List- og verkgreinar

List- og verkgreinar skiptast í sviðslistir, þ.e. dans og leiklist, sjónlistir, tónmennt, heimilisfræði, textílmennt, hönnun og smíði. List- og verkgreinar eru bæði kenndar aðgreint og samþætt, þ.e. þessar námsgreinar utan sviðslista fá hver um sig tiltekin kennslustundafjölda eins og viðmiðunarstundaskrá kveður á um og eru kennd innan smiðja og eða í lotum eftir því sem við á. Dans er kenndur sérstaklega á sérstöku árlegu námskeiði í umsjón Jóns Péturs Úlfljótssonar danskennara og leiklist skipar sérstakan sess í árshátíðarsmiðju skólans þar sem allar list- og verkgreinar eru samþættar ásamt fleiri greinum þegar nemendur skólans setja á svið leikverk og sýna í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Á undanförnum árum hafa listgreinakennarar og starfandi listamenn starfað sem sérstakir gestakennarar við skólann og boðið upp á vikunámskeið (12-20 kennslustundir). Meðal gestakennara hafa verið Björn Kristjánsson tónlistarmaður og tónlistarkennari (tónlistar- og hljómsveitarlota), Gerður Kristný Guðjónsdóttir rithöfundur (skapandi skrif), Sinéad McCarron hönnuður og starfsmaður Landakotsskóla (hönnun og samvinnutækni) ásamt fleirum. Nemendur og starfsmenn skólans hafa tekið þátt í samstarfsverkefnum á sviði list- og verkgreina t.d. Menningarminjakeppni grunnskólanna og hreppti einn af nemundum fyrstu verðlaun þegar keppnin var haldin í fyrsta sinn árið 2018. Stundakennarar skólans eru þrír talsins á yfirstandandi skólaári og kenna heimilisfræði, textílmennt, hönnun og smíði.