Stoðþjónusta

Stoðþjónusta er samheiti yfir stuðningskerfi sem styður við almenna kennslu innan skólans. Stoðþjónusta felst gjarnan í ráðgjöf til kennara varðandi kennslu eða annað sem snýr að nemendum. Þeir sem koma að stoðþjónustu við skólann sinna m.a. verkefnum sem snúa að stuðningi við nám og kennslu nemenda til lengri eða skemmri tíma og/eða mat á stöðu þeirra.

Innan stoðþjónustunnar starfa eftirfarandi aðilar en flestir þeirra eru starfandi við Grunnskóla Hólmavíkur í Strandabyggð þangað sem nær allir þættir stoðþjónustu skólans eru sóttir. 

Sérkennarar sem sjá um að aðstoða kennara við aðlögun námsefnis og námsmats þegar þörf er á og vinna einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur í samvinnu við kennara, foreldra og þroskaþjálfa eftir því sem við á. Hrafnhildur Þorsteinsdóttir umsjónarmaður sérkennslu við Grunnskóla Hólmavíkur hefur sinnt verkefnum á sviði sérkennslu við skólann, veitt ráðgjöf, metið stöðu nemenda með fyrirlögn á vieigandi greiningartækjum o.s.frv. 

Þroskaþjálfar vinna náið með kennurum og sérkennurum að gerð einstaklingsnámskrár og áætlana fyrir nemendur, aðstoða við áætlanir sem hafa það að markmiði að auka félagsfærni o.s.frv. Leitað er til starfandi þroskaþjálfa við Grunnskóla Hólmavíkur þegar á þarf að halda. 

Stuðningsfulltrúar vinna undir leiðsögn kennara við að styðja nemendur námslega og félagslega. Þeir vinna mest inni í bekk bæði með einstaklingum og hópum sjá nánar í starfsáætlun skólans. 

Námsráðgjafar standa vörð um velferð allra nemenda, styðja þá og liðsinna í málum sem snerta nám, skólavist, framhaldsnám og starfsval. Jafnframt sinna þeir ráðgjöf til kennara. Því miður hefur reynst erfitt að uppfylla skilyrði um viðveru og þjónust náms- og starfsráðgjafa við  skólann en skólastjóri hefur sinnt hlutverki námsráðgjafa auk þess að vinna að því að finna viðeigandi lausn svo mögulegt verði að uppfylla lög um grunnskóla, nr. 91/2008 sem kveða á um að náms- og starfsráðgjöf sé hluti af lögbundinni sérfræðiþjónustu fyrir grunnskólabörn frá fyrsta bekk og upp úr. 

Skólasálfræðingar veita sálfræðilega ráðgjöf og stuðning til starfsfólks skólans varðandi einstaka nemendur og hópa sem og ráðgjöf til foreldra og nemenda. Jafnframt geta þeir lagt mat á þroska, líðan eða hegðun nemenda þegar þörf krefur. Magnús Baldursson sálfræðingur sinnir hlutverki skólasálfræðings við skólann en hann tekur á móti skjólstæðingum á Hólmavík eða í Grunnskóla Drangsness eftir því sem viðeigandi þykir hverju sinni. 

Talmeinafræðingur, starfsmenn skólans hafa leitað eftir ráðgjöf ýmissa talmeinafræðinga varðandi tal- og málerfiðleika nemenda allt eftir því í hverju vandinn er fólginn og hvað þykir henta best hverju sinni.