Fundargerðir

 

Skólaráðsfundur í Grunnskóla Drangsness þriðjudaginn 7. maí  kl. 16:30

Ásta setti fundinn, Marta ritar fundargerð, mætt sem fulltrúar nemenda eru þau Friðgeir Logi og Írís Líf, fulltrúar foreldra þær Anna Björg og Matthildur, Heiðrún var með í gegnum netið en Haraldur fulltrúi grenndarsamfélagsins boðaði forföll. 

1. Kynning á skóladagatali skólaársins 2024-2025

Ásta fór yfir helstu breytingar frá skóladagatali síðasta skólaárs sem dæmi fylgjum við nú haustfríi grunnskóla Reykjavíkurborgar, páskafríið er einnig óvenjulangt sem er tilkomið vegna nálægðar sumardagsins fyrsta (Andrésar Andar leikana) við páskafríið. 

Almenn umræða um skóladagatalið m.a. að dagurinn þar sem nemendur og starfsfólk taka þátt í árshátíð Grunnskóla Hólmavíkur verði skilgreindur á skóladagatali og einnig sem lengri dagur. 

Upp kom athugasemd varðandi lengd stofujóla með tilliti til aksturstíma þeirra barna sem koma með skólabíl og kom upp sú hugmynd að breyta fyrirkomulaginu þannig að þakklætisstundin ásamt fleiru sem verið hefur á dagskrá á stofujólum verði sama dag og jólaskemmtunin – börnin fari ekki heim á milli eins og áður. 

Fundarmenn sammála um að vel hafi gengið með samstarfið vegna sameiginlegrar árshátíðar í ár og er stefnan tekin á að halda samstarfinu áfram þó ýmislegt eigi enn eftir að skýrast hvað það varðar. 

Ætlunin er að taka þátt í STEAM námskeiði í febrúar og munu kennarar halda utan til þess, tveir skipulagsdagar eru því áætlaðir þá vikuna. Hugmyndin að baki lengri fríum yfir skólaárið er að foreldrar nýti þann tíma til ferðalaga svo sem minnst rask verði á skólastarfinu. 

Matur og menning þemað verður fjórum sinnum á skólaárinu. 

Fastir liðir eins og heimsókn í Skólalundinn í Bjarnarfirði ásamt fleiru eru inni á dagatalinu. 

2. Heimanámsstefna sem kynnt var á síðasta skólaráðsfundi tekin aftur til umræðu og þeim sem ekki áttu þess kost að sækja fund þegar kynningin fór fram að spyrja spurninga. 

Stefnan verður kynnt á næsta fræðslunefndarfundi þar sem hún verður til umræðu. 

Gerð er krafa um að skólinn sé með stefnu um námsaðlögun en hún var einnig lögð fram til kynningar á síðasta fundi auk þess sem hún hefur verið send fundarmönnum. 

3. Skólalóð og gróðurhús, Ásta sagði frá stöðu mála en hún pantað efni í girðingu sem mun rísa allt í kringum skólalóðina. Farið yfir teikningu af skólalóð.

4. Önnur mál, 

Spurt um bílastæði við skólalóð og fóru fundarmenn stuttlega yfir skipulagið fyrir framan skólann þar sem gert er ráð fyrir bílastæðum. 

Ásta minnti á að í ár fagnar skólinn 80 ára starfsafmæli og að gaman væri að halda upp á það með einum eða öðrum hætti.

Starfsemi foreldrafélagsins hefur legið niðri um nokkurn tíma og var þeirri hugmynd velt upp að það yrði sameinað foreldrafélaginu í Strandabyggð sem dæmi en vel mætti hugsa sér að vinna að einhverjum sameiginlegum verkefnum eins og kom fram í umræðu fundarmanna um málið. 

Ásta leggur til að foreldrar verði boðaðir til fundar og hlutverk foreldrafélagsins endurskilgreint m.a. með tilliti til  þess að koma á samstarfi við foreldrafélag Grunnskóla Hólmavíkur. Boðað verður til fundar miðvikudagurinn 22. maí  kl. 16:00 og mun Ásta sjá um það. 

 Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:45

 

Skólaráðsfundur mánudaginn 4. mars kl. 16:00

Mætt eru þau Ásta sem stýrir fundi, Friðgeir Logi og Íris Líf fulltrúar nemenda, Heiðrún fulltrúi kennara og Marta sem ritar fundargerð. Matthildur og Anna Björg fulltrúar foreldra boðuðu forföll. 

Ásta leitar afbrigða og leggur til að móttökuáætlun nemenda af erlendum uppruna sem til stóð að kynna á fundinum verði frestað. Samþykkt samhljóða af fundarmönnum. 

Umbótaáætlun vegna ytra mats afhent og kynnt fyrir fundarmönnum en óskað hefur verið eftir framvinduskýrslu sem skilað verður á næstu dögum. Farið yfir þá þætti sem eru í vinnslu auk þeirra sem enn á eftir að vinna. Meðal þeirra verkefna sem hafa verið í vinnslu á skólaárinu er stefna um námsaðlögun og hvernig má bæta árangur nemenda. 

Marta fór stuttlega yfir stefnu um námsaðlögun og greindi frá þeim markmiðum sem ætlunin er að ná fyrir lok skólaársins 2024-2025. 

Heimanámsstefna skólans hefur verið í endurskoðun og voru drög að henni lögð fyrir fundarmenn og helstu atriði hennar kynnt enda felur hún í sér nokkuð miklar breytingar á fyrri stefnu. 

Nemendur höfðu ýmislegt til málanna að leggja t.d. að eftir skólatíma eigi maður að fá sinn frítíma. Fundarmenn sammála um að vinna eftir stefnunni en taka hana til endurskoðunar fyrir lok næsta skólaárs. 

