Heilbrigðir lífshættir

Í öllu starfi skólans er lögð rík áhersla á heilbrigða lífshætti s.s. eins og hvað varðar mataræði og hreyfingu. 

Nauðsynlegt er að nemendur hafi með sér hollt og gott nesti í skólann og er ákveðið viðmið um það sem er í boði að taka með sér, sjá í starfsáætlun. Skilaboðin til barnanna eru þau að manni líði vel af því að borða hollan mat og að það hafi áhrif á árangur í skóla og frístundum. Hreyfing og útivera er snar þáttur í skólastarfinu. Hreyfing er stunduð í takt við árstíðirnar, nemendur og starfsmenn taka þátt í ólíkum átaksverkefnum s.s. eins og Gengið í skólann, Norræna skólahlaupinu og Lífshlaupinu. Að auki hafa nemendur staðið sig mjög vel í UNICEF hreyfingunni þar sem þeir hafa samtals hlaupið eða gengið fjölmarga kílómetra og safnað fé sem rennur til UNICEF. Sérstaða Grunnskóla Drangsness felst m.a. í nálægð við náttúruna og landbúnaðinn, hreyfing og líkamsrækt fer þannig fram t.d. í gegnum leitir að hausti og vinnu í skólalundi í Bjarnarfirði. Stefnt er að því að setja ár hvert upp skipulag um heilbrigða lífshætti sem nemendur, starfsmenn og foreldrar vinna í sameiningu og starfa eftir það skólaárið.