Um fornleifasmiðjuna / haust 2020

Við byrjuðum og enduðum fornleifasmiðjuna í Sandvík þar sem fornleifafræðingar hafa unnið við uppgröft í ár. Lísabet Guðmundsdóttir tók vel á móti okkur í upphafi og í lok smiðjunnar fræddi Bergsveinn okkur um ýmislegt sem við kemur lífinu á víkingaöld og tildrög þess að farið var að grafa í Sandvík, en hann átti einmitt hlut að því.


Í smiðjunni var unnið þvert á íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og myndmennt. Nemendur kynntust gifsi sem efni, prufuðu að steypa í gifs og grafa upp úr því hlut, nánast eins og fornleifafræðingar. Þau fræddust um áhrif ýmissa efna (uppfinningu efna t.d. plast) á söguna og listasöguna okkar og bjuggu til tímalínu í stofu yngri deildar til að sjá þetta betur fyrir sér. Jarðlög voru einnig skoðuð sérstaklega og rætt hvernig þau leika lykilhlutverk í aldursgreiningu fornminja. “Elsti hluturinn heima hjá þér” var skemmtilegt verkefni þar sem nemendur komu með einn hlut í skólann og skoðuðu hann sérstaklega og töluðu um hann fyrir hópinn. Yngri deild bjó til landnáms fæðuhring og til þess skoðuðu þau myndir af beinum sem fundust í Sandvík. Í framhaldi veltu þau fyrir sér hvernig matardiskar framtíðarinnar munu líta út. Það vildi svo skemmtilega til að tveir ungir menn komu frá Árnastofnun með verkefnið: Handritin til barnana, í upphafi smiðjunnar og komu með ýmislegt til að sýna okkur. Þeir sögðu listilega vel frá og töluðu um það hvernig handritin urðu til og hvaða merkingu þau hafa fyrir okkur.