Hugmynd að mánudagar væri styttri en föstudagar því nemendur væru oft þreyttir eftir helgina, rætt t.d. út frá því að oft þurfa nemendur að fara fyrr á föstudögum vegna bæjarferða o.s.frv. 

Önnur mál:

Friðgeir Logi lagði fram spurningu varðandi viðgerðir á skólanum og hvenær von væri á smiðunum aftur til starfa enda væri margt á skólalóðinni fyrir nemendum og skapar hættu s.s. eins og verkfæri o.fl. en nýlega voru björgunarsveitarmenn kallaðir til vegna áfellulista sem losnað hafði og olli augljósri hættu. Því miður hefur Ásta ekki svör við því hvenær von er á smiðunum en fundarmenn skora á sveitarstjórn að tryggja að framkvæmdum verði haldið áfram og þeim lokið sem fyrst. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:10, næsti fundur verður 15. apríl nk. en þá verður skóladagatal næsta skólaárs kynnt. 

Skólaráðsfundur haldinn miðvikudaginn 22. nóvember 2023 kl. 16:00-18:00 í húsnæði skólans

Mætt eru þau Ásta, Anna Björg, Heiðrún Helga, Marta, Matthildur, Friðgeir Logi og Írís Líf en Haraldur tilkynnti forföll. 

Ásta stýrir fundi og Marta ritar fundargerð

Dagskrá

 1. Starfsáætlun
 2. Tengiliður við farsæld barna
 3. Tillaga að endurbótum á skólalóð kynnt
 4. Áform um dýrahald í skólanum 
 5. Staða á framkvæmdum við skóla
 6. Fundaáætlun skólaráðs skólaárið 2023-2024
 7. Önnur mál

 

 1. Starfsáætlun

Starfsáætlun skólaársins kynnt fyrir fundarmönnum, rætt um hvaða breytingar hafa orðið á áætlun skólans frá síðasta skólaári t.a.m. á smiðjufyrirkomulaginu, aukið samstarf á milli skólans og Grunnskóla Hólmavíkur o.fl.

Unnið er að gerð nýrrar heimanámsstefnu, hugmyndir ræddar þar að lútandi t.d. að með auknu heimanámi nýtist tíminn í skólanum betur til annarra verkefna og að foreldrar geti fylgst betur með námi barna sinna. Einnig hefur verið tekið upp sérstakt kerfi varðandi leyfisbeiðnir sem verður kynnt nánar í næsta vikupósti.

Ásta og Marta munu vinna að gerð nýrrar móttökuáætlunar fyrir nemendur af erlendum uppruna sem tilbúin verður í lok skólaársins.

Rætt um foreldrafélagið og verkefnin framundan, brýnt að blása lífi í það. 

 1. Tengiliður við farsæld barna

Ásta greindi frá því að öll sveitarfélög á landinu eru nú hluti af velferðarkerfinu Farsæld barna sem miðar að því að tryggja börnum hraða og góða þjónustu. Í Kaldrananeshreppi mun Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir sinna hlutverki tengiliðar við farsæld barna, hún kynnti verkefnið fyrir fundarmönnum. 

3.Tillaga að endurbótum á skólalóð kynnt

Drög að endurbótum á skólalóð voru kynnt fundarmönnum en eins og Ásta greindi frá þá kom það fram í ytra mati að nemendur mættu koma oftar að ákvarðanatöku er varðar skólann og skólastarfið. Á fundi haustið 2023 voru nemendur fengnir til þess að koma með hugmyndir um hvernig bæta mætti skólalóðina. Nú hafa hugmyndir þeirra og óskir verið teiknaðar upp af Ástu. 

Ásta sýndi teikninguna og sagði frá, fundarmönnum leist vel á og voru sammála um að nú sé lag að endurskipuleggja og bæta skólalóðina.

 1. Áform um dýrahald í skólanum 

Á haustönn funduðu nemendur og starfsmenn skólans einnig um dýrahald í skólanum og komu margar góðar hugmyndir fram á þeim fundi frá nemendum m.a. að halda dýr í skólanum, fá dýr í heimsókn og eða að fá að fóstra sauðkind í fjárhúsinu hans Svansa. Að auki hafa þær Ásta og Marta kannað möguleikann á því að þjálfa upp skólaheimsóknarhund en Björk hundaþjálfari á Hólmavík mun hefja þjálfun á hvolpinum Ysju á næstu vikum. 

Spurt var um fyrirkomulag á dýrahaldi í skólanum en niðurstaða í það mál er ekki enn komin enda þarf að ljúka við bæði endurbætur á skólahúsnæðinu og skólalóðinni. Eindregin ósk nemenda um einhvers konar dýrahald í skólanum er okkur ofarlega í huga og verður það verkefni þróað áfram á skólaárinu. 

 1. Staða á framkvæmdum við skóla

Staða á framkvæmdum við skólahúsnæðið er á þann veginn að enn er ekki vitað hvenær verklok verði. Vel var unnið í síðustu viku en þessa vikuna hafa smiðirnir ekki verið á staðnum, fundarmenn sammála um að þetta hafi truflandi áhrif á skólastarfið og bæði starfsmenn og nemendur langþreyttir á ástandinu. Fundarmenn krefjast þess að framkvæmdum verði lokið fyrir jól. 

 1. Fundaáætlun skólaráðs skólaárið 2023-2024

Janúar / febrúar 2024 – Ytra og innra mat

Apríl 2024 – Skóladagatal

Byrjun júní 2024 – Skólalóð, framkvæmdir sumarsins. Skipulag næsta skólaárs. 

 1. Önnur mál

Engin önnur mál voru rædd og fundi slitið kl. 17:45

 

 

Skólaráðsfundur 12. júní 2023 kl. 17:00 

Mætt eru þau Ásta, Anna Björg, Guðbjörg Ósk, Haraldur og Marta en þær Kristjana Kría og Heiðrún Helga mættu í gegnum fjarfundarbúnað (Zoom). Ásta stýrir fundi en Marta ritar fundargerð. 

