Íslenska

Litið er svo á að nám í íslensku fari fram í öllum námsgreinum og tekur allt skipulag námsins mið af grunnþáttunum sex (jafnrétti, læsi, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð). Ólíkar áherslur eru eftir önnum, á haustönn fást nemendur m.a. við lestur eldri texta (íslendingasagna eða annarra miðaldabókmennta) og lesa ljóð frá ólíkum tímum ásamt því að semja eigin texta.  Ávallt er unnið með lestur, ritun, tjáningu, hlustun, áhorf, málfræði og stafsetningu en áhersla á málfræðikennslu þó meiri á haust- og vorönn (málfræðilotur). 

Þar sem færni í lestri er undirstaða alls náms er lögð rík áhersla á lestrarkennslu á öllum stigum skólans og lesa allir nemendur skólans í öllum deildum daglega heima auk þess sem nemendur og starfsmenn taka árlega þátt í lestrarátaki t.d. Lestrarátaki Ævars vísindamanns en árið 2018 lásu nemendur skólans hlutfallslega mest í heildina og bar skólinn því sigur úr býtum í átakinu.  Meðal daglegrar þjálfunar í lestri og læsi er morgunlesturinn en þá koma nemendur saman ásamt sínum kennara og lesin eru bókmenntaverk af ýmsu tagi, sjá nánar í Lestrarstefnu skólans á heimasíðu hans. Í árshátíðarsmiðju fá nemendur m.a. þjálfun í framsögn og leikrænni tjáningu ásamt því að kynnast leikverkum af ólíku tagi.