Rýnt í hvali

Í gær, fimmtudaginn 29. apríl vorum við svo heppin að fá heimsókn frá hvalaleiðsögumanninum henni Judith Scott. Hún sagði okkur ýmislegt fróðlegt um hvali, sýndi okkur hvalabein og tennur. Nemendur fengu meira að segja að nefna fjóra af þeim 145 hnúfubökum sem halda sig mikið hér í Steingrímsfirðinum. Hún talaði um að sporður hvals sé eins og fingrafar okkar, enginn þeirra eins – við þekkjum hvalina á sporðunum. Judith hefur tekið myndir af hvölum um allan heim. Þá reynir hún að mynda sporða þeirra og greina, til að gá hvort hún þekki dýrið. Hún skrásetur þannig upplýsingar og fylgir ferðum hvalanna eftir.