Efni fundar: Skóladagatal næsta skólaárs, kosning nýrra nemenda í skólaráð. 

Ásta setti fundinn og kynnti þar næst skóladagatal næsta skólaárs. 

Ýmsar breytingar eru á skóladagatalinu en sem dæmi verður samstarf aukið við Grunnskóla Hólmavíkur, m.a munu nemendur miðdeildar (4.-6. bekkur) leggja stund á nám tvo daga vikunnar en á nýliðnu skólaári sóttur nemendur eldri deildar nám við skólann einn daga í viku og kennarar fylgdu þeim og sáu um kennslu. Fleiri sameiginlegir skipulagsdagar á milli skólanna tveggja eru einnig á skipulagi næsta skólaárs ásamt fleiru. Tilraun verður einnig gerð á skólaárinu þar sem nemendur á miðdeild Grunnskóla Hólmavíkur munu taka þátt í árshátíðarsmiðju GD. Þar sem árshátíðin er fjáröflun fyrir skólaferðalag munu nemendur miðdeildar GH einnig fylgja okkur í ferðalagið en sú breyting hefur orðið á að ferðalagið er nú að vori en ekki hausti eins og verið hefur. Nemendur munu koma að skipulagi ferðarinnar í gegnum skólaferðalagssmiðju

Skóladagar eru 182 í stað 180 en á móti kemur að skóla mun ljúka alla föstudaga kl. 12:10 sem verða þ.a.l. styttri. 

Nemendur munu taka þátt í listasmiðju hér á Drangsnesi þar sem unnið verður útfrá verkum Ísleifs Konráðssonar og afraksturinn sýndur á Barnamenningarhátíð Vestfjarða. 

Fyrirkomulag skólaþings verður með breyttu sniði og það gert skilvirkara og foreldraviðtölum bætt við að vori svo að á skólaárinu verði þau þrjú í stað tveggja. Fundarmenn sammála um að gott er að taka stöðuna einnig að vori og að halda inni verkefnavikum við hver annarlok. 

Umræða um uppbrotsdaga og hvernig þeir eru skilgreindir á skóladagatali ásamt lengri dögum sem eru tvítaldir. 

Skóladagatal verður birt á heimasíðu skólans þegar það hefur verið samþykkt af fræðslunefnd. 

Þar sem núverandi fulltrúar nemenda þær Guðbjörg Ósk og Kristjana Kría Lovísa verða að öllu óbreyttu ekki nemendur við skólann á næsta skólaári þá þarf að finna nemendur í þeirra stað. 

Lagt til að þau Friðgeir Logi, Maríanna og Tómas verði fulltrúar nemenda í skólaráði næsta skólaárs. 

Önnur mál

Ásta sagði frá því að hún hafi sent inn erindi til sveitarstjórnar vegna kaupa á tölvum fyrir miðdeild og aðgang að námsumsjónarkerfinu Mentor. 

Klæða á skólann að utan í sumar, einnig verður borað  fyrir heitu vatni. Nemendum miðdeildar býðst að taka þátt í tónlistarsmiðju á vegum Baskavinafélagsins. Ásta er einnig að skoða möguleika á því að fá fjarkennslu í tónlist. 

Gengið verður frá ráðningu kennara við skólann á næstu dögum en umsóknarfrestur er nú liðinn.

Ásta þakkaði fráfarandi nemendum í skólaráði fyrir þeirra vinnu. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:01

 

Skólaráðsfundur 24. apríl 2023 kl. 17:00 

Mætt eru þau Ásta, Anna Björg, Guðbjörg Ósk, Haraldur og Marta en þær Kristjana Kría og Heiðrún Helga mættu í gegnum fjarfundarbúnað (Zoom). Ásta stýrir fundi en Marta ritar fundargerð. 

Efni fundar: Skóladagatal næsta skólaárs, frestun vinnu við gerð innra mats, námsumsjónarkerfi og viðhaldsáætlun skólans

Ásta setti fundinn og fór í upphafi hans stuttlega yfir það sem gert var á síðasta fundi en á honum var m.a. sett upp fundardagskrá vegna endurskoðunar innra mats skólans. Ásta greindi frá því að vegna óviðráðanlegra orsaka hafi fundur sem vera átti í mars frestast en ýmislegt fleira hefur þurft að bíða betri tíma á síðari hluti skólaársins. Lagt til að kalla skólaráð saman að nýju í júní á starfsdögum skólans og fara þá að nýju yfir innra matið, samþykkt einróma.

Skóladagatalið lagt fram en á næsta skólaári er stefnt að auknu samstarfi við Grunnskóla Hólmavíkur og hafa þær Ásta og Hrafnhildur skólastjóri GH fundað vegna þessa og unnið að skóladagatali þar sem við getum fylgst betur að. Hugmyndin er m.a. að nýta betur mannauð skólanna beggja og samnýta kennaraliðið. 

Opnað á umræðu um þetta fyrirkomulag og hugmyndina að auknu samstarfi í þágu öflugri tengsla á milli skólanna tveggja. 

Rætt um hvernig og spurningum svarað um ýmislegt er varðar nánara skipulag. 

Undirtektir fundarmanna jákvæðar í garð aukins samstarfs. 

Skóladagatalið hér í GD mun þó taka mið af hefðum skólans og sérkennum hans en starfsdagar verða t.a.m. þeir sömu og á Hólmavík o.s.frv. 

Nú í vor verður í fyrsta sinn útinám hér á Drangsnesi í samvinnu við Grunnskóla Hólmavíkur þar sem nemendur og kennarar úr eldri bekkjardeild skólans munu sækja okkur heim. Ásta leggur til að útinám verði bæði að hausti og vori en er nú aðeins að vori. 

