Takk Ævar!

Þann 20. mars sl. voru dregnir út vinningshafar í síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns. Veittar voru viðurkenningar fyrir hlutfallslega mesta lestur á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina og bar skólinn okkar þar sigur úr býtum. Allir þeir skólar sem lásu hlutfallslega mest fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Hér í Grunnskóla Drangsness eru stoltir bókaormar sem þakka Ævari fyrir frábært átak en nemendur skólans hafa tekið þátt í átakinu undanfarin ár og hefur það virkilega glætt áhuga barnanna á lestri. Hér að neðan má sjá úrslitin eftir skólastigum og óskum við þessum skólum innilega til hamingju með árangurinn. 

Hlutfallslega mestur lestur eftir skólastigum:

Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness