Matjurtasmiðja

Á hverju vori er haldinn matjurtasmiðja en meðal þeirra verkefna sem nemendur vinna á meðan á henni stendur er að forsá matjurtum, undirbúa skóla-gróðurhúsið, beð á skólalóð o.fl. Í matjurtasmiðjum höfum við einnig hugað sérstaklega að ræktun í nærumhverfi barnanna, hvar er og eða var ræktað og hvað, sem dæmi. Í matjurtasmiðju og flórusmiðju hafa nemendur hugað að nýtingu villtra jurta en allt í kringum skólann vaxa margar ætar plöntur og þekktar lækningajurtir s.s. eins og vallhumall sem nóg er af á Drangsnesi. Starfsgleðin meðal nemenda er sjaldan meiri en þegar kemur að því að rækta, áhuginn og einlæg gleðin yfir því að fylgjast með náttúrulegum ferlum og svo auðvitað stoltið sem því fylgir að takast að rækta upp af fræi.

Við skólann er gróðurhús en áður en það var byggt var þó búið að leggja grunn að ræktunarstarfi því í teikningum Húsameistara ríkisins frá árinu 1986, þegar ákveðið hafði verið að byggja við gamla skólahúsnæðið, er gróðurskáli notaður til þess að tengja gömlu og nýju bygginguna saman. Það leikur því enginn vafi á því að í skólanum átti að rækta. Nú þjónar gróður- eða sólskálinn því mikilvæga hlutverki að vera upphafsreitur fyrir plöntur sem síðar eru fluttar í gróðurhúsið og gerir nemendum þar að auki kleift að rækta allt árið um kring. Ræktunin í skólanum og utan hans kallar á þátttöku nemenda í skipulagi síns nærumhverfis og á þeim svæðum s.s. eins og skólalundinum sem þeim hefur verið úthlutað – þau öðlast um leið meðvitund um gildi landslagsins og hvað það er sem mótar það. Ræktunarstarfið krefst umhyggju og það er yfirmarkmið matjurtasmiðjunnar að gefa nemendum færi á að öðlast færni í að sýna umhyggja og upplifa þá jákvæðu tilfinninga sem ræktun fylgir. Matjurtasmiðjan tryggir einnig að nemendur öðlast góðan skilning á þeim þætti sjálfbærni sem viðkemur matvælaframleiðslu og hæfni þeirra í að greina og skilja náttúrulega ferla eykst einnig.