Vel tekið í þá hugmynd og ýmsir möguleikar í útinámi á svæðinu ræddir t.d. að á þessum tíma fái nemendur tækifæri til þess að dýpka þekkingu sína í náttúrufræðigreinum. 

Fundarmenn sammála um að það sé af hinu góðu að kennsla fari fram utandyra.

Ásta hefur beðið sérstaklega um að danskennsla Jóns Péturs sem fer fram árlega að vori á Hólmavík verði á þeim tíma sem hentar okkur betur eða ekki of nálægt árshátíð. 

Barnamenningarhátíð sem haldinn  verður  9.-24. september í haust kynnt en ætlunin er að taka þátt í sýningu með nemendum Grunnskólans á Hólmavík. 

Rætt um sundkennslu og hvort halda eigi fyrirkomulagi sundkennslunnar óbreyttu þ.e. að sundkennsla og sundpróf fari fram að vori yfir helgi. Hjördís sundkennari hefur komið að vori en nokkur skipti hefur hún komið bæði að vori og hausti til þess að geta tekið stöðuna og leiðbeint kennurum varðandi það hvað skal leggja áherslu á í hverri bekkjardeild. Hugmyndir ræddar og ákveðið að Ásta ræði við Hjördísi sundkennara varðandi framhaldið og skipulag sundkennslu á næsta skólaári. 

Skólaferðalag þessa skólaárs átti að vera að hausti eins og venja er en það var fært til vors í ár. Rætt um hvenær væri heppilegast að fara í skólaferðalag á næsta skólaári, eftir nokkra umræðu er niðurstaðan sú að hafa það að hausti. 

Engar stórvægilegar breytingar verða á skóladagatali en áætlað að ganga frá því eftir tvær vikur eða svo og leggja fram til samþykktar fræðslunefndar hreppsins. 

Námsumsjónarkerfi hefur ekki verið í notkun við skólann síðan áskrift að Námfús var sagt upp haustið 2019 en nú hefur Ásta verið að skoða möguleikann á því að taka upp námsumsjónarkerfið Mentor sem víða er nýtt m.a. í Grunnskóla Hólmavíkur. Mentor fylgja ýmsir kostir en kostnaðurinn er 8000 krónur á mánuði og fara 40000 krónur í að innleiða kerfið. 

Stefnt er að því að innleiða námsumsjónarkerfi á næsta skólaári. 

Á síðasta fundi var rætt um viðhaldsáætlun skólans og að skrá þyrfti niður það sem er mest áríðandi hvað varðar viðhald á skólahúsnæði og skólalóð. 

Óskað eftir áliti fundarmanna á því hvað brýnast er að gera t.d. nú í sumar og farið yfir það sem nú þegar er komið á lista. 

Uppástunga að endurnýja tölvukost skólans, koma lagi á bílastæðamál t.d. er varðar bílastæði fyrir starfsmenn, endurnýja rólur og eða færa þær, drena fyrir ofan leikvöllinn og í kringum fótboltavöllinn. Gott væri að fá sólskálann aftur í notkun en hann hefur verið lokaður af vegna hættu á myglu. 

Önnur mál

Rætt um mögulegan mygluvanda, hvort hafi verið nóg að gert til þess að komast að því hvort um myglu sé að ræða og þá koma fyrir hana. Ákveðið að þær Ásta og Marta sem eiga fund um menntamál í Kaldrananeshreppi með sveitarstjórn þriðjudaginn 25. apríl taki málið upp á fundinum og afli jafnvel gagna s.s. eins og fjölda veikindadaga í hópi nemenda og starfsmanna á skólaárinu. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:18

Skólaráðsfundur 8. febrúar 2023 kl. 17:00 

Mættar eru þær Ásta, Anna Björg, Heiðrún Helga og Marta. Ásta stýrir fundi en Marta ritar fundargerð. Aðrir meðlimir ráðsins voru fjarverandi. 

Efni fundar: Gerð og endurskoðun innra mats 

Ásta setti fundinn og fór í upphafi hans stuttlega yfir það sem gert var á síðasta fundi. Rætt um gerð og leiðbeiningar innra mats og hvaða leiðir væri skynsamlegast að fara við endurskoðun sjálfsmatsáætlunar Grunnskóla Drangsness. Ásta sagði fundarmönnum frá því að hún hafi verið í samstarfi við skólastjóra Reykhólaskóla og Skóla í skýinu þar sem m.a. innra mat hefur verið á dagskrá og hefur hún fengið aðgang að efni sem nýst getur við gerð og endurskoðun innra mats. Starfsáætlun innra mats frá Reykhólaskóla skoðuð og rædd, í framhaldinu var farið yfir gildandi sjálfsmatsáætlun GD og umbætur sem nauðsynlegt er að gera á henni. 

Fundarmenn sammála um að setja niður mánaðarlega fundi þar sem innra mat skólans yrði á dagskrá. Um markvissa og stutta fundi yrði að ræða þar sem tiltekinn þáttur innra mats yrði tekinn fyrir hverju sinni. Fyrsta verkefnið gæti verið að skapa leið til þess að halda betur utan um gögn sem aflað er um skólastarfið og búa til formlegan ramma utan um þá vinnu. 

Fundaráætlun út skólaárið 2022-2023

September 2023 – 

Nóvember 2023 (annarskipti) – 

Mars 2023 (annarskipti) Rýnt í mats- og mælitæki (Ásta safnar saman upplýsingum, kennarar fara yfir það sem til er og hefur verið notað við skólann). 

Júní 2023 (starfsdagar) Farið yfir stöðu innra mats í lok skólaárs. 

