Author Archive

Fullveldishátíð og opið hús 29. nóvember

Í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands bjóðum við til fullveldishátíðar og opins húss í skólanum fimmtudaginn 29. nóvember nk. Nemendur skólans hafa unnið ýmiss konar verkefni í smiðjunni 1918-2018; skrifað leikþátt, samið fræðsluerindi, tekið viðtöl og fengist við þetta tímamótaár ásamt því að skoða atburði liðinnar aldar. Elsti nemandi skólans hefur unnið að þemaverkefni með unglingadeild Grunnskólans á Hólmavík og verða m.a. erindi sem snúa að viðburðum  ársins 1918 flutt á hátíðinni. Boðið verður upp á veitingar og gefst gestum einnig kostur á að skoða önnur verkefni sem nemendur hafa unnið að á haustönninni.

Komum saman og fögnum aldarafmæli fullveldis Íslands!

 

Continue Reading

Baráttudagur gegn einelti og Dagur íslenskrar tungu

Fimmtudaginn 8. nóvember var árlegur baráttudagur gegn einelti og unnum við margvísleg verkefni af því tilefni. Í næstu viku eða föstudaginn 16. nóvember höldum við Dag íslenskrar tungu hátíðlegan með því að halda á dægurlagarúnt. Við munum flytja brot úr gömlum og nýjum dægurlögum hér og þar um þorpið eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu.

Brátt nálgast annarskil og í nógu er að snúast, starfsmenn skólans munu undirbúa það sem framundan er á undirbúningsdegi mánudaginn 12. nóvember.

Continue Reading

PALS námskeið á Reykhólum

Mánudaginn 8. október tóku umsjónarkennarar skólans þær Aðalbjörg (Alla) og Heiðrún þátt í PALS námskeiði í Reykhólaskóla. PALS er lestraraðferð sem byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35-45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Námskeiðið var haldið á vegum SÍSL (Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir) sem átti frumkvæði að innleiðingu PALS í íslensku samfélagi. Eftir haustfrí munu kennarar hefja PALS kennslu á yngsta stigi og miðstigi.

Continue Reading

Skólastarf komið á fullt skrið

Við höfum áorkað miklu þessar fjórar vikur sem nú eru liðnar af skólaárinu. Farið var í skólaferðalag ásamt vinum okkar í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri, Akureyri og Hrísey heimsótt en þar tóku nemendur og starfsmenn Hríseyjarskóla afskaplega vel á móti okkur. Við þökkum samveruna og frábærar mótttökur.

Í liðinni viku héldu nemendur í 4.-9. bekk af stað í Árneshreppinn en  í Finnbogastaðaskóla stóð yfir námskeiðið Heimasmölun undir stjórn Bjarnheiðar Júlíu Fossdal og Elínar Öglu Briem, við komum heim reynslunni ríkari eftir þetta stórkostlega námskeið. Föstudaginn 14. september tók Arnlín Óladóttir á móti okkur í Bjarnarfirði en á hverju hausti og hverju vori vinnum við verkefni í tengslum við skólalundinn okkar í Bjarnarfirði. Við erum svo heppin að njóta leiðsagnar Arnlínar og í þetta sinn skoðuðum við m.a. rætur lúpínunnar ásamt fleiru. Framundan eru spennandi heimsóknir en á morgun þriðjudag heimsækir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur skólann og býður upp á dagskrá fyrir annars vegar unglingastigið og hins vegar miðstigið – nemendur Grunnskóla Hólmavíkur koma til okkar af þessu tilefni. List fyrir alla býður svo upp á söngleikinn Björt í Sumarhúsi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sjá nánar hér https://listfyriralla.is/event/bjort-i-sumarhusi-2/

Það er sem sagt líf og fjör í skólanum alla daga.

Continue Reading