Krakkakosningar og heimsókn Tabú

Í dag föstudag var kjörstaður opinn hér í Grunnskólanum á Drangsnesi en þá gengu nemendur skólans til krakkakosninga. Krakkakosningar er samstarfsverkefni KrakkaRúv og umboðsmanns barna og er verkefnið í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Börnum er veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á. Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi, við munum fylgjast spennt með.

Dagurinn í dag var annars helgaður mannréttindabaráttu fatlaðra og fræðslu um fatlanir og fötlunarfordóma. Talskonur Tabú þær Freyja Haraldsdóttir þroskaþjálfi og Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir félagsfræðingur buðu upp á einstaklega vel skipulagða fræðslu sem eflaust hafði mikil og góð áhrif á nemendur og aðra sem tóku þátt í fræðslunni. Sjá má ljósmyndir frá viðburðinum á vinasíðu skólans á Facebook. Með okkur voru nemendur og kennarar Grunnskólans á Hólmavík og var frábært að fá góða gesti. Á heimasíðu Tabú má kynna sér nánar starfsemi hópins www.tabu.is