Önnur mál

Ásta greindi frá stöðu mála varðandi tímasetta viðhaldsáætlun á skólahúsnæðinu sem rædd var á síðasta fundi, hún leggur til að starfsmenn skólans búi til lista yfir það sem þarf að gera og forgangsraði verkefnum. Þessi listi yrði síðan sendur áfram til sveitarstjórnar. Fundarmenn sammála um að vinna að þessu. 

Samstarf á milli skólans og Grunnskóla Hólmavíkur heldur áfram og hefur nemandi í 4. bekk bæst í hópinn ásamt því hefur fjölgað í yngri deild um tvo nemendur. Heiðrún Helga mun sinna stuðningi í íslenskukennslu. Nýtt skipulag hefur verið kynnt í valgreinum í unglingadeild. Að lokum var farið yfir tölvukost skólans,  sameignina og námsumsjónakerfi. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:15

Skólaráðsfundur 12. desember 2022 kl. 17:00 

Mætt eru þau Ásta Þórisdóttir, Anna Björg Þórarinsdóttir, Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir, Guðbjörg Ósk Halldórsdóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir og Karl Georg Kjartansson nýskipaður fulltrúi foreldra. Kristjana Kría Bjarnadóttir fulltrúi nemenda og Haraldur Ingólfsson fulltrúi grenndarsamfélagsins voru fjarverandi. 

Ásta stýrir fundi en Marta ritar fundargerð. 

Ásta setti fundinn og fór í upphafi fundar stuttlega yfir skólastarfið m.a. mannabreytingar en Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir kennaranemi hefur starfað í forföllum við skólann frá því í haust í fjarveru Aðalbjargar Óskarsdóttur kennara. Ásta greindi frá samstarfi við Grunnskóla Hólmavíkur en leiðsagnarkennari Heiðrúnar Helgu starfar við skólann og hefur 5.-9. bekkur unnið með jafnöldrum sínum á Hólmavík í þema. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi eftir áramót. Samhliða hafa breytingar orðið á kennsluháttum við skólann sem nú eru meira í takt við Aðalnámskrá þar sem dregið er úr vægi prófa í námsmati og aukin áhersla á þematengt nám. 

Það sem af er skólaárinu hefur áhersla verið lögð á hönnun og tækni, nemendur í 5.-9. bekk tóku m.a. þátt í First Lego League keppninni og náðu þar góðum árangri. Á mið- og vorönn verður boðið upp á forritun í yngri deild. Smíðakennsla hófst að nýju í haust og hefur m.a. verið unnið að því að kaupa verkfæri og endurnýja tækjakost. 

Smiðjur eru enn hluti af skólastarfinu þar sem námsgreinar eru samþættar, framundan eru árshátíðar- og matjurtasmiðja auk þess sem boðið verður upp á náttúru- og umhverfissmiðju í vor og munu nemendur í Grunnskóla Hólmavíkur einnig taka þátt í henni. 

Rætt um útikennslu og íþróttir við skólann en skoða þarf aðstöðuna í samkomuhúsinu Baldri þegar íþróttakennslan færist inn. Stærðfræðikennsla í eldri deild hefur verið í höndum Ísabellu Benediktsdóttur nema en þær Marta og Ásta sjá um stærðfræðikennsla á yngri stigi. 

Umbótaáætlun í kjölfar ytra mats, haustið 2020 komu matsaðilar frá Menntamálastofnun og má finna skýrslu frá þeim á heimasíðu skólans. Vinna stendur enn yfir að umbótaáætlun skólans og ýmislegt þarfnast bæði innleiðingar og nánari skoðun. Vinnan er á góðri leið en henni er ekki að fullu lokið, meðal þess sem vantar upp á er skólastefna. Ásta skýrði fyrir fundarmönnum gildi og markmið skólastefnu en vinna við hana felur m.a. í sér samvinnu ólíkra aðila úr skólasamfélaginu. 

Annað sem viðkemur umbótaáætlun er aðgengi skólans að ráðgjöf eða skólaskrifstofu. Óskað hefur verið eftir tilboði um slíka ráðgjöf frá Ásgarði og er það til skoðunar hjá sveitarstjórn. Að þessu slepptu er það skipun innra mats teymis sem stendur út af í umbótaáætlun. Eitt af hlutverkum teymisins er að vinna innra mats áætlun, kynna hana og fylgja henni eftir. Rætt um hvaða leiðir væri hægt að fara til þess að ljúka þessari vinnu og kom m.a. upp sú hugmynd að fulltrúar í skólaráði tækju t.a.m. að sér að sitja í innri mats teymi skólans. Ákveðið að skólaárið 2022-2023 muni fulltrúar skólaráðs einnig vinna að innra mati skólans. 

Skv. umbótaáætlun er þess einnig krafist að skólaráð setji sér starfsáætlun og birti hana ásamt öllum fundargerðum á heimasíðu skólans. Ásta fór yfir þetta og tók dæmi úr sambærilegum skóla og lagði það til að fundarmenn finndu flöt á þessu og settu sér markmið fyrir skólaárið. 

Að lokum var rætt um skólahúsnæðið en skv. fundargerð síðasta skólaráðsfundar var ákveðið að óska eftir tímasettri áætlun varðandi endurbætur á skólalóð. Ásta sagði frá vinnu við skólabygginguna en því miður hafa orðið rakaskemmdir vegna þakleka  í haust auk þess sem hitakerfið í viðbyggingunni hefur verið í ólagi, þrýsting vantaði á kerfið en rör í sólskála gaf sig með þeim afleiðingum að vatn seitlaði út. Þetta hefur nú verið lagfært og standa vonir til þess að viðbyggingin verði lagfærð í vor ásamt því að sólskálanum verði komið í lag svo hægt verði að nýta hann aftur í skólastarfinu. Ýmsar lausnir ræddar varðandi skólalóðina, hvernig komi megi í veg fyrir grjóthrun með því að setja upp grindverk í hlíðinni fyrir ofan skólann. Ákveðið að óska að nýju eftir tímasettri áætlun hvað varðar allt viðhald á skólahúsnæði og lóð frá sveitarstjórn. 

