólastarfið. Heimanám (vinnubækur, lestrarbækur o.s.frv.)  á ávallt að vera í sérstakri heimanámsmöppu sem auðveldar kennara og foreldrum að halda utan um það.
Þessi stefna var kynnt og samþykkt af Skólaráði og fræðslunefnd vor 2024. Hún tekur gildi haustið 2024 og verður endurskoðuð næst haust 2026 eða fyrr ef þörf krefur. 23.5.2024