Heill heimur af börnum

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.“ Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi þeirra og umhverfi, hvort sem það er fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað, og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.

Við í Grunnskóla Drangsness ákváðum að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni til þess að gefa öðrum tækifæri til þess að kynnast þorpinu okkar betur. Nemendur á elsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað er einstakt fyrir staðinn sem við búum á?“ Nemendur á yngsta- og miðstigi unnu verkefni um „Hvað fær okkur til að skína sem einstaklingar“ og „Ef ég væri forseti“. 

Ekki er hægt að sýna frá Drangsnesi nema koma með stutta innsýn inn í starf skólans. Skólinn er einn sá fámennasti á landinu en á þessu skólaári stunda 10 nemendur nám við skólann. Í Grunnskóla Drangsness er lögð rík áhersla á að hampa fjölbreytileikanum og skapa svigrúm til að styrkleikar hvers og eins fái að njóta sín með því að takast á við fjölbreytt verkefni út frá ólíkum sjónarhornum. Í Grunnskóla Drangsness hefur um nokkurra ára skeið verið unnið í smiðju tímabilum. Það er alltaf tilhlökkunarefni að hefja nýtt smiðju tímabil en á skólaárinu eru alltaf nokkrar fastar smiðjur s.s. eins og árshátíðarsmiðja sem mikil tilhlökkun er fyrir ár hvert en þá setur skólinn upp leikrit sem allir nemendur skólans koma að. 

Í vetur vorum við með tilraun með að þróa stuttar smiðjur, svokallaðar þjóðasmiðjur. Þar fræðast nemendur um eitthvað ákveðið land, tungumál og menningu þess. Smiðjan endar með matarveislu með mat, drykk, tónlist og fleira frá því landi en löndin sem verða fyrir valinu eru valin af mikilli kostgæfni. Á síðasta skólaári „heimsóttum“ við Spán, Marokkó og Tékkland. 

Það sem gerir skólann okkar líka einstakan er skólagróðurhúsið okkar en um 50 fm gróðurhús tilheyrir skólanum og er síaukin áhersla lögð á ræktun matjurta og útikennslu við skólann.

Þá er árleg matjurtasmiðja að vori þar sem við nýtum gróðurhúsið okkar mikið. Nú er sú nýbreytni að gróðurhúsið er komið með hita úr nýju borholunni og mun það skapa ný tækifæri í ræktunarstarfi skólans.