Önnur mál

Fundarmenn ræddu um áætlun ráðsins og starfið framundan. Ákveðið að halda einn fund miðvikudaginn 25. janúar þar sem innra mat skólans yrði sérstaklega tekið fyrir og annan skv. fyrra skipulagi miðvikudaginn 22. mars þar sem skólaárið yrði gert upp og skóladagatal lagt fyrir ráðið. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:20

Skólaráðsfundur 10. mars 2020 kl. 17:00 í Grunnskóla Drangsness

Mætt voru þau Halldór Logi og Eva Katrín fulltrúar foreldra, Elín Agla, Aðalbjörg og Marta fulltrúar starfsmanna skólans, Sara Lind og Kristjana Kría fulltrúar nemenda en Harald fulltrúa grenndarsamfélagsins vantaði. 

Aðalbjörg stýrði fundi og Marta ritaði fundargerð

Skóladagatal kynnt og rætt, Alla útskýrði m.a. fyrir þeim sem hafa ekki áður setið fundi ráðsins hver rammi dagatalsins er t.d. hversu margir skóladagar eiga að vera skv. lögum o.s.frv. Gestakennarasmiðjur og sundkennsla meðal þess sem var rætt sérstaklega ásamt dagsetningum haust- og vetrarfría. Spurt var um hvort einhverjar stórar breytingar væru á dagatalinu frá því á yfirstandandi skólaári, Alla svaraði því til að engar stórar breytingar væru boðaðar. Skólaráð samþykkir skóladagatal skólaársins 2020-2021. 

Heimsókn frá Menntamálastofnun vegna ytra mats dagana 16.-17. mars nk. 

Mánudag og þriðjudag verður gerð úttekt á skólanum en þær Gunnhildur og Snædís starfsmenn Menntamálastofnunar munu m.a. ræða við fulltrúa í skólaráði ásamt fleirum. Alla sagði frá heimsókninni og í hverju hún er fólgin en hún mun senda meðlimum skólaráðs tilkynningu þegar verður ljóst hvenær óskað er eftir viðtali við þá. 

Framtíðarsýn

Þeirri spurningu varpað fram hvernig fundarmenn sjá fyrir sér skólahald við skólann í framtíðinni, hver ættu t.d. að vera einkunnarorð skólans o.s.frv. Margt rætt og nokkrar hugmyndir komu fram m.a. sú  að í einkunnarorðunum komi fram að skólinn sé í nánum tengslum við samfélagið. 

Athuga með að tengjast öðrum skóla t.d. á höfuðborgarsvæðinu, með aðra skólagerð til þess að gefa nemendum færi á að kynnast fjölbreyttu skólahaldi. 

Hugmynd að nýta fæð skólans og hversu færanleg við erum og gætum t.d. ferðast meira með nemendur. 

Önnur mál 

Alla sagði frá því að pantaðar yrðu skólapeysur sem vonandi verða tilbúnar í vor. Rætt um myndatökur og mikilvægi þess að taka skólamynd, Alla ætlar að hafa samband við Gunnar Loga á Hólmavík varðandi það. 

Rætt um vinnustaðasmiðju o.fl. sem hefur verið gert áður í unglingadeild. 

Nemendur minntu á að tryggja að góðar frímínútur væru á milli tíma löngu kennsludagana s.s. eins og á þriðjudögum. Annar þeirra bar einnig upp með þá hugmynd að alla kennsludaga væri skóla lokið á sama tíma t.d. kl. 14:00

Námsumsjónarkerfi, rætt um notkun Námfús, GoogleClassroom og hvaða leiðir allir eru sammála um að fara hvað það varðar. Sú tillaga borin upp að taka ákvörðun á fundinum og bera upp á næsta fræðslufundi. 

Rætt um líðankannanir við nemendur, hvaða leiðir er best að fara; skriflega könnun og eða viðtal við umsjónarkennara. Skoða betur síðar.

Fleiri ekki rætt og fundi slitið kl. 17:20

Skólaráðsfundur 14/3 2109 haldinn í grunnskólanum. 

Mætt voru Marta Guðrún Jóhannesdóttir skólastjóri, Haraldur Ingólfsson fulltrúi grenndarsamfélagsins, Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir fulltrúi kennara, Eva Katrín Reynisdóttir og Halldór Logi Friðgeirsson fulltrúar foreldra, Guðbjörg Ósk og Sigurbjörg Halldóra Halldórsdætur fulltrúra nemenda, Aðalbjörg Óskarsdóttir fulltrúi kennara (sem ritar fundargerð)  

Dagskrá: 

 1. Marta býður fundarmenn velkomna og sérstaklega Harald nýjan fulltrúa í skólaráði og Guðbjörgu sem situr sinn fyrsta fund í forföllum Söru Lindar. 
 2. Skóladagatal 2019-2020

Marta fer yfir dagatalið og segir að í haust verði sameiginlegur starfsdagur starfsfólks á svæðinu verði hér. Vitundarvakning sem átti að vera í haust (Kvan og Hugrún) féll niður og ákveðið að fá þau þann 11. október nk. Sundkennslan verður að hausti og aftur að vori líkt og í vetur og gafst vel. Nemendur voru ánægðir með þetta fyrirkomulag.  Sveitaskólinn verður á dagskrá aftur næsta vetur og er áætlað að fara 1.-5. september. Vetrarfrí eru sett inn 24.-28. okt. og 28.feb. – 2. mars. Rætt um að flytja skólann til Kanarý í feb/mars 🙂 

Verkefnadagar færðir aftur að 11. nóvember. Skóli settur 21. ágúst og slitið 29. maí. Reykir eru ekki inn á skóladagatali en beðið er eftir dagsetningum frá þeim. Hefur verið mjög gott samstarf við Auðarskóla og Reykhólaskóla svo að við munum reyna að halda áfram samstarfi við þau t.d. i tengslum við Reyki. 

