Bátaskeyti – verkefni

Hópurinn með bátana sína út við Malarhorn. Mynd: ÁÞ

Nemendur í grunnskólunum á Drangsnesi og Hólmavík sendu bátaskeyti út í Golfstrauminn með kærleiksríkum kveðjum til þeirra sem finna kunnu. Verkefnið er hluti af útikennslu- og náttúruviku 22. – 25. ágúst 2023 þar sem nemendur í 4. – 6. bekk hafa unnið saman að ýmsum verkefnum á Drangsnesi. Yngri nemendur á Drangsnesi gerðu einnig bátaskeyti svo allir 13 nemendur Grunnskóla Drangsness tóku þá þátt í verkefninu. Þetta verkefni er hluti af verkefni um hafstrauma, siglingaleiðir og Baska á Ströndum. Þeir sem kunna að finna einhvern bátanna eru beðnir um að hafa samband og senda tölvupóst um fundarstað á skoli@drangsnes.is 

Allir bátarnir hafa einhver jákvæð og falleg skilaboð til finnenda. Á bátunum er QR kóði sem vísar á þessa síðu. 

Allir bátarnir. Skilaboðin laserbrennd á tréð í samvinnu við Fab Lab Strandir. Mynd: ÁÞ

Nemendur lærðu um flöskuskeyti fyrri alda og ákveðið var að umhverfisvænna væri að senda skeyti með litlum timburbátum. Hver nemandi skrifaði eða teiknaði falleg og jákvæð skilaboð til þess sem myndi finna bátaskeytið. Samstarf var við Fab Lab Strandir á Hólmavík sem laserbrenndi skilaboðin á bátana. Hópurinn fór svo í góðu veðri á útfallinu að fleyta bátunum í sjóinn við Malarhornið og freista þess að þeir myndu ná í straum út í Húnaflóann.

Bátunum fleygt í sjóinn á útfalli. Mynd: ÁÞ

Samkvæmt þjóðsögum á Grímsey á Steingrímsfirði að hafa sprungið út úr berginu á Malarhorni þegar tröllkerling nokkur stakk skóflu sinni í jörð og út sprakk eyjan og Uxinn hennar fylgdi með brotinu. Kerlingin hafði verið í kappi við tvö önnur nátttröll að moka Vestfirðina frá meginlandinu til að búa til tröllaparadís. Ekki tókst betur til en að öll tröllin þrjú urðu sólinni að bráð og má sjá Kerlinguna við sundlaugina á Drangsnesi en hin tvö í fjörunni í Kollafirði. 

Bátarnir komnir í sjóinn við Malarhorn á Drangsnesi. Mynd: ÁÞ

Hér fyrir neðan má sjá nemendur á Drangsnesi með sína báta rétt fyrir fleytingu.