Sagnasmiðja

Skólaárið 2015-2016 var sagnasmiðja á dagskrá en megin viðfangsefni þeirrar smiðju voru íslendingasögurnar. Í smiðjunni lærðu nemendur m.a. að þekkja helstu einkenni sagnanna og valdar sögur s.s. eins og Egils sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Brennu-Njálssögu. Nemendur söfnuðu upplýsingum um lestur sagnanna hér á Drangsnesi og birtu niðurstöðurnar tölulega. Í gegnum lestur sagnanna og umfjöllun um þær fengu nemendur færi á að átta sig á samfélagsgerðinni og stjórnskipun, hlutverki kynjanna, lífsviðhorfi, trúarbrögðum, tómstundum, fatnaði og fleira sem tengist sögutíma sagnanna. Sögusvið íslendingasagnanna var skoðað sérstaklega og þá helst þau svæði sem tengjast nánasta umhverfi barnanna; Bassastaðaháls, Bjarnarnes, Svanshóll og Svansgjá. Á Svanshóli tók Finnur Ólafsson oddviti á móti okkur og sagði okkur frá Svani sem kemur fyrir í Njálu. Unnið var með örnefni sem tengjast sögunum, bókmenningu (handritagerð, hverjir skrifuðu, hvar og á hvað?) og máli. Smiðjunni var skipt upp í nokkra námsþætti; bókmenntir, saga, samfélag og landafræði, mál, persónulýsingar, ritun og leikræn tjáning, bókmenning og handritagerð. Nemendur unnu margvísleg verkefni, tóku saman fleyg orð úr sögunum og settu á taupoka sem þau saumuðu, bjuggu til rúnir, rannsökuðu handrit og fræddust um þau þekktustu ásamt fleiru.