Gestakennara eru ekki á skóladagatali en upp kom hugmynd t.d. að fá Björn Kristjánsson í tónlistarsmiðju. 

 1.   Kennsla og annað sem viðkemur næsta skólaári (starfsáætlun,    endurmenntunardagur í ágúst o.f.l.)

Stefnt er á að fá Samskiptanámskeið fyrir starfsfólk. Marta hefur sótt um styrk í endurmenntunarsjóð grunnskóla og bjóða öðrum skólum að taka þátt. 

Sigurbjörg bendir á að FOKK ME, FOKKJÚ, Sjúk ást, Einar Darri (Ég á bara eitt líf) Loftslagsverkfall séu mjög góðir fyrirlestrar. 

Stundakennara hafa verið að koma og verið með list- og verkgreinakennslu í vetur og í vetur hafa Sigrún á Fiskinesi, Bjarni í Bæ og Unnur Ágústa verið með stundakennslu og hefur það gengið vel. Ósk kom frá nemendum um að fá smíðakennslu. 

Markmiðið er að auka list- og verkgreinakennslu á landinu öllu. 

 1. Skólalóð og vinna við að bæta hana. 

2016 kom hópur frá LHÍ og vann við lóðina með aðstoð íbúa. En það þarf að halda við og eru nemendur komnir af stað við undirbúning. Upp komu hugmyndir á fundi nemenda að safna áheitum og styrkjum til að leggja lið. Einnig þyrfti að fá aðstoð foreldra og íbúa til. Krakkarnir hafa gert áætlun og stefnt á vinnudag í maí. Einnig rætt um skólalóð Krakkaborgar. 

 1. Önnur mál

Sigurbjörg leggur til að nemendur grunnskólans taki þátt í loftslagsverkfalli á morgun. Vel tekið í það.  

Fundi slitið kl. 18:15

Skólaráðsfundur 7.11.2018

Skólaráð Grunnskólans á Drangsnesi kom saman á fundi miðvikudaginn 7. 11.2018 í skólanum. Mættar voru: Marta Guðrún Jóhannesdóttir skólastjóri, Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir fulltrúi kennara, Aðalbjörg Óskarsdóttir fulltrúi kennara, Eva Katrín Reynisdóttir fulltrúi foreldra, Sara Lind Magnúsdóttir fulltrúi nemenda og Sigurbjörg Halldóra Halldórsdóttir fulltrúi nemenda

Dagskrá: 

 • Breyting á skólaráði  vegna samreksturs leik- og grunnskóla
 • Nýir fulltrúar kynntir
 • Farið yfir hlutverk skólaráðs
 • Val á fulltrúa grenndarsamfélags og varamönnum 
 • Skólanámskrá – námskrárhluti áherslur o.fl. 
 • Jafnréttisáætlun skólans rædd og kynnt
 • Önnur mál 
 • Breyting á skólaráði vegna samreksturs leik- og grunnskóla

Búið er að sameina leik- og grunnskóla og mun starfsmaður leikskóla koma inn sem fulltrúi starfsmanna. 

 1.   Nýir fulltrúar kynntir: 

Sara Lind Magnúsdóttir kemur inn sem fulltrúi nemenda og Tryggvi Ólafsson sem fulltrúi starfsmanna. Sara Lind er mætt á fundinn og er hún boðin sérstaklega velkomin . 

 1. Farið yfir hlutverk skólaráðs

Marta Guðrún skólastjóri kynnti hlutverk skólaráðs.Hún benti á vefsíðuna heimiliogskoli.is þar sem hægt er að lesa sér til um ráðið. Markmiðið er að nemendur njóti góðrar skólagöngu og er ráðið vettvangur fyrir sem flestar raddir. SBR. kennara, foreldra, nemenda, starfsfólks og grenndarsamfélags. Grunnskóli Drangsness er fámennur skóli og kemur skólaráð saman tvisvar á ári einu sinni að hausti og einu sinni að vori. 

 1. Val á fulltrúa grenndarsamfélagsins og varamönnum. 

Rætt um að fá varamenn inn í ráðið. Innan nemendahópsins var stungið upp á að Guðbjörg Ósk verði varamaður Söru Lindar og Kristjana Kría verði varamaður Sigurbjargar Halldóru. Varamenn foreldra verði Petra Jaklova í stað Evu Katrínar og Zbgniev Dobcinskií stað Halldórs Loga. 

Kjósa þarf fulltrúa úr grenndarsamfélagsins og var lagt til að Haraldur Vignir Ingólfsson yrði kosinn og var það samþykkt. 

 1. Skólanámskrá – námskrárhluti áherslur o.fl. 

Vinna í skólanámskrárhluta gengur rólega og biður Marta fundarmenn um hugmyndir til að gera vinnuna sem fjölbreyttasta.  Rætt var um kosti þess að vinna í bók eða ekki, að vera í einstaklingsverkefnum eða hópverkefnum. Að vera meira úti o.s.frv. Marta sagði frá að í Hrísey skipuleggja nemendur eina viku.

Ákveðið að hafa námskrárfund á skólaárinu með nemendum. 

 1. Jafnréttisáætlun skólans rædd og kynnt.

Marta Guðrún kynnti jafnréttisáætlun skólans sem er á heimasíðu skólans. Hún var send til samþykktar hjá jafnréttisstofu og fékk áætlunin mikið hrós þaðan. 

“Í Grunnskólanum á Drangsnesi er lögð áhersla á jafna aðkomu allra og jöfn tækifæri meðal nemenda og starfsmanna. Jafnréttis- og mannréttindaáætlun skólans má nálgast hér að neðan.

Frá hausti 2015 hefur verið unnið markvisst að því að beinum sjónum að jaðarsettum hópum og fá fræðslu frá stofnunum og félagasamtökum fyrir nemendur, starfsfólk, forráðamenn og alla þá sem að starfi skólans koma með beinum eða óbeinum hætti. Lífsleikni hefur verið kennd í öllum bekkjardeildum.  Áherslan í lífsleikni hefur verið á stöðu flóttamanna, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, jafnrétti og mannréttindi ásamt fleiru. Haldið verður áfram með slíka vinnu í öllum námsgreinum eins og fram kemur í jafnréttisáætlun skólans”

 1. Önnur mál 

Sigurbjörg Halldóra spurði hvenær væri væntanleg kynning eins og hefur verið í október. (Pálmar, ‘78 og Tabú) Marta Guðrún sagði að vegna þess að enginn komst frá nágrannaskólum þá var viðburðinum frestað væntanlega til 3.maí. Um er að ræða KVAN og Hugrúnu, þar sem áhersla er á geðsjúkdóma og andlega líðan.  

Fundi slitið kl. 18:50

Skólaráðsfundur 28.9.2017

Skólaráð Grunnskólans á Drangsnesi kom saman í grunnskólanum fimmtudaginn 28.9.2017 kl. 18:00. Mætt voru: Marta Guðrún Jóhannesdóttir skólastjóri, Eva Katrín Reynisdóttir fulltrúi foreldra, Anna Björg Þórarinsdóttir fulltrúi grenndarsamfélags, Sigurbjörg Halldóra Halldórsdóttir og Magndís Hugrún Valgeirsdóttir fulltrúar nemenda og Aðalbjörg Óskarsdóttir fulltrúi starfsfólks. 

Dagskrá: 

 1. Innra mat
 2. Huga að bættu og öflugra skólastarfi
 3. Skólanámskrá
 4. Önnur mál
 5. Innra mat

Marta Guðrún kynnti þau verkfæri sem hafa verið og verða notuð við innra mat og eru þau kynnt á vef skólans. 

 1. Huga að bættu og öflugra skólastarfi

 Marta Guðrún óskaði eftir hugmyndum til að breyta og bæta skólastarfið. T.d. að breyta einhverju sem hefur verið “alltaf” Að ræða um að fara t.d. í aukið samstarf með öðrum skólum t.d. Reykhóla/Auðarskóla. Fjarlægðir hafa minnkað og reyna að auka tengsl nemenda.

Rætt var um tímasetningu árshátíðar sem gæti breyst vegna “Samfestingsins” sem verður þann dag sem hún átti að vera. 

Anna Björg spyr um vitundarvakningarviku sem hefur verið undanfarið og Marta segir að Pálmar Ragnarsson komi þann 13. október. Búið er að staðfesta að Finnbogastaðaskóli mun koma ekki er búið að staðfesta komu annarra skóla. 

Eitt markmið með þessu er að við fáum að vera gestgjafar. 

Anna Björg spyr hvort það verði tónlistarkennsla en Marta Guðrún segir að það komi sjónlistarkennari, Sinead , sem verði með gestasmiðju í haust.

Friðsteinn Helgi er farinn að kenna á gítar eftir skóla og Marta hefur nefnt við hann að hann komi til aðstoðar t.d. fyrir jólin og árshátíð. 

Anna Björg spyr hvort leikskólinn verði með aftur í árshátíðarsýningunni. Marta segir að það sé stefnan og að gera þá eitthvað skemmtilegt með leikskólanum. Möguleg vorferð með þeim. 

Magndís myndi vilja að maturinn yrði tilbúin og að fara til útlanda í skólaferðalag. 

Marta sýnir fundarmönnum nýja aðstöðu í matsal og segir frá því að það sé komin uppþvottavél. 

Marta segir frá skólalundinum og segir að nú sé búið að gróðursetja og það þurfi að fara að koma fyrir bekkjum o.s.frv. 

Skólalóðin þarf smá viðhald, t.d. mála stýrishúsið o.fl. og Mörtu datt í hug hvort foreldrar geti komið á vinnudag einu sinni á hausti og einu sinni á vori. Sveitarfélagið myndi greiða efniskostnað. Sigurbjörg vill enn og aftur minnast á að hún vill fá aparólu. 

Kartöflugarðurinn heppnaðist mjög vel og uppskárum við hátt í 20 kg. af kartöflum. Að gera meira í gróðurhúsinu fara í að rækta ávexti t.d. eplatré. 

Sigurbjörg segir að það þurfi að fá skilti um að vera ekki allsber fyrir utan skólann. Nemendur horfðu á nakinn karlmann í hádeginu í dag. Marta segir að það sé mjög margt sem má gera og þarf að gera. 

Anna Björg spyr um hvort það sé sniðugt að hafa eitthvað sniðugt fyrir jólin. Upp kom hugmynd að hafa sameiginlegt foreldarfélag leik- og grunnskóla. Hugmyndir um að fá fólk af erlendum uppruna til að kynna jólahefðir sínar. Magndís kom með hugmynd að leik fyrir svoleiðis dag. 

Rætt um að hafa fund og boða leikskólaforeldra líka á hann. 

Marta lýsir yfir ánægju sinni með að það sé komið eitthvað eftir skóla. T.d. Steini komi. Eva segir að fyrir einhverjum árum hafi foreldrar skiptst á að hafa “opið hús” þar sem komið var með spil og fleira. 

 1. Skólanámskrá

Verið er að vinna í skólanámskrá sem sett verður inn á netið.

 1. Önnur mál

Anna Björg spyr hvort það haldi áfram að bjóða öllum á opið hús eins og hefur verið. Marta segir að það sé alltaf stefnan að bjóða fólki í skólann. 

Fundi slitið kl 19:05

Aðalbjörg Óskarsdóttir